Framhaldsskólar

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:09:18 (6334)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. lætur kannski ekki mikið yfir sér. Það er ein grein og menn sjá kannski ekki í fljótu bragði að í því felist nein veruleg tíðindi. Þó er það nú svo að í því geta falist talsverð tíðindi ef það er framkvæmt eins og hæstv. ráðherra gerði hér grein fyrir í sinni framsöguræðu.
    Samkvæmt gildandi lögum um framhaldsskóla er það skólanefnd og skólameistari sem ákveða námsframboð með samþykki menntmrn. Með öðrum orðum ákveða skólanefndin og skólameistarinn í sameiningu námsframboð. Þetta á t.d. við um verkmenntaskólana alveg sérstaklega, eins og Verkmenntaskólann á Akureyri og Iðnskólann í Reykjavík, svo ég nefni dæmi. Þessar stofnanir ákveða námsframboðið í raun og veru sjálfar og menntmrn. getur synjað eða samþykkt. Það er því alveg ljóst að valdið til samþykkis eða synjunar er í höndum menntmrn., þ.e. menntmrh. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt gildandi lögum að það séu teknar ákvarðanir um margvíslegar nýjungar í námsframboði í framhaldsskólum án þess að breyta lögunum.
    Varðandi áhrif atvinnulífsins, sem hæstv. ráðherra nefnir hér, er líka gert ráð fyrir því í gildandi lögum að atvinnulífið komi við sögu þegar um er að ræða tiltekna þætti verknáms í framhaldsskólunum, þ.e. iðnbrautirnar. Í 22. gr. laga um framhaldsskóla segir:
    ,,Fræðsla skal veitt í löggiltum iðngreinum og öðrum iðnaði samkvæmt nánari ákvæðum í námsskrá. Í reglugerð skal kveða á um hverjar skuli vera löggiltar iðngreinar.``
    Sú reglugerð sem hér um ræðir er reglugerð nr. 558/1981, um iðnfræðslu, sbr. reglugerð nr. 40/1973 og reglugerð nr. 102/1990, um löggiltar iðngreinar o.fl.
    Hverjir eru svo í iðnfræðsluráði? Það er sú stofnun sem í raun og veru er ráðuneytinu til ráðuneytis um þessi mál. Hverjir eru það? Eru það bara einhverjir latínugránar úr hinu bóklega framhaldsskólakerfi eða eru aðrir þar líka? Það er rétt. Það er svo. Aðrir eru þar einnig og koma við sögu því að þar segir:
    ,,Menntmrh. skipar iðnfræðsluráð til fjögurra ára í senn og skal það vera til ráðuneytis um mótun heildarstefnu og skipulag í iðnfræðslu, löggiltum iðngreinum og verksmiðjuiðnaði.``
    Það er því ekki þannig að iðnfræðsluráð eigi að takmarka verksvið sitt bara við hinar formlegu löggiltu iðngreinar, hvort sem það er trésmíði, járnsmíði, söðlasmíði eða hvað það nú er, heldur getur iðnfræðsluráðið líka fjallað um sérstaka þjálfun fyrir fólk sem starfar eða vill starfa í svokölluðum verksmiðjuiðnaði. Fer nú kannski satt að segja að verða minna af honum en góðu hófi gegnir í landinu.
    Og hverjir eru svo í iðnfræðsluráði? Þar eru níu menn. Það eru tveir iðnmeistarar, tilnefndir af Landssambandi iðnaðarmanna, tveir iðnsveinar og einn fulltrúi iðnverkafólks tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Félag ísl. iðnrekenda tilnefnir einn, Samband iðnfræðsluskóla einn og Iðnnemasamband Íslands einn og menntmrn. skipar svo formann iðnfræðsluráðs án tilnefningar. Hvert er hlutverk iðnfræðsluráðs? Jú, það er að veita umsögn um tillögur á námsskrá í verklegum og bóklegum faggreinum og að stöðlum um búnað og aðstöðu og gera tillögur um skipulag kennslueftirlits í iðngreinum. Iðnfræðsluráð gerir tillögur til menntmrn. um reglur varðandi framkvæmd námssamninga. Nánar skal kveðið á um hlutverk iðnfræðsluráðs í reglugerð sem menntmrn. setur.
    Með öðrum orðum er það þannig, virðulegi forseti, í fyrsta lagi ef allt er með felldu að því er varðar samskipti ráðuneytisins og skólanna, þá þarf ekki að breyta lögum til að ná þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra rakti hér. Nú kann það vel að vera að ekki sé allt með felldu en þá er ómögulegt að átta sig á því eftir framsögu ráðherra hvað það er sem er vandi að því er varðar samskipti ráðuneytisins og einstakra skóla. Það getur vel verið að um það sé að ræða en þá ætti kannski ekki að skýra frá því úr þessum ræðustól. Það kann vel að vera að það sé viðkvæmt mál sem ekki er við hæfi að fjalla um hér í þessum sal og láta skrá það í þingtíðindi heldur eigi menn að fara yfir það í hv. menntmrn.
