Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 10:43:21 (6250)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. minni hluta efh.- og viðskn. Nál. er á þskj. 756 og brtt. á þskj. 758.

    Minni hluti nefndarinnar er fylgjandi því að gripið sé til nauðsynlegra aðgerða til að styrkja stöðu Landsbankans og tryggja með óyggjandi hætti að hann standist allar þær kröfur sem til hans eru gerðar. Úr því á annað borð staða Landsbankans er komin á dagskrá með þeim hætti sem raun ber vitni er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en að klára það verkefni sem þar er á ferðinni og tryggja að bankinn geti hvort tveggja uppfyllt þær nýlega settu alþjóðlegu reglur um eiginfjárhlutfall lánastofnana, sem hér eru í gildi, en ekki er það síður mikilvægt að tryggja að Landsbankinn geti áfram sinnt sínu hlutverki sem langstærsti og mikilvægasti atvinnuvegabanki landsmanna, þar á meðal og ekki síst viðskiptabanki sjávarútvegsins. Ljóst er að tæki bankinn til við að draga verulega úr fyrirgreiðslu sinni og umsvifum í þeirri grein þá mundi það hafa alvarleg áhrif.
    Það hefur legið fyrir um alllangt skeið að staða Landsbankans væri nokkuð tæp í sambandi við eiginfjárhlutfallið og hina nýju reiknireglur þar um. Einnig hefur það lengi verið ljóst að það hlutverk sem Landsbankinn sinnir gagnvart sjávarútveginum og atvinnulífinu er mikilvægt og leggur þungar byrðar og skyldur á herðar bankans. Það er þess vegna nokkuð undarlegt að svo hefur verið látið í þessu máli eins og hér hafi miklir og óvæntir atburðir gerst og eitthvað nýtt komið skyndilega fram í dagsljósið sem kallað hafi á bráðar aðgerðir. Svo er að sjálfsögðu ekki. Fátt nýtt hefur gerst í þessu máli annað en það sem lýtur að hinum almennu aðstæðum í efnahags- og atvinnulífi landsmanna og mönnum hefði átt að vera ljóst hver þróunin hefur verið á því sviði undanfarna mánuði.
    Þegar svonefndar BIS-reglur voru til meðferðar á Alþingi á sl. ári var að sjálfsögðu aflað upplýsinga um stöðu bankanna og mátti öllum ljóst vera, enda ekki dreginn á það neinn dulur í umræðum, að staða Landsbankans var tæp. Hann var á mörkunum og mátti ekki við miklum viðbótaráföllum til þess að lenda undir þessi viðmiðunarmörk. En svo var reyndar um fleiri banka og af þeim sökum hefði mönnum ekki átt að koma mikið á óvart, til að mynda þær ráðstafanir sem gera þurfti til handa Landsbankanum rétt fyrir síðustu áramót.
    Á hinn bóginn má svo benda á að staða Landsbankans er um þessar mundir að ýmsu leyti góð. Til að mynda er lausafjárstaða bankans ein sú besta sem verið hefur um langt árabil, um 1,7 milljarðar kr. ef ég man rétt, og bankinn hefur staðið betur gagnvart samskiptum sínum við Seðlabankann á sl. ári en líklega nokkurn tímann fyrr í sögunni eða a.m.k. um mjög langt árabil og ekki greitt krónu í refsivexti til Seðlabankans. Er þá af sem áður var en þær greiðslur námu á undanförnum árum oft hundruðum milljóna króna.
    Að þessu leyti til er staða Landsbankans til skemmri tíma litið slík að hann þarf í raun og veru ekki á neinni sérstakri fyrirgreiðslu eða aðstoð að halda. Bankinn er ekki í vanskilum á nokkrum stað með sín mál og rekstrarfjárstaða hans góð. Reyndar er það svo að samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fyrir á bankaráðsfundi Landsbankans 25. febr. sl. þar sem lagðar voru fram tillögur að lokareikningsuppgjöri fyrir árið 1992 var sýnt að leggja ætti í afskriftasjóð útlána 1.530 millj. Bankinn yrði að vísu eftir það gerður upp með 300 millj. kr. tapi en þá voru 2,8 milljarðar kr. í afskriftasjóði útlána og eiginfjárhlutfall bankans var miðað við það framlag á afskriftareikning 8,45% miðað við hinar nýju BIS-reglur, eða ívið hærra en það var í árslok 1990 en það voru þær upplýsingar sem Alþingi lagði til grundvallar afgreiðslu sinni á frv. til laga á sl. ári um BIS-reglurnar. Þá var eiginfjárhlutfall Landsbankans 8,2% miðað við sömu reglur.
    Það er þess vegna nokkuð sérkennilegt þegar maður hugleiðir að á þessum tveimur árum hefur bankinn þrátt fyrir að afskrifa gífurlegar fjárhæðir bæði árin 1991 og 1992, miðað við þessi áform, hækkað eiginfjárhlutfall sitt. Maður hlýtur að spyrja sig að því --- var þá ekki staða Landsbankans enn þá verri árið 1990 miðað við þetta þegar eiginfjárhlutfall hans var lægra?
    Þess vegna er það mín niðurstaða, hæstv. forseti, af því að skoða gögn í þessu máli að ef eitthvað er tilefni til þeirra aðgerða sem hér eru ræddar sérstaklega þá er það ekki staða Landsbankans í augnablikinu heldur eru það horfurnar. Það er að vísu alveg rétt að þær horfur sem sérfræðingar í málefnum bankans, endurskoðendur og bankaeftirlit og aðrir slíkir aðilar, þykjast sjá eru dökkar. Þar er rætt um gífurlegar fjárhæðir í afskriftaþörf. Það er auðvitað fyrst og fremst það sem hefur breyst og það til hins verra svo um munar. Það eru hinar almennu aðstæður í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Landsbanki Íslands, langstærsti banki landsmanna að Samvinnubankanum meðtöldum með hátt í helming af lánsviðskiptum í landinu, deilir að sjálfsögðu kjörum með atvinnuvegunum og heimilunum í landinu og getur ekki annað. Áföll þar, gjaldþrot og greiðsluerfiðleikar, hljóta að koma fram í greiðsluerfiðleikum bankans.
