Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:43:43 (6339)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu í þinginu. Þessi umæða vekur mann auðvitað til umhugsunar um það að enn einu sinni er verið að ræða hér á Alþingi vandamáls eins sjúkrahússins í Reykjavík, þ.e. Landspítalans, á meðan allt virðist vera í lagi hjá öðrum sjúkrastofnunum. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort það geti verið að á fjárlögum ársins 1992 og nú aftur á fjárlögum ársins 1993 hafi þessum þremur sjúkrahúsum hér í Reykjavík, þ.e. Landspítalanum, Borgarspítalanum og Landakotsspítala, verið mismunað í fjárveitingum þegar fjárlög voru samþykkt hjá löggjafarsamkomunni. ( SvG: Það er rétt.) Það er rétt, segir hv. þm. Svavar Gestsson sem sæti á í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna, en tilefni þess að maður veltir þessu fyrir sér eru ýmis mál sem upp hafa komið að undanförnu er tengjast öll þessari einu stofnun sem er Ríkisspítalarnir. Í fyrsta lagi var það þegar hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum á Landspítalanum, þá kom það í ljós að sá spítali greiðir lægri laun en bæði Borgarspítalinn og Landakotsspítali. Og hvernig má það vera að stofnun sem er með sama launagreiðandann skuli geta mismunað starfsfólki svo herfilega eins og þar kom fram eftir því á hvaða spítala þeir vinna?
    Annað tilefni sem vekur mann til umhugsunar um þetta er það að Borgarspítalinn virtist vera eina sjúkrastofnunin í Reykjavík sem hafði möguleika á því í sumar að greiða út sérstakan bónus til starfsfólks sem þar er starfandi á meðan aðrar stofnanir höfðu alls ekki efni á því eða a.m.k. ekki samkvæmt fjárlögum.
    Nú kann það vel að vera að Borgarspíltalinn hafi sparað miklu meira og náð miklu meiri árangri í sínu sparnaðarstarfi en hinar sjúkrastofnanirnar. Ég held að svo sé ekki og sennilega er meira en helmingurinn af öllu því sem sparast hefur í sjúkrahúsarekstrinum í Reykjavík sparnaður sem náðst hefur hjá Ríkisspítölunum.