    Auk þess sem gildandi lög gera ráð fyrir þessum möguleika nú þegar, þá hefur þegar verið komið á námi sem er eins og gert er ráð fyrir í greininni. Það er í fullum gangi. Það er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Í kjördæmi hæstv. ráðherra er myndarleg starfsemi í gangi og reknar þar atvinnulífsbrautir undir forustu Hjálmars Árnasonar skólameistara. Hið sama er að segja um Fjölbrautaskóla Suðurlands og ég hygg að jafnvel megi nefna fleiri skóla inn í þessa mynd þar sem menn eru að gera tilraunir ekki bara með tveggja ára nám heldur jafnvel eins árs nám þannig að menn ljúki ákveðnu námi á einu ári í samvinnu við atvinnulífið. Þetta hefur t.d. gerst með þeim hætti í Fjölbrautaskóla Suðurnesja að þar er gert ráð fyrir að

þeir sem eru þar í eins árs námi, tveggja anna námi, séu með talsvert mikla íslensku. Þeir eru með talsverðan almennan reikning, þeir eru dálítið með listgreinar í þessum bóklega kjarna, en síðan gera þessir skólar samninga við fyrirtækin á svæðinu, verslanir eða verkstæði um að menn þjálfi sig í að afgreiða í verslun, í kjötbúð eða eitthvað því um líkt eða þjálfi sig í t.d. að vinna á dekkjaverkstæði. Það er í raun og veru þannig þegar allt kemur til alls að enginn maður er til ófaglærður vegna þess að allir kunna eitthvað sem vinna. Og það er ákveðið virðingarleysi fyrir þeim sem ekki hafa próf sem felst í orðinu ófaglærður. Staðreyndin er sú að allir sem vinna eitthvað kunna eitthvað og eru faglærðir í skilningi þess vinnustaðar sem þeir eru á og atvinnurekandinn, hver sem hann er, metur þekkingu fólks eftir efnum og ástæðum, kjarasamningum og öðrum reglum sem gilda á hverjum tíma.
    Nú skulum við samt sem áður segja, hæstv. forseti, að það þurfi að setja tiltekin lagaákvæði af einhverjum samskiptaástæðum á milli ráðuneytisins og verkmenntaskólanna. Þá verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég mundi ekki gera það nákvæmlega svona. Ég mundi orða þetta þannig að menntmrh. geti komið á tilraunastarfi að fengnum tillögum fulltrúa atvinnurekenda og launamanna í viðkomandi grein um skipulagningu tilraunarinnar en að skólameistari og skólanefnd ráði því hvar þessi tilraun fer inn í viðkomandi skóla.
    Ég er ekki tilbúinn til þess fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að skrifa upp á það að menntmrn. skipi fyrir um einstök atriði í innra starfi skóla, þ.e. framhaldsskóla. Ráðuneytið gengur mjög langt í þessum efnum, t.d. að því er varðar grunnskólann með setningu aðalnámsskrár grunnskóla og með því að gangast fyrir, í gegnum rannsóknastofnun uppeldismála í seinni tíð, samræmdum prófum í grunnskólum. Það er sök sér af því að þar er um að ræða skyldunámsskóla. Framhaldsskólinn er aftur á móti frjáls þannig að mönnum er ekki skylt að fara í hann þó það sé auðvitað æskilegt frá sjónarmiði þjóðfélagsins að allir fari í framhaldsskóla. Mér finnst þess vegna að það sé valdboðskeimur af tillögunni eins og hún lítur út.
    Ég mundi fyrir mitt leyti vilja skoða hana aðeins nánar áður en ég stæði að afgreiðslu hennar en þar sem ég á sæti í hv. menntmn. þá tel ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið á þessu stigi. Ég tel hins vegar þeim mun nauðsynlegra að nefndin skoði þetta rækilega af því að hér er um feiknalega mikla breytingu að ræða. Það er verið að gera ráð fyrir íhlutunarrétti ráðherra í innra starf skólans án þess að um tilteknar iðnbrautir sé að ræða. Hann getur ákveðið þessa hluti án þess að spyrja iðnfræðsluráð, án þess að spyrja skólanefnd og án þess að spyrja skólameistara. Það er í raun og veru óeðlilegt miðstýringarkerfi sem er í andstöðu við framhaldsskólalögin eins og þau eru og voru sett 1988 með atkvæðum allra alþingismanna úr öllum flokkum að frumkvæði þáv. hæstv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. menntmn. gæti þess vandlega að breyta ekki þessum grundvallaranda framhaldsskólalaganna sem ég tel að menn séu hér að gera tillögu um. Í grg. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nokkuð hefur borið á samskiptaörðugleikum sem trúlega mætti lagfæra með því að stytta boðleiðir og flytja stjórnunarvaldið í auknum mæli til atvinnulífsins.``
    Nú verð ég að játa það að ég skil ekki alveg hvert er verið að fara í fyrri hluta þessarar setningar. Þetta er einhvers konar munkalatína sem ég átta mig ekki alveg á en það getur oft verið þægilegra að beita fyrir sig munkalatínu en venjulegu máli, sérstaklega þegar menn eru að segja eitthvað sem má ekki segja. En í lok setningarinnar segir: ,, . . .  og flytja stjórnunarvaldið í auknum mæli til atvinnulífsins.``
    Nú er ég þeirrar skoðunar að það eigi að hafa samvinnu og samráð við atvinnulífið. Ég er þeirrar skoðunar að t.d. þær hugmyndir sem hafa verið uppi um bílgreinaskóla séu athyglisverðar. Ég vil ekki slá á samstarfshönd atvinnulífsins og ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að ég tel að Vinnuveitendasamband Íslands hafi sýnt framhaldsskólanum og verklegum þáttum hans lofsverðan áhuga og það á auðvitað við um Alþýðusambandið líka en ekki síður Vinnuveitendasambandið.
