Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 14:48:22 (6329)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Alþingi samþykkti lög um ábyrgðasjóðinn hinn 2. júní 1992 og voru þá eldri lög um ríkisábyrgð á launum felld úr gildi svo og 6.--8. gr. laga nr. 1/1992. Hinn 1. júlí 1992 gengu hins vegar í gildi lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Þau lög kalla á ákveðnar breytingar á lögum um ábyrgðasjóð launa sem varða m.a. hugtakanotkun og var því nauðsynlegt að leggja fram frv. um breytingar á lögunum um ábyrgðasjóð launa. Þá hafði Ríkisendurskoðun vakið athygli á að ákvæði vantaði um vörslu sjóðsins, bókhald og endurskoðun og þótti brýnt að lagaákvæði yrðu sett þar að lútandi. Ágreiningur hefur verið við lífeyrissjóði um túlkun c-liðar 1. mgr. 5. gr. laganna um 18 mánaða tímabilið sem ábyrgðin á lífeyrissjóðsiðgjöldunum hefur náð til.
    Í lögum um ríkisábyrgð á launum miðaðist lífeyrisiðgjaldaábyrgðin við það tímabil er félli innan tímamarka þeirra sem vinnulaunakröfu fylgdi forgangsréttur í búi. Túlkun félmrn. á þessu ákvæði var sú að hér skyldi miða tímamörk við þann dag sem bú var úrskurðað gjaldþrota, þ.e. úrskurðardag. Með lögum nr. 52/1992, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, var ákvæðinu vegna lífeyrissjóðsiðgjalda breytt á þann veg að ábyrgð sjóðsins næði til kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsgjöld sem fallið hefðu í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrot. Ráðuneytið sem og Tryggingastofnun ríkisins hafa, eins og við ríkisábyrgð á launum, miðað við úrskurðardag. Talsmenn lífeyrissjóðanna hafa hins vegar litið svo á að eðlilegt væri að miða við svokallaðan frestdag en frestdagur telst sá dagur sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til greiðslustövunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Lög um ábyrgðasjóð launa miða við þegar fyrirtæki er úrskurðað gjaldþrota, þ.e. 18 mánuði áður en það á sér stað.
    Stjórn ábyrgðasjóðs launa, sem skipuð er fulltrúum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og félmrn., hefur gert tillögu um það að lagaákvæðinu verði breytt þannig að skýrt komi fram að miðað sé við frestdag. Ég hef fallst á þessa tillögu stjórnarinnar. Alþýðusamband Ísland og lífeyrissjóðasamtökin hafa lagt ríka áherslu á að tekið yrði á þessu atriði í lögunum.
    Í lögum um ábyrgðasjóð launa er félmrh. ætlað veigamikið hlutverk við afgreiðslu krafna á svipaðan hátt og var í lögum um ríkiábyrgð á launum. Ætlast er til að greiðslukrafa berist félmrh. sem tekur afstöðu til hennar. Þá gera lögin um ábyrgðasjóðinn ráð fyrir að ráðherra tilkynni afstöðu sína bréflega. Eðlilegra þykir að stjórn sjóðsins fremur en ráðherrann taki á framangreindum atriðum og er því lögð til þessi breyting á lögunum.
    Breytingarnar sem tengjast gjaldþrotaskiptalögunum fela í flestum tilvikum í sér að skiptastjóri tekur við hlutverki skiptaráðanda og að leita beri umsagnar sýslumanns í stað skiptaráðanda. Þá er vert að vekja á því athygli að í stað hugtaksins gjaldþrot í gildandi lögum komi hugtakið gjaldþrotaskipti en hugtakið gjaldþrot hefur nú enga merkingu með lögum, sbr. ný lög um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.
    Enda þótt framangreindar breytingar feli ekki í sér efnislegar breytingar á réttindum launafólks né á gjaldtöku þarf eigi að síður að gera breytingar á flestum greinum frv. Sú leið hefur því verið farin að leggja fram heildarfrv. þannig að ljósara yrði hvar breytingar eru lagðar til.