    En samt er eins og reynt sé að halda umræðunni á þeim nótum að ræða helst allt annað en þetta, sem er hin raunverulega orsök vandans. Bankanum sjálfum jafnvel kennt um, gott ef ekki eru tilburðir uppi til að skamma bankaeftirlitið, sem er hefðbundin aðferð að skamma sendiboðann sem ber hin vondu tíðindi, og flestir aðrir teknir fyrir en þeir sem í raun og með réttu ættu að vera aðalumræðuefnið. Það eru þeir sem bera ábyrgð á stjórnarstefnunni og hinu almenna efnahagsástandi í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Það er sú afturför sem þar hefur orðið á sl. ári sérstaklega og horfurnar fram á við einkum og sér í lagi sem hér eru sökudólgurinn.
    Staða bankans í augnablikinu gefur engin tilefni til írafárs af þessu tagi. Eiginfjárhlutfall hans hefði orðið, ef tillögur bankastjórnar og bankaráðs Landsbankans um uppgjör fyrir árið 1992 hefðu náð fram að ganga, hærra en það var í árslok árið 1990 miðað við hinar nýju BIS-reglur. Það má verða mönnum nokkurt umhugsunarefni.
    Hitt er svo það, hæstv. forseti, sem rakið er í nál. minni hlutans að þær aðferðir sem hæstv. ríkisstjórn greip til í þessu máli eru stórlega ámælisverðar. Það er ljóst þegar málið er skoðað að verulega skortir á faglegan og tæknilegan undirbúning. Það er reyndar viðurkennt í nál. meiri hlutans þar sem farið er yfir það í þó nokkrum setningum að hraða þurfi endurskoðun á þessu og hinu, óljóst sé hvernig eigi að haga stjórn á tryggingarsjóðnum o.s.frv. Þar fer fram veruleg sjálfsgagnrýni og það er út af fyrir sig æskilegt og gott en með því eru menn líka að viðurkenna að málið sé alls ekki nægjanlega undirbúið. Tryggingarsjóður er t.d. ekki viðbúinn því að taka við því hlutverki sem honum er þarna ætlað. Núverandi stjórnendur hans biðjast undan því að sitja þar áfram ef hann eigi að axla þetta nýja verkefni o.s.frv. Ég held því að enginn geti annað en viðurkennt að þarna sé í raun og veru kastað stórlega til höndunum.
    Margt er óljóst um útfærslu þessara aðgerða. Með öllu á eftir að reyna á hver áhrif þessara aðgerða verða á innbyrðis samkeppni lánastofnana í framtíðinni. Það er afar vandasöm aðgerð að færa milljarða úr opinberum sjóðum yfir til einnar stofnunar sem á í samkeppni við aðrar. Hafa menn ekki verið að tala hér hástemmdum orðum um ný samkeppnislög? Var það ekki hæstv. heilbrrh. sem taldi alveg nauðsynlegt að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna af því að það væri svo ósanngjarnt að svo sterkur aðili með stuðningi af Ríkisspítölunum keppti við önnur þvottahús í landinu? Þá hafði hæstv. heilbrrh. miklar áhyggjur af slíkum hlutum. Hann hefur lítið talað um það sem hér er verið að gera, að færa milljarða úr sameiginlegum sjóði landsmanna yfir til einnar lánastofnunar sem keppir við aðra.
    Ég nefni þetta til þess að minna á þá staðreynd að þarna er á ferðinni ákaflega vandasamur þáttur þessa máls sem sáralítið hefur verið fjallað um. Landsbankinn sér enda ástæðu til þess að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem hann lofar því að beita ekki auknum styrk sínum sem af þessari eiginfjáraukningu leiðir í samkeppni við aðrar lánastofnanir. Lofar fyrir fram að það skuli hann ekki gera. Auðvitað hefur Landsbankinn nóg verkefni eftir sem áður og þrátt fyrir þessa styrkingu á eigin fé þá verður hann ekki nema á sæmilega sambærilegu róli við aðra banka. En það breytir ekki hinu að þarna er á ferðinni stórfellt inngrip í samkeppnisskilyrði stofnana sem okkur hefur a.m.k. verið talin trú um á undanförnum árum að ættu í samkeppni.
    Síðan er það sú aðferð sem hér er valin og ég tel kannski hvað alvarlegast hversu flausturslega að málunum er staðið. Það er sú aðferð að færa verulegan hluta þessa stuðnings yfir til bankans í formi eigin fjár frá eigandanum sem aftur verður fært yfir í afskriftareikning útlána í gegnum rekstrarreikning bankans og sýnt þar með sem sambærilegt rekstrartap hans. Á hinum Norðurlöndunum hefur yfirleitt verið valin önnur aðferð, þ.e. sú að ríkið eða eigendur bankanna hafa annaðhvort sjálfir beint yfirtekið hluta af óhagstæðustu skuldbindingum viðkomandi lánastofnana eða stofnað sérstaka sjóði til að taka að sér þetta verkefni og reyna eftir atvikum að koma slíkum hlutum í verð eftir því sem aðstæður leyfa en taka síðan á sig mismuninn, afföllin.
    Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna skyldu menn nú hafa valið þessa leið á hinum Norðurlöndunum en ekki hér? Eru þeir svona miklu vitlausari en við á öllum hinum Norðurlöndunum að þeir fari svo heimskulega að hlutunum? Er það reynslan? Nei, ætli það sé ekki einhver ástæða fyrir því að ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna, a.m.k. þriggja þeirra, hafa yfirleitt valið aðra aðferð en þessa til að koma sínum stærstu bönkum til aðstoðar. Ég held að ein ástæða sé sú að þeir hafa viljað forðast það að sýna þá hroðalegu afkomu í rekstrarreikningum bankanna sem annars hefði þurft að verða ef þeir hefðu farið þessa íslensku aðferð eða a.m.k. farið hana einhliða.
    Ég sakna þess vegna þess að stjórnin hefði a.m.k. skoðað að fara að einhverju leyti þá leið að leysa frá Landsbankanum einhverjar óhagstæðar skuldbindingar hans eða yfirtaka eignir sem Landsbankinn hefur orðið að taka upp í skuldir eða veð og hvergi nærri standa undir þeim kröfum sem til þeirra hafa verið gerðar. Mér hefur skilist að aðalröksemdin fyrir þessari aðferð, a.m.k. sú sem færð var fram í efh.- og viðskn. af fulltrúum viðskrn. sem þar kom, væri sú að það væri hlutverk bankanna að vasast í svona löguðu. Þeir ættu að sjá um það að taka á svona vandamálum og þess vegna væri best að skilja þetta eftir þar. Einnig hafa einstöku menn haft uppi háðuleg orð um úreldingarsjóði útlána og annað því um líkt og væntanlega þykjast fínni menn en svo að hér uppi á Íslandi fari menn slíkar leiðir.
    Ég held að þetta sé heldur barnalegt. Ég held að það væri nokkuð til vinnandi að hlífa Landsbanka Íslands við það að gera upp ársreikninga sína. Ef það á að verða á árinu 1992 þá er það reyndar spurningarefni til hæstv. viðskrh.: Hvernig hugsar hann sér að farið verði að því? Á að taka upp reikninga ársins 1992, sem bankinn var þegar búinn að ganga frá, og stenst það? Eða á að færa allt þetta tap á árið 1993? Hvert verður þá tapið á Landsbanka Íslands á árinu 1993 ef það verður niðurstaðan að þessar auknu afskriftir komi ekki inn á árið 1992 heldur verði við þær 1.530 millj. kr. látið sitja sem bankastjórn og bankaráð höfðu áður áformað og fjölluðu um á fundi sínum 25. febr.? Þá sýnist mér að árið 1993 sé orðið enn svartara. Og ég hefði gaman af að spyrja hæstv. viðskrh. hvað honum sýnist þá að tapið á Landsbanka Íslands verði margir milljarðar á árinu 1993 ef þessar afskriftir færast líka á reikning þess árs.
    Sá möguleiki hefur einnig verið nefndur í þessu sambandi að hugsanlega gætu fjársterkir sjóðir sameinast Landsbankanum og þannig styrkt eiginfjárstöðu hans. Einstöku menn hafa jafnvel velt þeim möguleika fyrir sér að ríkisbankarnir báðir yrðu sameinaðir í einn öflugan ríkisbanka sem yrði þá sterkari og betur settur hlutfallslega en Landsbankinn er þar sem staða Búnaðarbankans er, sem kunnugt er, allmiklu sterkari.
    Ég held að mörgum spurningum sé ósvarað um þessa aðferð. Þó ég sé alls ekki að segja að ekki hafi komið til greina og ekki kunni að vera nauðsynlegt að Landsbankinn fái einhvern verulegan hluta þessa stuðnings í formi eigin fjárs frá eiganda sínum þá held ég að menn hefðu átt að skoða betur, með tilliti til þess að engan bráðan vanda bar hér að höndum, aðrar mögulegar aðferðir eða blandaðar aðferðir af þessu tagi.
    Langverst af öllu er auðvitað það óðagot og það hræðsluástand sem hæstv. ríkisstjórn skapaði sl. þriðjudag með sínum flausturslegu vinnubrögðum. Það er að mínu mati langverst af öllu sem í þessu máli gerðist og það dýrasta, óttast ég. Þar held ég að ómælt tap kunni að hafa átt sér stað, sem auðvitað verður aldrei vegið eða metið, en engin vafi er þó á því að þessi tilefnislausi hvellur var afar óheppilegur og enga nauðsyn bar til þeirra taugaveiklunarlegu viðbragða og atburða sem urðu þennan eftirmiðdag sl. þriðjudag. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að sú umræða sem í kjölfarið sigldi verður mjög líklega til þess að gera lánskjör okkar út á við mun lakari a.m.k. um sinn og veldur þannig óhagstæðari skiptahlut okkar landsmanna en ella hefði þurft að verða.
    Ég held að þó ekkert annað kæmi til en til að mynda stutt umfjöllun af því tagi sem er í Financial Times í gærmorgun þar sem fyrirsögnin er ósköp einfaldlega: Ísland bjargar banka. Svo er talað um að þar sé á ferðinni Landsbankinn, langstærsti banki þjóðarinnar og fréttin byggist á þeim grunni að þarna hafi verið um alveg sérstakar og brýnar björgunaraðgerðir að ræða. Með öðrum orðum hafi bankinn verið að komast í þrot, komast í einhver vandræði af því tagi að það hafi kallað á sérstakan björgunarleiðangur ríkisstjórnar. En þetta er rangt, sem betur fer þá þurfti ekki að kalla þarna út björgunarsveit eða slökkvilið. Ástandið var alls ekki sambærileg við það.
