Dagskrá

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:51:20 (6312)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Vegna þess máls sem hér er verið að taka á dagskrá finnst mér það afar óheppilegt að það sé gert í ósætti við þingflokk Alþb. eins og hér hefur komið fram. Ég hef ekki persónulega leitað eftir því að umræðu yrði frestað en ég tek auðvitað undir þær óskir sem fram eru komnar af okkar starfandi þingflokksformanni um þetta efni og mér finnst óeðlilegt að mál af þessum toga sé við þær aðstæður sem eru núna síðdegis á degi eftir að menn hafa verið vinna að sérstöku máli sem ríkisstjórnin hefur borið fram, ekki bara í þingsölum heldur líka í þingnefndum og í sambandi við meðferð þeirra.
    Ég vil hvetja hæstv. forseta til að leita samkomulags um umræðuna þannig að hún, málsins vegna, hér er um að ræða mjög þýðingarmikið mál, norrænt samstarf, geti farið fram í þokkalegri sátt og það verði helst rætt utan þingfundar og leitað sátta og samkomulags um það. Ég teldi langeðlilegast að svona umræða færi fram á aðalfundartíma, reglulegum fundartíma þingsins, helst í upphafi fundar, því okkur skiptir norrænt samstarf afar miklu og vil hvetja til þess að það verði leitað hið fyrsta eftir góðum tíma á dagskrá til umræðunnar.