Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:13:20 (6366)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því á fundi með forseta þingsins í gær að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu ásamt hæstv. viðskrh. vegna þess að Seðlabanki Íslands er lykilstofnun í efnahagsstjórn landsins og nauðsynlegt er að heyra í þessum umræðum viðbrögð forsrh. við ýmsum þáttum. Hins vegar ætla ég að gefa hæstv. fjmrh. frí í þessari umræðu og ætla ekki að útskýra nákvæmlega ástæðurnar fyrir því.
    Þetta frv. er að mörgu leyti prófsteinninn á það hvort við á Alþingi Íslendinga viljum innleiða nútíma starfshætti í efnahagsstjórn eða hvort á að framlengja gamla pólitíska lénskerfinu í stjórn peningamála á Íslandi þar sem ákveðnir stjórnmálaflokkar ráðstafa stjórn Seðlabankans í þágu sinna innri hagsmuna. Þetta frv. er flutt undir þeim formerkjum að nánast allt þjóðfélagið hefur mánuðum saman velt því fyrir sér hvort hæstv. viðskrh., Jón Sigurðsson, ætlar að setjast í stól seðlabankastjóra á miðju þessu ári. Hæstv. ráðherra hefur ekki verið reiðubúinn til að bera það til baka með afdráttarlausum hætti, hvorki hér í þingsalnum né utan þings.
    Þar að auki er ljóst að Alþb. er þeirrar skoðunar að það stjórnkerfi, sem lagt er til í þessu frv. um Seðlabanka Íslands, sé úrelt. Það sé tengt þessu gamla pólitíska lénskerfi flokkanna sem eigi ekki við varðandi nútímaseðlabanka. Þess vegna munum við flytja brtt. við þetta frv. á þann veg að það verði aðeins einn bankastjóri við Seðlabanka Íslands. ( ÓÞÞ: Verður hann nafngreindur?) Við teljum að það muni í senn leiða til áhrifaríkari stjórnunar bankans en muni líka spara verulega fjármuni. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kallaði hér fram í og spurði: Verður hann nafngreindur? Að sjálfsögðu verður hann ekki nafgreindur í brtt. en ég skal hins vegar gera grein fyrir því að það eru nokkrir möguleikar hvað einstaklinga snertir til að skipa þessa stöðu með farsælum hætti að mínum dómi. Ég tel satt að segja miklu farsælla að fara þannig með málið en að tefla því inn í það pólitíska moldviðri og hrossakaup sem hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin eru greinilega að gera varðandi Seðlabanka Íslands.
    Ef menn fallast á það að Seðlabanka Íslands verði stjórnað á þann veg, eins og alls staðar er gert þar sem seðlabankar starfa samkvæmt nútímahætti, að það sé einn seðlabankastjóri, þá tel ég t.d. að eftirfarandi þrír möguleikar komi til greina varðandi skipun í stöðuna:
    Í fyrsta lagi kemur til greina að Birgir Ísl. Gunnarsson, núv. seðlabankastjóri, skipi þessa stöðu áfram einn. Hann stjórni Seðlabankanum áfram einn út það kjörtímabil sem hann hefur. Það þýðir að hvorki verður skipað í stöðu Jóhannesar Nordals né Tómasar Árnasonar þegar þeir láta af störfum. Og þótt Birgir Ísl. Gunnarsson hafi verið þingmaður, ráðherra og forustumaður Sjálfstfl. og þótt ég hafi gagnrýnt á sínum tíma að hann væri kominn í Seðlabankann í krafti þessa gamla pólitíska lénskerfis sem ég tel úrelt, þá tel ég engu að síður að fenginni reynslu að honum sé fyllilega treystandi til þess að fara einn með bankastjórastöðu Seðlabankans á næstunni.
    Annar möguleikinn er sá að velja unga menn sem eru tvímælalaust vel menntaðir og hæfileikaríkir til þess að gegna trúnaðarstörfum á sviði peningamála og eru á svipuðum aldri og dr. Jóhannes Nordal var á sínum tíma þegar hann varð seðlabankastjóri í fyrsta sinn. Þar vil ég nefna sem dæmi í fyrsta lagi Ingimund Friðriksson, sem er núna fulltrúi Norðurlanda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, og gegndi trúnaðarstöðu í Seðlabanka Íslands með miklum ágætum þegar hann var hér heima. Ég vil nefna einnig Má Guðmundsson, sem var hagfræðingur fjmrh. í minni tíð í fjmrn., en gegnir jafnframt einni af forustustöðum í Seðlabankanum og hefur gert það með góðum árangri og að dómi mjög margra manna hefur einnig ásamt Ingimundi Friðrikssyni alla þá fræðilegu og starfslegu burði til þess að gegna störfum seðlabankastjóra.