    Ég held að þessi auglýsing í Financial Times og hugsanlega fleiri sem kunna að koma í The Economist eða einhverjum öðrum slíkum ritum sem hinn alþjóðlegi fjármálaheimur fyrst og fremst les og styðst við sé ákaflega dýr. Það er að vísu þannig að allar auglýsingar í erlendum stórblöðum eru dýrar og síðan kostar gjarnan upp í hálfa milljón eða svo, en þessi litla klausa þó lítil sé um sig kann að verða býsna óþægileg viðureignar þegar viðskipti fara svo fram milli aðila sem þekkja kannski ekki mjög vel til málsins að öðru leyti en því að fylgjast almennt með gangi mála í gegnum alþjóðleg blöð af þessu tagi sem fjalla um efnahagsmál.
    Reyndar liggur það einnig fyrir að bankastjórar, til að mynda bankastjóri Íslandsbanka, metur það svo að líklegt sé að við verðum fyrir eitthvað lakari lánskjörum, a.m.k. til skamms tíma á meðan þetta él er að ganga yfir. Þess gætir jafnvel nú þegar að uppihald hafi orðið í viðræðum íslenskra banka við erlenda lánveitendur um fjármögnun tiltekinna verkefna. Um það hef ég upplýsingar.
    Menn eiga því ekki að láta sem svo að hér hafi ekkert gerst og að hér hafi ekki orðið heldur óþægilegir og erfiðir atburðir. Menn geta að sjálfsögðu sagt að það hefði ekki skipt öllu máli hvernig þessar aðgerðir til handa Landsbankanum hefði borið að. Þær hefðu alltaf í sjálfu sér haft einhver neikvæð áhrif. Bara sú frétt, hversu rólega og yfirvegað sem hún hefði verið flutt, að upp á Íslandi hefði eigandi stærsta banka þjóðarinnar, ríkið, gripið til tiltekinna ráðstafana til að styrkja hann hefði getað haft einhver óæskileg áhrif yfir höfuð.
En ég held að það hljóti allir skynsamir menn að játa að það skiptir miklu máli hvernig hún er flutt, hvernig hún er undirbyggð, hvernig hún er kynnt og hvernig hún er rökstudd.
    Ég tel til að mynda að ef hægt hefði verið að tengja aðgerðir sem hefðu komið Landsbankanum til góða saman við til að mynda ákveðna endurskipulagningu í fjármálaheiminum hér eða gagnvart málefnum sjávarútvegsins þannig að það hefði ekkert síður verið aðgerð sem hefði tengst þeim vanda sem orsakar erfiðleika Landsbankans þá hefði málið litið allt öðruvísi út. Þá hefði Landsbankinn sem stofnun ekki verið jafnaleinn og nakinn á sviðinu, liggur mér við að segja, og hann er samkvæmt þessari aðferð. Það er auðvitað ljóst að Landsbankinn sem stofnun axlar þarna mikinn herkostnað. Ég tel að það hefði mátt standa þannig að málum að hann hefði ekki sem slíkur þurft að bera slíkar byrðar einn.
    Um hitt, að aðgerðin hljóti að mælast vel fyrir og auka traust manna á bankanum af því að hún sýni að ríkið standi við bakið á honum, þá er það tvíbent þegar tilfinning manna er sú að aðgerðin sé fyrst og fremst til komin vegna þess vanda sem bankinn hafi verið kominn í og hafi verið svo mikill að hann hafi kallað á slíka fyrirgreiðslu. Menn gætu ósköp einfaldlega dregið þá ályktun að bankinn væri þá ekki nema rétt jafnsettur og rétt sæmilega á löppunum eftir aðgerðina. Það er þess vegna ekki endilega svo að fréttir um aðgerð af þessu tagi þurfi í sjálfu sér að vekja mikið aukið traust á bankanum, því miður, þegar farið er ofan í saumana á því. Vissulega er ekki um annað að ræða en að fylgja þessu máli þannig eftir að reyna að kynna og upplýsa um það að staða Landsbankans sé sterk. Og það verður að sjálfsögðu að reyna að gera, enda efni til þess. En ef við horfum fyrst og fremst á það hver viðbrögð manna verða sem ekki þekkja náið til og hver áróðursáhrif þessara atburða geta verið þá er það því miður alls ekki sjálfgefið að þetta mælist til mikils vegsauka bankans, því miður.
    Á þskj. 758 eru fluttar þær brtt. sem við þingmenn Alþb. teljum rétt að gera á þessu frv. og mun ég fara yfir þær. Þær lúta í fyrsta lagi að breytingum á 1. gr. frv. og koma til af því, sem ég hef rakið, að við teljum að það eigi að hafa það alveg skýrt í lagatextanum að til greina komi að veita Landsbankanum stuðning á þann veg einnig að yfirtaka eitthvað af lánum eða skuldbindingum bankans. Því leggjum við til að við 1. málsl. 1. gr. orðist svo: Ríkisstjórninni er heimilt að bæta eiginfjárstöðu Landsbanka Íslands á árinu 1993 með allt að 2.000 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði í reiðufé eða ríkisskuldabréfum, með víkjandi láni eða með öðrum jafngildum hætti`` og svo komi, ,,svo sem með yfirtöku eigna eða útlána sem bæti stöðu bankans.`` Menn geta sagt að þarna sé ekki í raun eiginleg efnisbreyting á ferðinni því orðin ,,jafngildum hætti`` nái yfir slíka hluti. Það má til sanns vegar færa en ég held að það sé ekki lakara að Alþingi lýsi því yfir með ótvíræðum hætti að þessi aðferð skuli metast jafngild ef hún komi bankanum að sömu notum og bæti stöðu hans sambærilega.
