Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 10:37:25 (6249)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 757, um frv. til laga um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana, frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Í upphafi máls míns vil ég lýsa ánægju með að fulltrúar Alþfl., Sjálfstfl., Framsfl. og Kvennalista náðu svo góðri samstöðu um afgreiðslu þessa þýðingarmikla máls og jafnframt þakka ég góða samvinnu í efh.- og viðskn.
    Við umfjöllun efh.- og viðskn. um frv. fékk hún á sinn fund Finn Sveinbjörnsson, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti, Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneyti, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, Halldór Guðbjarnason, bankastjóra Landsbanka Íslands, Árna Tómasson, löggiltan endurskoðanda Landsbanka Íslands, Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Sigurð Hafstein, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða, Stefán Pálsson, bankastjóra Búnaðarbanka Íslands, Val Valsson, bankastjóra Íslandsbanka, Jóhannes Nordal og Birgi Ísleif Gunnarsson, bankastjóra Seðlabanka Íslands.
    Nefndin hefur haldið þrjá fundi um þetta mál og reynt að hraða störfum sínum eins og unnt er til að flýta þessu brýna máli. Í frv. þessu er mælt fyrir um þrenns konar aðgerðir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana og traust á þeim og fellst meiri hluti nefndarinnar á nauðsyn þeirra. Í fyrsta lagi er um að ræða fjárhagsstuðning ríkissjóðs við Landsbanka Íslands, í öðru lagi breytingu á hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka þannig að hann geti, líkt og Tryggingarsjóður sparisjóða, veitt lán til að efla eiginfjárstöðu bankanna og í þriðja lagi heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum tryggingarsjóðanna tveggja í því skyni að veita víkjandi lán til innlánsstofnana. Meiri hluti nefndarinnar bendir á nokkur atriði varðandi frv.:
    Hlutverk tryggingarsjóða viðskiptabanka og sparisjóða breytist með þessum lögum og er því brýnt að flýta endurskoðun ákvæða um sjóðina. Fram kom af hálfu forráðamanna bankanna að skoða þyrfti samsetningu stjórnar sjóðsins með tilliti til hins breytta hlutverks. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um tryggingarsjóði viðskiptabanka og sparisjóða og mun taka það mál til meðferðar við umfjöllun nefndarinnar á frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    X. kafli þess frv. fjallar um tryggingarsjóðina en frv. hefur verið til meðferðar á fundum nefndarinnar að undanförnu. Vil ég af þessu tilefni einnig benda á það sem fram kemur í grg. með frv. því sem hér er til afgreiðslu. Í lok grg. þar sem lýst hefur verið að ríkisstjórnin telur rétt að grípa til almennra aðgerða segir:
    ,,Í því skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið að Tryggingarsjóði viðskiptabanka verði, á hliðstæðan hátt og nú þegar gildir um Tryggingarsjóð sparisjóða, heimilt að veita viðskiptabönkum víkjandi lán. Í því skyni verður sjóðunum heimilað að taka lán með ríkisábyrgð að fjárhæð allt að 3.000 millj. kr. Af þessari fjárhæð er gert ráð fyrir að Tryggingarsjóður viðskiptabanka veiti Landsbankanum allt að 1.000 millj. kr. víkjandi lán.`` --- Og svo lokasetning: ,,Þá verður skipuð nefnd til að semja tillögur um eflingu sjóðanna í framtíðinni og hugsanlega sameiningu þeirra.``
    Meiri hluti efh.- og viðskn. telur að ef til frekari lánveitinga kemur í samræmi við 5. gr. frv. sé eðlilegt að hafa samráð um það við efh.- og viðskn. Minni ég á að það voru fyrstu viðbrögð formanns efh.- og viðskn. þegar Landsbanka voru veittar 1.250 millj. kr. að láni í lok síðasta árs að kalla eftir upplýsingum í nefndina og það voru einnig viðbrögð nú. Strax sl. mánudag var óskað eftir því af hálfu nefndarmanns í efh.- og viðskn. að á reglulegum fundi hennar næsta morgun yrði aflað upplýsinga um málefni Landsbankans sem að sjálfsögðu var orðið fljótt og vel við.
    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. frv. telur meiri hluti nefndarinnar að ekki sé nauðsynlegt að setja á stofn nýjan eftirlitsaðila. Var það sjónarmið einmitt sett fram af fulltrúa ríkisstjórnarinnar á fundi nefndarinnar.
    Að gefnu tilefni vill meiri hluti nefndarinnar benda á nýtt frv. um viðskiptabanka og sparisjóði, sem ég hef þegar getið um og er til umfjöllunar í nefndinni, en þar eru m.a. ákvæði sem lúta að því að veita viðskiptabönkum og sparisjóðum ótvíræðari lagaheimildir en nú gilda til þess að tryggja viðskiptahagsmuni sína með þátttöku í starfsemi fyrirtækja. Nefndin mun leggja áherslu á að hraða meðferð þess.
    Undir nál. rita Rannveig Guðmundsdóttir, varaformaður og frsm., Sólveig Pétursdóttir, Hjálmar Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Guðjón Guðmundsson, Kristín Ástgeirsdóttur með fyrirvara, Halldór Ásgrímsson með fyrirvara og Jóhannes Geir Sigurgeirsson með fyrirvara.
    Endurtek ég þakkir mínar til nefndarmanna og vænti farsællar afgreiðslu málsins á Alþingi.