    Í þriðja lagi vil ég nefna þá hugmynd vegna þess moldviðris sem skapað hefur verið í kringum Seðlabankann og vegna þess að nauðsynlegt er að skapa ákveðna festu um bankann a.m.k. næstu tvö til þrjú árin meðan ákveðnar breytingar eru að eiga sér stað, þá verði tekin ákvörðun um það að fara þess á leit við Jónas Haralz að hann gegni bankastjórastöðu við Seðlabanka Íslands næstu þrjú árin. Hann verði einn bankastjóri bankans, fari með forustu fyrir bankanum á þessu breytingaskeiði og festi í sessi það nútímahlutverk að Seðlabankinn sé sjálfstæð fagleg stofnun undir öruggri forustu. Vissulega hefur Jónas Haralz verið tengdur Sjálfstfl. en það breytir því ekki að ég tel að hann sé með hvað mesta reynslu Íslendinga á sviði bæði efnahagslífs á Íslandi og hann hefur starfað í Washington og kynnst alþjóðapeningamálum á undanförnum árum. Hann hefur nú látið af störfum. Hann situr í friðarins stóli og hefur að mörgu leyti þá reynslu og hæfileika sem þarf til þess að geta gegnt þessari stöðu. Ég teldi það satt að segja miklu farsælli skipan en að senda pólitíkus úr þessari ríkisstjórn beint inn í Seðlabankann á grundvelli gamla pólitíska lénskerfisins.
    Mér er það ljóst að Jónas Haralz hefur náð þeim aldri sem menn venjulega láta af störfum í opinberri þjónustu, en ég tel hins vegar að í okkar þjóðfélagi þar sem menn eru við góða heilsu og hafa fulla starfsburði geti verið skynsamlegt við og við að gera undantekningu frá þeirri reglu um ákveðinn tíma.
    Ég nefni þessa þrjá möguleika hér: Í fyrsta lagi að Birgir Ísl. Gunnarsson gegni einn áfram bankastjórastöðu við Seðlabankann, í öðru lagi að sóttir verði ungir hæfileikamenn sem eru á svipuðum aldri og dr. Jóhannes Nordal var á sínum tíma og með svipaða menntun og hann hafði, og jafnvel kannski enn betri í ljósi nútímamenntunar, eins og Ingimundur Friðriksson og Már Guðmundsson, og ég nefni í þriðja lagi að þess verði farið á leit við þann reynda mann, Jónas Haralz, að hann taki að sér um þriggja til fjögurra ára skeið að stýra Seðlabanka Íslands meðan verið er að festa hann í sessi sem óháða nútímalega og faglega stofnun.
    Og ég vil segja við hæstv. ríkisstjórn: Væri ekki skynsamlegt að leita samkomulags við okkur hér á Alþingi um einhverja slíka nútímaskipan á stjórnkerfi Seðlabanka Íslands frekar en láta strekkja í það vikum og mánuðum saman að knýja hér í gegn frv. með úreltri stjórnskipan, með leifunum af gamla flokkspólitíska lénskerfinu í Seðlabanka Íslands þar sem látið er í veðri vaka og aldrei borið til baka að eitt af markmiðum frv. sé að þjóna innri erfiðleikum núv. ríkisstjórnar?
    Í þeim efnahagslegu erfiðleikum sem þjóðin á í núna, og mun eiga í um nokkurra ára skeið a.m.k., er mjög mikilvægt að það skapist friður um Seðlabanka Íslands. Hann verði ekki flokkspólitískt bitbein né leikvangur í embættaveitingum skammsýnna pólitískra forustumanna. Þau nöfn sem ég hef hér nefnt eru flest á þann veg að ef þau hafa einhvern tíma verið tengd hinu pólitíska kerfi, þá er það ekki í tengslum við minn flokk eða flokka stjórnarandstöðunnar. Það er þá helst Sjálfstfl. sem þar á hlut að máli. Eða þá að þeir hafa getið sér slíkt faglegt orð og hafa að baki slíka reynslu á sviði peningamála og efnahagsstjórnar og svo víðtæka alþjóðlega þekkingu á nútímastraumum og starfsaðferðum á sviði efnahagsmála að þeim er fyllilega treystandi til þess að stýra Seðlabanka Íslands.