    Í nál. meiri hlutans er vikið að því að það sjónarmið kom fram í efh.- og viðskn. að til þess að bankarnir gætu gætt betur hagsmuna sinna við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum þá væri æskilegt að þeir fengju rýmri og ótvíræðari heimildir til að leysa til sín eignir til að standa tímabundið í atvinnurekstri sem annars er ekki á þeirra verksviði. Núgildandi heimild laga um viðskiptabanka frá 1985 er tiltölulega þröng, það er 29. gr., og hún er svohljóðandi:
    ,,Viðskiptabanka er ekki heimilt að eiga aðrar fasteignir en þær sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi bankans.
    Viðskiptabanka er þó heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati bankastjórnar.``
    Þessi grein er í raun og veru mjög þröng og það má deila um það hvort hún yfir höfuð feli í sér heimild til bankanna til að standa fyrir atvinnurekstri, jafnvel þó tímabundið sé, ef hún er túlkuð þröngt þá mætti eins lesa það út úr henni að hún tæki fyrst og fremst til heimildar bankanna til að leysa til sín fasteignir umfram það sem þeir þurfa starfsemi sinnar vegna tímabundið enda selji þeir þær jafnskjótt og það er talið hagkvæmt. Þess vegna liggur fyrir í frv. til laga um viðskiptabanka, sem er til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn., nýtt lagaákvæði sem er rýmra að þessu leyti og ég tel því rétt að taka það ákvæði upp og geri um það tillögu að það verði tekið og afgreitt samhliða þessu frv. þannig að bankarnir geti a.m.k. ekki borið það fyrir sig eða kvartað undan því að í hagsmunagæslu sinni hafi þeir ekki nægjanlega rúmar heimildir til þess að yfirtaka eignir eða stunda tímabundið aðra starfsemi en þá sem þeim er ætlað samkvæmt bankalögum.
    Þannig að við leggjum til að á eftir 2. gr. frv. komi ný grein sem orðist svo:
    ,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra.
    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda tímabundið aðra starfsemi en þá sem um getur í 26.--28. gr. ef slík þátttaka er einungis í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum fyrirtækja við viðskiptabanka eða sparisjóð og sé liður í endurskipulagningu á starfsemi viðskiptaaðila þessara stofnana. Skýrsla hér að lútandi skal send bankaeftirlitinu.``
    Með því að taka þessa grein upp væri fyrir því séð að ekki þyrfti að koma til deilna eða álitamála af því tagi sem mér skilst að hafi til að mynda risið þegar Landsbanki Íslands var að gæta hagsmuna sinna í gegnum eignarhaldsfélag sem þar var stofnað og leysa til sín m.a. eignir Sambandsins og fleiri fyrirtækja.
    Í þriðja lagi kem ég að þeim ákvæðum frv. sem ekki eru beint tengd fyrirgreiðslunni við Landsbankann nema þá að hluta til þar sem er 3., 4. og 5. gr. frv. en þær fjalla um Tryggingarsjóð viðskiptabanka, Tryggingarsjóð sparisjóða og síðan heimild fjmrh. til að ábyrgjast lántökur til tryggingarsjóðanna.
    Það er okkar skoðun í Alþb. að sú málsmeðferð sem hér er lögð til sé lítt undirbúin og afar fljótfærnislegt að ætla sér að gera þessar eðlisbreytingar á stjórn tryggingarsjóðsins og hlutverki hans og opna um leið óskilyrta tveggja milljarða kr. heimild til handa ráðherrum til að ráðstafa til lánastofnana án nokkurs frekara samþykkis eða nokkurrar frekari umfjöllunar á Alþingi.
    Ég vísa þá aftur til þess sem fram hefur komið til að mynda um stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka. Hana skipar að vísu ráðherra með reglugerð samkvæmt núgildandi lögum en stjórnin er þannig skipuð í dag að í henni sitja bankastjórar Búnaðarbanka, Íslandsbanka og væntanlega einhverra fleiri lánastofnana. Það liggur í hlutarins eðli að ef tryggingarsjóðurinn á að taka við þessu nýja hlutverki þá verða þeir komnir í harla sérkennilega stöðu, bankastjórar Búnaðarbanka og Íslandsbanka t.d., ef þeir eiga að fara að fjalla um og meta gögn og trúnaðarupplýsingar frá Landsbankanum eða jafnvel sjálfum sér um það hvort ástæða sé til að veita þeim fyrirgreiðslu af því tagi sem þarna er verið að opna á. Slíkt gengur auðvitað ekki og liggur í hlutarins eðli að samhliða þessu breytta hlutverki tryggingarsjóðsins verður að taka með einhverjum hætti á stjórnun hans. Spurningin er ef hann á að fá þetta viðamikla verkefni og vandasama að styrkja eiginfjárstöðu lánastofnana sem eru í erfiðleikum með víkjandi lánveitingum á grundvelli ríkisábyrgðar hvort ekki ætti að skoða þann möguleika að yfir tryggingarsjóðina yrði sett þingkjörin stjórn. Þá væri a.m.k. framkvæmdarvaldið ekki aleitt að vasast í þessum vandasömu málum og útdeila ríkisábyrgðum af því tagi sem hér er ætlunin að leggja til, að viðskrh. að höfðu vissu samráði við fjmrh. fái undirskrifaða ávísun þar sem búið er að setja inn upphæðina en eftir á að færa inn heimilisfangið.
