Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:39:06 (6280)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú þrautreynt að ekki er hægt að fá hæstv. viðskrh. til þess að sýna þann manndóm og þá pólitísku dómgreind að segja það alveg skýrt að hann ætli sér ekki að selja Landsbankann á árinu. Fyrst svo er þá blasir það við hér við lok umræðunnar að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætlar með aðstoð ýmissa þingmanna að skattleggja Íslendinga um 50--60 þús. kr. á hverja fjögurra manna

fjölskyldu í því formi sem felst í þessu frv. Síðan ætlar hæstv. viðskrh. að hafa það opið áfram að selja bankann á árinu og enginn veit með hvaða skilmálum eða í hvaða formi. Hann segir að enginn munur sé á því sem hann hefur sagt og sem seðlabankastjórinn hefur sagt. Það er rangt hjá ráðherranum vegna þess að seðlabankastjórinn segir alveg skýrt að óráðlegt sé að breyta ríkisbönkunum nú í einkabanka. Það hefur viðskrh. ekki sagt. Sem betur fer hefur forsrh. hefur líka kveðið öðruvísi að í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér á undanförnum dögum að hæstv. viðskrh. er orðinn stórfellt vandamál í íslenska peningakerfinu. Hann hefur í fyrsta lagi gefið rangar yfirlýsingar um samþykktir ríkisstjórnarinnar varðandi fjárfestingarbankann. Hann hefur í öðru lagi gefið rangar yfirlýsingar varðandi viðræður sínar við bankastjóra Landsbankans og nú er hann í þriðja lagi ekki reiðubúinn að eyða þeirri óvissu sem óhjákvæmilegt er að eyða um rekstrarform og eignarhald Landsbanka Íslands á árinu 1993.