    Jafnframt eru teknar upp í greinargerð með frv. þær starfsreglur sem nauðsynlegt er að lífeyrissjóðir fylgi þannig að unnt sé að líta svo á að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu. Byggir það raunar á drögum lífeyrissjóðasamtaka að starfsreglum, þ.e. iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum sem verið hafa í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga verði tekin til formlegrar innheimtu innan 15 daga frá útsendri lokaaðvörun lífeyrissjóðsins sem send hefur verið við lok þriggja mánaða vanskila. Innheimtuaðili sjóðsins skal sýna fram á með sannanlegum hætti að málinu hafi verið haldið fram með eðlilegum hraða. Lífeyrissjóðirnir skulu hafa sent sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld hverra sex mánaða ásamt með aðvörun til sjóðfélaga um tap greiðsluábyrgðar ábyrgðasjóðs ef vanskil eru ekki sannanlega tilkynnt lífeyrissjóði með framlagningu launaseðla innan 60 daga frá útsendingu yfirlitsins.
    Iðgjöld í vanskilum, sem sanna má með skilagrein byggðri á innsendum launaseðlum, skulu innheimt með sama hætti og skilagrein vinnuveitenda. Lokaaðvörun til vinnuveitanda skal senda innan 90 daga frá dagsetningu reglulegs yfirlits. Hafi lífeyrissjóður hafið innheimtu á grundvelli áætlunar byggðri á síðustu skilagrein vinnuveitanda og sú áætlun er síðan staðfest að hluta eða öllu leyti með launaseðlum launþega skal um ábyrgð fara eins og greinir undir stafliðum A og B. Helstu breytingar verða á eftirtöldum greinum:
    Í 1. gr. er tekið upp á nýjan leik að ábyrgð nái einnig til krafna í dánarbúi vinnuveitanda sem er til opinberra skipa. Hér er ekki um að ræða mikil útgjöld fyrir sjóðinn heldur miklu fremur sanngirnismál. Í núgildandi lögum um ábyrgðasjóð launa er ekki tekið fram um vörslu sjóðsins. Með bréfi, dags. 4. júní sl., var eftirfarandi komið á framfæri:
    ,,Ríkisendurskoðun vill hér með vekja athygli yðar á því að lög nr. 52/1992, um ábyrgðasjóð launa við gjaldþrot, mæla að mati stofnunarinnar ekki nægilega skýrt fyrir um eignarhald á sjóðnum, heimildir ráðherra til afskipta af málefnum hans, hlutverk stjórnar, vörslu, reikningshald, ávöxtun, endurskoðun og fleiri slík atriði er lúta að sjóðnum sem stofnun. Nánar um þessi atriði vísast til hjálagðra minnisatriða sem tekin voru saman af þessu tilefni.
    Til þess að eyða allri óvissu í þessum efnum leggur stofnunin eindregið til að þér beitið yður við fyrsta tækifæri fyrir því að leggja fram frv. til laga um breytingu á nefndum lögum þar sem skýrt verði kveðið á um þau atriði sem nefnd voru hér að ofan.``
    Í 2. mgr. 2. gr. frv. er því lagt til að ábyrgðasjóður launa skuli vera í vörslu félmrn. sem sér um daglega afgreiðslu og reikningshald sjóðsins í umboði sjóðstjórnar. Ársreikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í 2. mgr. 3. gr. frv. er jafnframt lagt til að sjóðurinn sé auk ábyrgðargjalds fjármagnaður með vaxtatekjum. Til að það sé unnt þurfa tekjur sjóðsins að fara inn á bankareikning. Er nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um þetta í lögunum.
    Í 5. gr. frv. er að finna tvö nýmæli. Annað er að ábyrgð sjóðsins taki til kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna síðustu 18 mánaða fyrir frestdag en ekki úrskurðardag eins og tíðkast hefur. Þá er enn fremur kveðið fortakslaust á um það að ábyrgðin takmarkist við lágmarkið þar sem 4. gr. laganna nr. 55/1980, um starfskjör launþega, ákveður en það er að lífeyrissjóðsiðgjald sé 10%.
    Önnur atriði frv. þarfnast ekki sérstakrar skýringar.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.