    Við leggjum því til í þriðja lagi að 3. gr. frv. breytist þannig að ótvírætt sé að áður en til veitingar á víkjandi láni kemur verði aflað samþykkis viðskrh. og Alþingis. Greinin orðist þá svo, með leyfi forseta:

    ,,Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag. Hlutverk hans er annars vegar að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 47. gr. og hins vegar að veita viðskiptabanka`` --- og þar kemur að hinu nýja hlutverki --- ,,víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til hans aflað sérstaklega með lántöku. Áður en stjórn sjóðsins ákveður að veita víkjandi lán úr sjóðnum skal hún leita samþykkis viðskrh. og Alþingis.``
    Nú vill þannig til að viðskiptabankarnir eru þrír og einn þeirra, Landsbankinn, er að fá ákveðna fyrirgreiðslu og þá eru eftir tveir. Ég held að það sé ekki mikil ástæða til að vera með þann feluleik sem hér er upp settur að hafa þarna tiltæka tvo milljarða króna og láta eins og það geti bara gerst næstum að segja vikulega að einhver lítill viðskiptabanki banki upp á og þurfi að fá hjálp. Þeir eru nú ekki nema tveir eftir, Búnaðarbankinn og Íslandsbanki, þannig að það er ekkert óskaplega flókið mál að skoða hvað til greina kemur. Þetta eru ekki tugir eða hundruð af bönkum úti í þjóðfélaginu mismunandi settum sem gætu komið til greina. Ónei. Tveir bankar. Íslandsbanki og Búnaðarbankinn.
    Nú vill enn fremur svo til að báðir hafa svarið það rækilega af sér að þeir þurfi á nokkurri aðstoð að halda, afþakka það og beðist undan því að vera nefndir í því sambandi. Þá spyr maður sig auðvitað að því til hvers er þetta þá að vera að opna svona tveggja milljarða ávísanareikning fyrir hæstv. viðskrh. til að ráðstafa handa einhverjum bönkum ef honum sýnist svo. Ég held að þetta sé í raun og veru alveg fráleitur málflutningur. Einu rökin, efnislegu rökin, sem komið hafa fram í málinu eru þau að það sé skynsamlegt að gefa ákveðna vísbendingu eða senda ákveðin skilaboð út í umheiminn um að íslenska ríkisstjórnin mundi standa á bak við bankakerfið allt ef á þarf að halda. Gott og vel. Með breytingum á tryggingarsjóðnum eins og hér eru lagðar til þá eru í raun og veru slík skilaboð send. Hlutverki tryggingarsjóðsins er breytt í þá veru að hann getur sinnt þessu hlutverki ef á þarf að halda. En halda menn ef að því kemur að annar hvor hinna viðskiptabankanna þarf á aðstoð að halda eða Landsbankinn á frekari aðstoð að halda, einhvern tímann í fyllingu tímans, að þá sé það smámál sem eðlilegt sé að viðskrh. afgreið við skrifborðið hjá sér án þess að tala við Alþingi? Ég held ekki. Ég held að það sé fráleitt hjá þjóð sem á þrjá banka að láta eins og við séum með eitthvert fyrirkomulag þar sem það geti gerst bara dögum oftar að einhverjir litlir viðskiptabankar banki upp á og þurfi að fá smá uppáhelling. Það er auðvitað ekki svo. Efnislega liggur málið þannig að það er með öllu ástæðulaust að hafa þarna þessa opnu heimild, það hefur enginn beðið um hana, a.m.k. enginn kannast við það að hann þurfi á henni að halda. Kannski er þar einhver fiskur undir steini, um það vitum við ekki. En hvort sem heldur er þá er þetta auðvitað fáránlegur málatilbúnaður. Ég spyr og ég lýsi eftir því: Hvar eru allir þeir heittrúarmenn og hreinlífismenn á Alþingi sem undanfarin ár hafa í ræðu og riti staðið dyggan vörð um það að aldrei sé sent héðan út króna nema Alþingi blessi það sérstaklega, hvorki í formi fjárveitinga né ríkisábyrgða? Hvar eru þeir hreinlífismenn nú, fyrrv. og núv. formenn fjárveitinganefnda o.s.frv.? Ætla þeir allir saman að rétta upp spaðann þegar á að afhenda hæstv. viðskrh. tveggja milljarða kr. innistæðu á ávísanareikningi og heftið með og það eina sem eftir er er að stíla á ávísunina nafn? Þetta er mjög sérkennilegur málatilbúnaður.
    Auðvitað gegnir talsvert öðru máli um Tryggingarsjóð sparisjóðanna enda eru hans ákvæði önnur. Hann hefur haft heimildir til að veita víkjandi lán og hann hefur gert það. Kom til að mynda lánastofnun hér rétt hinum megin við ónefndan læk til aðstoðar á sl. ári. Hann hefur haft þessa heimild enda er þar um tugi smárra stofnana að ræða sem allt öðru máli gegnir um, upphæðirnar hverfandi borið saman við það sem hér gæti átt í hlut þegar hinir þrír stóru viðskiptabankar og einu viðskiptabankar þjóðarinnar eiga í hlut.
    Í fjórða lagi leggjum við til að 5. gr. verði í framhaldi af þessu og í samræmi við þetta breytt þannig að þar fái fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs heimild til þess að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Tryggingarsjóðs viðskiptabanka að fjárhæð allt að 1.000 millj. kr. Það er sú fjárhæð sem þegar hefur verið ákveðið að gangi til Landsbanka Íslands í viðbót við það víkjandi lán sem Seðlabankinn veitti honum rétt fyrir sl. áramót. Þar með fær hæstv. ráðherra heimild til þess að ljúka því verkefni eins og ríkisstjórnin hefur ætlað sér en ekki meira. Og hann þarf ekki meira, það hefur enginn beðið um meira, það er engin ástæða til að afgreiða hér meira.
