Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 14:58:58 (6331)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki um að ræða stórar breytingar á þegar gildandi lögum sem eru byggðar á frv. sem meiri hluti félmn. flutti á síðasta þingi ef ég man rétt. En mig langaði til þess að nefna eitt

atriði, sem ekki er gert ráð fyrir að breytist frá því sem nú er. Það er í 5. gr., a- og b-lið. Í a-lið gert ráð fyrir að þriggja mánaða ábyrgð á skyldusparnaði og í c-lið 18 mánaða ábyrgð á lífeyrissjóði. Ég hefði talið eðlilegt að ábyrgð sjóðsins á vinnulaunakröfum væri sú sama hvort heldur væri um að ræða lífeyrissjóðsiðgjöld, eða hlut launþegans til hans, eða skyldusparnað og orlof. Ég hefði því gjarnan viljað sjá að menn færðu a- og b-liði til samræmis við c-lið og vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu af hálfu ráðherrans að gæta samræmis í ábyrgð gagnvart vinnulaunum.
    Ég vil einnig spyrja ráðherra hvort innihald a-liðar tákni það að ráðherrann hafi fallið frá þeirri tillögu, sem hefur komið fram í frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, að afnema skyldusparnað.
    Um sjóðinn sjálfan, eins og hv. 2. þm. Austurl. vék að, má fara nokkrum orðum þó ekki sé kannski ástæða til þess að sinni. En mér þykir það umdeilanlegt fyrirkomulag að hafa þessi réttindi tengd með slíkum sjóði sem skattleggur eftirlifandi fyrirtæki til að mæta því sem sjóðurinn kann að þurfa að ábyrgjast vegna þeirra fyrirtækja sem ekki geta staðið við sínar skuldbindingar og/eða verða gjaldþrota. Það satt best að segja er umdeilanleg aðferð og kemur að mínu viti fyllilega til greina í nefndarstarfi að skoða hvort ekki sé rétt að breyta þessu fyrirkomulagi. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að víkja að innihaldi þessara laga að sinni.