Unglingaheimili

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:00:39 (6154)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Enn held ég áfram að spyrja um barnaverndarmálefni og framkvæmd hinna nýju laga um vernd barna og ungmenna og þá er röðin komin að unglingaheimilunum, en sú fsp. sem ég ber fram er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða unglingaheimili og meðferðarheimili eru rekin hér á landi fyrir börn sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða, sbr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992? Hvar á landinu eru þau? Er fyrirhugað að fjölga slíkum heimilum og dreifa þeim víðar um landið?``
    Svo sem fram kemur í þessari fsp. er ég einkum að leita eftir upplýsingum um það hvort fyrirhugað sé að koma slíku unglingaheimili á laggirnar, t.d. norðan lands, og þá má alveg hugsa sér að það starfi innan Unglingaheimilis ríkisins. Það er talið mjög mikilvægt ef til þess kemur að unglingur vistast á unglingaheimili að ekki séu miklar fjarlægðir frá heimili vegna þess að hluti þess starfs sem fer fram í slíkri meðferð er að byggja upp betri tengsl við fjölskyldu unglings sem þar er. Og þótt slíkt sé því miður ekki unnt í öllu tilvikum, þá er mjög mikilvægt að hafa möguleika til þess og eftir því sem fjarlægðir verða meiri, þeim mun erfiðara er að framkvæma þetta. Ég held að það dyljist ekki að í þessari fsp. er sérstaklega verið að leita eftir þessu en jafnframt að fá upplýsingar um það hvaða heimili eru starfandi og hvernig þessari 51. gr. laga er framfylgt yfir höfuð.