    Að síðustu leggjum við til að 6. gr. frv. falli brott. Það er auðvitað með öllu ástæðulaust að vera með þvingunarákvæði sem lögfesta skilyrði fyrir því að aðgerðir af þessu tagi geti gengið í gegn, að binda það í lög að til þurfi að koma samningur milli viðskrh. og fjmrh. annars vegar og hlutaðeigandi stofnunar hins vegar. Síðan stendur í athugasemdum með frv. að inn í þennan samning eigi að koma ákvæði um sérstakt eftirlit með stofnuninni. Þetta er auðvitað alveg fráleitur málatilbúnaður. En svo segir í umsögn um 6. gr. í grg. með frv.:
    ,,Fyrirgreiðsla við innlánsstofnanir samkvæmt ákvæðum frv. er háð því skilyrði að gerður verði samningur milli viðskrh. og fjmrh. annars vegar og hlutaðeigandi innlánsstofnunar um það til hvaða ráðstafana stofnunin skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu. Í samningnum verður kveðið á um eftirlit með framkvæmd hans.``
    Nú er það að vísu svo að meiri hlutinn afneitar þessu ákvæði og biðst undan því í nál. sínu, en þar stendur að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. telur meiri hluti nefndarinnar að ekki sé nauðsynlegt að setja á stofn nýjan eftirlitsaðila. Gott og vel, en grg. frv. stendur væntanlega áfram sem lögskýring auk orða hæstv. fjmrh. sem gekk svo langt að segja að ríkisstjórninni væri beinlínis skylt að hlutast til um aukið eftirlit með

stofnunum í framhaldi af svona aðgerðum. Þá verður auðvitað að svara því: Er verið að yfirtaka að einhverju leyti stjórn bankans? Er verið að því? Er það ætlunin? Er hugsunin svipuð og þegar hæstv. ríkisstjórn hugðist á sl. ári taka að sér stjórn flestra opinberra stofnana ef svo bæri undir með því að senda inn í þær sérstaka tilsjónarmenn sem væru handvaldir af ráðherrunum? Á að senda sérstaka tilsjónarmenn inn í Landsbankann á grundvelli 6. gr.? Til hvers þarf sérstaka lagaheimild gagnvart jafnaugljósum hlut og þeim að ráðherrar geta gert það að skilyrði að samningur sé gerður þegar um heimildarákvæði til þeirra er að ræða að veita tiltekna aðstoð. Þeir þurfa auðvitað engin lög til þess. Frv. er allt á formi heimildarákvæða til handa viðskrh. Hann ræður því sjálfur hvort af aðstoðinni verður, honum er heimilt að ábyrgjast lán, ríkisstjórninni verður heimilt að veita víkjandi lán o.s.frv. Þeir þurfa enga lagagrein til að þvinga þann sem við aðstoðinni á að taka undir eitthvert ok samninga. Það er miklu eðlilegra að það gerist a.m.k. að nafninu til á frjálsum grundvelli í samningum stofnunarinnar og ríkisins en það sé ekki Alþingi sem sé að þvinga slíkt fram eða setja slíkt að skilyrði í lögunum, nema Alþingi taki það verkefni að sér og sjái sjálft um þessa samningagerð.
    Við leggjum til að greinin falli brott og væntanlega styðja a.m.k. í hjarta sínu þeir aðilar meiri hlutans sem taka það fram í sínu nál. að greinin sé óþörf. Þeir styðja þetta væntanlega, það verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæði falla þegar þetta verður afgreitt á eftir.
    Þá vil ég aðeins nefna, hæstv. forseti, í framhaldi af þessu af því að nál. meiri hlutans hefur borið á góma, að þar kemur það fram sem að sjálfsögðu er eðlilegt að aðgerðir af þessu tagi ætti að framkvæma í samráði við Alþingi og nefnd er efh.- og viðskn. Ég er þessu að sjálfsögðu hjartanlega sammála og byrjaði á því að mótmæla því í efh.- og viðskn. fyrir tveim dögum síðan að hún skyldi ekki hafa verið höfð með í ráðum, látin fylgjast með þessu máli sem er auðvitað hneyksli. Líka vegna þess að í efh.- og viðskn. var á sl. ári fjallað mikið um þetta mál þegar hinar nýju BIS-reglur voru til afgreiðslu og mér er nær að halda að það sé bókað í fundargerðarbók nefndarinnar að hún óski eftir því að fá að fylgjast með hvernig bönkunum gangi að uppfylla reglurnar. Það var a.m.k. margtekið fram, bæði af þeim sem hér talar og fleiri nefndarmönnum að við vildum í framhaldi af lagasetningunni fá að fylgjast með hvernig stofnununum gengi að uppfylla ákvæðin. En hver varð niðurstaðan, hver varð reyndin? Jú, hún var sú að efh.- og viðskn. frétti að sjálfsögðu af því í fjölmiðlum eins og aðrir fyrir áramótin að ákveðið hefði verið að veita Landsbankanum 1.250 millj. kr. víkjandi lán frá Seðlabanka og nú sl. þriðjudag að ákveðið hefði verið að veita Landsbankanum þá fyrirgreiðslu sem hér er til umræðu. Í báðum tilvikum frétti efh.- og viðskn. af því í fjölmiðlum. Í fyrra tilvikinu var það reyndar starfandi formaður og aðalformaður á þessu ári efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem fór í fjölmiðla og leyfði sér að draga í efa lögmæti þeirra ráðstafana. Spurði hvar væru heimildir til þess að afgreiða svona víkjandi lán. Er ekki Seðlabankinn ríkisstofnun? Á ekki ríkið Seðlabankann? Hefur Seðlabankinn sjálfstæðar heimildir til að veita ríkisábyrgðir af þessu tagi? En það var náttúrlega þaggað niður í formanni efh.- og viðskn. heldur snarlega og hann beðinn að vera ekki að þessu og hefur lítið af honum heyrst síðan. ( Gripið fram í: Á ekki Seðlabankinn ríkið?) Maður veltir því auðvitað stundum fyrir sig hver telji sig eiga hvern í þessu þjóðfélagi.
