Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:41:09 (6171)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Ég vil sérstaklega vekja á því athygli að 45% þeirra sveitarfélaga sem ráðuneytið hafði hér upplýsingar um og komu fram í máli hæstv. ráðherra að hafa innheimtuhlutfall yfir 80% og verða þess vegna fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi ef það verður ekki komið sérstaklega til móts við þessi sveitarfélög.
    Í máli hæstv. ráðherra kom fram, sem ég hlýt að harma, að það hefur ekki verið ætlunin af hálfu ráðuneytisins að koma neitt til móts við þessi sveitarfélög sérstaklega. Ég harma það vegna þess að ég hafði alltaf staðið í þeirri trú og það var alltaf álit mitt að yrði búið þannig um hnútana að þetta ár í ár ylli engri innbyrðis röskun milli sveitarfélaganna. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hér er um að ræða fullkomna bráðabirgðaráðstöfun sem átti ekki að leiða til neinnar röskunar. Það var a.m.k. þannig sem menn ræddu málin og það var mjög áberandi í umræðunni, sem fram fór þegar frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga var rætt hér fyrir jólin, það var það sem menn voru að tala um.
    Hins vegar hlýt ég að fagna um leið yfirlýsingu hæstv. ráðherra um það að hún hafi skrifað til Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem vakin er athygli á þessu máli og spurt hvort Samband ísl. sveitarfélaga vilji koma til viðræðna um einhverjar breytingar á þessum málum. Ég hlýt að fagna þessu mjög og um leið hlýt ég að láta í ljós mjög mikla undrun á því ef það getur virkilega verið svo að Samband ísl. sveitarfélaga kjósi það að gæta ekki hagsmuna þeirra umbjóðenda sinna, 44% umbjóðenda sinna sem þannig er ástatt um að hafi

haft meira eða betra innheimtuhlutfall en 80% og verði þess vegna fyrir barðinu á þessari framkvæmd. Ég held að það sé nefnilega rétt sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um það ef menn vandi sig ekki mjög í þessu máli og gæta þess að raska ekki innbyrðis aðstæðum sveitarfélaganna með lagasetningu sem þessari. Ég óttast mjög að það að raska þessu innbyrðis kunni að torvelda samstarf sveitarfélaganna við ríkið og það þætti mér mjög slæmt og það væri mjög slæmt því það nauðsynlega mál sem hæstv. félmrh. er nú að vinna að er sameining, stækkun og efling sveitarfélaganna í landinu.