Samvinna barnaverndaryfirvalda og annarra stofnana

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:08:36 (6157)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki síðasta fsp. sem sú sem hér stendur ber fram um barnaverndarmál í dag heldur sú næstsíðasta. En ég vil þá bera fram þessa fsp. án mikilla málalenginga og hún hljóðar svo:
    ,,Hvað líður setningu reglugerðar um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir, sbr. 16. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992?``
    Til þess að skýra þetta held ég að það sé óhjákvæmilegt að lesa hér einnig upp 16. gr. laga sem vísað er til til þess að ljóst sé nákvæmlega hvers konar samstarf er við að

eiga en, með leyfi forseta, stendur þar:
    ,,Öllum þeim, sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna, svo sem starfsfók heilbrigðisþjónustu, skóla, dagvistarheimila barna og löggæslu, er skylt að stuðla að því að barnaverndarstarf komi að sem mestum notum og skulu hafa samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni.
    Barnaverndaryfirvöld skulu með sama hætti hafa samstarf við þá sem stöðu sinnar vegna hafa þekkingu á málefnum barna og ungmenna.
    Skylt er skólum og dagvistarheimilum að hafa náið samstarf við barnaverndarnefndir varðandi stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem standa höllum fæti félagslega.
    Stofnanir á sviði félags- og heilbrigðismála, svo sem áfengismeðferðarstofnanir og geðdeildir, skulu skipuleggja þjónustu sína við foreldra barna þannig að tillit verði tekið til hagsmuna barnanna.
    Skylt er lögreglu, dómstólum og fangelsismálayfirvöldum að hafa samvinnu við barnaverndarnefndir og veita þeim aðstoð við úrlausn barnaverndarmála.
    Félagsmálaráðherra setur reglugerð um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir í samráði við þau ráðuneyti sem viðkomandi stofnanir heyra undir.``
    Ástæðan fyrir því að ég tíunda þetta hér með þessum hætti er sú að hér er um mjög metnaðarfulla grein að ræða og að mínu mati mjög góða, ef í framkvæmd er, en þar mun skipta langmestu máli hvernig til tekst að koma slíku samstarfi á laggirnar. Það er ekki einfalt mál að koma því svo fyrir að lög mæli fyrir um samstarf við skóla og dagvistarheimili svo dæmi séu tekin. Þetta er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér. Vissulega eru margir sem starfa að uppeldismálum í skólum og dagvistarheimilum sem hafa mjög gott frumkvæði og góðan skilning á þessum málum, en það er alveg ljóst að það þarf að koma á einhvers konar formlegu samstarfi og skipulegu ef vel á að vera og öllum að vera gert jafnt undir höfði.