    Ég verð að segja að þrátt fyrir fallega hugsun félaga minna í efh.- og viðskn. sem rita undir nál. meiri hlutans þá verð ég að játa það að ég gef ákaflega lítið fyrir þetta, því miður, í ljósi reynslunnar. Þess vegna held ég að það komi ekki í stað þess að Alþingi þurfi að samþykkja ríkisábyrgðir af þessu tagi. Það er auðvitað það eina eðlilega. Eða finnst mönnum það virkilega eðlilegt að ef einhver bankinn lendir í hremmingum síðar á þessu ári, hæstv. viðskrh. hefur tékkheftið, að hann geti sent honum 1.500 millj. kr. ávísun, svo dæmi sé tekið, og hringir svo í formann efh.- og viðskn. og segir: Villi minn, við ætlum að senda þeim þarna peninga og veita þeim lán. Þar með væri væntanlega samráði við efh.- og viðskn. fullnægt --- eða hvað? Nema það sé þessi tegund af samráði eftir á sem er auðvitað alveg sérstakt fyrirbæri og mikið praktíseruð hjá núv. ríkisstjórn, að hafa samráð við menn eftir á. En það má auðvitað kalla það samráð eftir á að efh.- og viðskn. fékk að frétta af því í gegnum fjölmiðla eins og aðrir að ríkisstjórnin hefði veitt Landsbankanum lán eða Seðlabankinn fyrir áramótin og ríkisstjórnin ákveðið sl. þriðjudag að gera þetta. Það er e.t.v. þessi tegund af samráði sem þarna er höfð í huga í nál. meiri hlutans.
    Þá hefði ég talið eðlilegt að tiltaka tímafrest í því skyni, t.d. að ríkisstjórnin skyldi tilkynna efh.- og viðskn. eigi síðar en tveimur sólarhringum eftir að hún hefði afgreitt málin að slíkt hefði gerst. Þannig væri þetta innan skikkanlegra marka.
    Nei, auðvitað er því miður ekki mikið gefandi fyrir þetta. Þess vegna held ég að það eina sem gildi sé auðvitað spurningin: Vill Alþingi afgreiða frá sér þessa heimild eða ekki? Vill Alþingi hafa þessi mál í sínum höndum eða ekki? Þeirri spurningu svara menn um leið og 5. gr. er afgreidd með því hvort þeir vilji hafa þar hærri upphæð en þá sem þegar hefur verið ákveðið að ráðstafa til Landsbankans. Ef menn telja eðlilegt að Alþingi fjalli um stærri ákvarðanir af því tagi sem þarna gætu átt í hlut þá ættu menn að styðja þá brtt. að lækka þessa upphæð í einn milljarð kr., það er sú upphæð sem ákveðið hefur verið að ráðstafa til Landsbankans og afgreiða þá frekari heimildir ef þörf krefur með sérstökum ákvörðunum Alþingis. Það er auðvitað langeðlilegast.
    Rétt er auðvitað að hafa það í huga og minna á það af því sá misskilningur virðist vera á ferðinni að þessar víkjandi lánveitingar séu eins og sérstök blessun fyrir viðkomandi stofnanir sem slíkar. Hafi það ekki komið fram þá er rétt að upplýsa það að svo er ekki í sjálfu sér, þetta er tiltölulega dýrt fjármagn sem bankarnir fá til að styrkja reikningslega eiginfjárstöðu sína. Þannig er það til að mynda að Landsbankinn borgar nú fulla verðtryggingu og 8% vexti af því víkjandi láni sem Seðlabankinn veitti honum fyrir áramótin. Þegar þessi milljarður bætist við þá mun Landsbankinn verða þarna með að láni frá Seðlabanka og Tryggingarsjóði viðskiptabanka á þriðja milljarð króna verðtryggðan og á 8% vöxtum. Þannig að það í sjálfu sér lagar ekki rekstrarfjárstöðu bankans nema síður sé, sem jafnvel á kost á ódýrara fjármagni annars staðar frá ef hann þyrfti á einhverju fjármagni að halda, þ.e. lausafé, en þess þarf hann ekki. Lánið frá Seðlabankanum fyrir sl. áramót var til fimm ára þannig að þar var ekki upphaflega eins og það var hugsað um langtímafyrirgreiðslu að ræða.
    Hæstv. forseti. Ýmislegt mætti um þetta segja en ég ætla að ljúka máli mínu, ég undirstrika það að það er afstaða minni hlutans að við styðjum þær greinar frv. sem lúta beint að aðstoðinni við Landsbankann. Við teljum úr því sem komið er sé ekki um annað að ræða en að ljúka því máli og lágmarka skaðann sem hlotist hefur af þessu upphlaupi með því að klára þessa fyrirgreiðslu til Landsbankans. Á hinn bóginn flytjum við brtt. um þá aðferð sem þar er á ferðinni. Varðandi önnur ákvæði frv. þá getum við alls ekki stutt þá opnu heimild til handa viðskrh. og fjmrh. sem 5. gr. frv. gerir ráð fyrir. Við leggjum því til breytingar á 3. og 5. gr. frv. Nái þær breytingar ekki fram að ganga munum við sitja hjá við þau ákvæði frv. og frv. í heild.