    Á ágætri ráðstefnu sem var haldin um starfsmenntun núna á laugardaginn og var mjög vel sótt og prýðileg í alla staði, heyrðist mér, kom fram að áhuginn á þessum málum er gríðarlega mikill. Staðreyndin er náttúrlega sú að það er eiginlega búið að tala nóg í þessu máli sem snertir samstarf skóla og atvinnulífs. Næsta skref er að gera hluti. Það merkilega í þessu máli er að menn vita hvernig ætti að gera það. Menn vita hvernig ætti að fara í þessi mál. Menn vita að það á að gera með þeim hætti að koma upp stuttum atvinnulífstengdum brautum í framhaldsskólum sem menn ljúka á einu, tveimur, þremur eða fjórum árum eftir atvikum, mismunandi brautum af ýmsu tagi og gera eins konar samstarfssamning fyrir hvern einasta nemanda sem er á þessum brautum við fjölmörg atvinnufyrirtæki í viðkomandi grein, sem sagt að afnema sveinsprófa- og meistarakerfið eins og það er nú og að ná um þetta samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins þannig að niðurstöður þessa náms séu einhvers metnar í kjarasamningum á hverjum tíma.
    Þetta sjónarmið kom mjög skýrt fram á starfsmenntaráðstefnunni á dögunum. Þar kom einnig fram að menn vara hins vegar við því þó að samráð verði haft við atvinnulífið, atvinnurekendur og launamenn í hverri grein, að þessir aðilar eigi að stjórna skólunum. Ég tek undir þau aðvörunarorð. Ég tel ekki eðlilegt að skólinn færi að stjórna því atvinnulífi sem þjálfar iðnnema t.d. En ég teldi jafnfráleitt að atvinnulífið stjórnaði skólanum að fullu og öllu sem iðnneminn er að læra við. Ég held að menn væru þar komnir út á mjög hála braut og væru að breyta skólakerfinu á Íslandi í grundvallaratriðum ef það ætti að aðlaga það einu og öllu eftir hentugleikum atvinnulífsins.
    Ég geri ráð fyrir því að í slíku skólakerfi yrði lítið um margar húmanískar greinar t.d., sem eru þó grunnur þess að við erum manneskjur og hugsum. Ég geri ráð fyrir því að ef menn ætluðu eingöngu

að sníða skólana eftir hentugleikum atvinnulífsins, þá yrði það þannig að menn mundu læra að fara með þá hluti sem í þrengsta skilningi henta atvinnulífinu á hverjum tíma, hverjum stað, hverju svæði og hverri grein, en það skólakerfi sem menntar ,,róbóta`` fyrir vélaverksmiðjur er ekki gott skólakerfi. Hæstv. ráðherra er ekki að gera neina tillögu um það hér. Það er engin slík tillaga uppi. En ég tel að það að beygja skólann algerlega undir atvinnulífið að þessu leytinu til sé varasamt. Þess vegna eigi skólinn að vera samstarfsverkefni atvinnulífsins og skólans en ekki að atvinnulífið, þ.e. atvinnurekendur og launamenn í hverri grein, eigi að ráða þarna einu og öllu.
    Eins og ég sagði, þá tel ég nauðsynlegt að þetta mál verði skoðað rækilega í menntmn. vegna þess að í því felst ákveðin grundvallarbreyting á framhaldsskólalögunum sem voru samþykkt samhljóða á Alþingi 1988. Það bera allir flokkar ábyrgð á þeim, meira að segja Kvennalistinn líka, sem ber að sögn ábyrgð á fáu af því sem gerst hefur í fortíðinni og er laus við þær syndir sem við höfum hinir, en þetta voru góð lög og skynsamleg og þess vegna held ég að við eigum ekki að setja þessa miðstýringargrein inn eins og hún er því að það væri hortittur í framhaldsskólalögunum.