    Ég vil segja við hæstv. viðskrh. að ef hann hefur í raun og veru vilja til þess að leita samkomulags við okkur hér um að gera lögin um Seðlabanka Íslands þannig úr garði að við fáum nútímalegt og sterkt stjórntæki í peningamálum á Íslandi, þá skulum við ræða alla þætti málsins. Þá skulum við breyta þessu frv. á þann veg á það samræmist nútímalegum viðhorfum og við skulum í sameiningu velja til forustu í bankanum einn einstakling, einn banakstjóra sem hefur víðtækt traust þings og þjóðar og sannaða faglega, starfslega hæfni til þess að geta stýrt þessari mikilvægu stofnun í íslensku efnahagslífi á næstu árum. ( Gripið fram í: Þú treystir Birgi Ísleifi.)
    Virðulegi forseti. Ég nefni þetta strax við upphaf þessarar umræðu vegna þess að það vita allir í þessum sal að á bak við þetta frv. hefur því miður allt of lengi verið pólitískur draugagangur. Það er mikilvægt að hreinsa þann draugagang út til þess að þingið geti í sameiningu tekist á við það verkefni að ganga frá stjórnskipan og lögum um Seðlabanka Íslands þannig að hann þjóni því hlutverki að vera þátttakandi í að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Með því að endurhæfa íslenskt peninga- og fjármálakerfi á þann veg að það rísi undir verkefni sínu og hafi jafnframt slíka þekkingu á samskiptum við alþjóðlega peningamarkaði og alþjóðlegar fjármálastofnanir að hin mikla opnun sem nú er að verða milli íslenska hagkerfisins og hins alþjóðlega peningakerfis verði okkur til farsældar en það séu ekki gerð mistök. Því að það er auðvitað þannig að þegar opnunin kemur til framkvæmda, þá segir því miður saga margra ríkja að hægt er að gera mikil mistök sem geta reynst þjóðum mjög dýrkeypt.

    Vandinn er þess vegna margþættur. Hann tengist ekki bara því sem stendur í lögbókinni eða texta frv. sem við afgreiðum. Hann tengist líka mönnunum sem valdir eru til forustu og því kýs ég að nefna þessi nöfn hér til að sýna það að a.m.k. af minni hálfu er grundvöllur til þess að skipa til ábyrgðarstarfa í Seðlabanka Íslands menn sem eru ekki ættaðir sérstaklega úr mínum ranni, ef má orða það svo, en hafa alla þá burði til að bera að um þá geti náðst breið samstaða. Ég tel þess vegna að með því að nefna þessi nöfn hér hafi hæstv. viðskrh. og ríkisstjórn Íslands verið sýnt að það eru til einstaklingar, sem betur fer, í okkar þjóðfélagi sem valda þessu verkefni. Það er spurning um pólitískan vilja og metnað og viðhorf til nútímapeningastjórnar hvort menn eru reiðubúnir til samstarfs við okkur um að skipa Seðlabanka Íslands með þessum hætti.
    Ef aftur á móti verður farin sú leið að knýja þetta frv. í gegn með þessum úreltu ákvæðum þar sem gamla flokkspólitíska lénskerfið verður áfram við lýði í Seðlabankanum og stjórnkerfi bankans er áfram margfaldað og yfir vakir sá möguleiki að ríkisstjórnin setji einn af ráðherrum sínum í forustustöðu í bankanum, kannski síðar á þessu ári, þá er auðvitað alveg ljóst að þar með er ekki verið að skapa frið um Seðlabanka Íslands heldur þvert á móti gífurlega óvissu vegna þess að við, sem erum fylgjandi nútímaviðhorfum í stjórn peningamála, munum beita okkur fyrir því þegar ný ríkisstjórn tekur við í síðasta lagi að loknum næstu kosningum að lögum Seðlabankans verði breytt á ný á þann veg að þau samræmist nútímalegum viðhorfum.
    Ég tel hins vegar óþarfa að skapa þetta tveggja ára óvissutímabil. Hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin hafa núna hvað eftir annað verið að mæla fyrir því á Alþingi að stöðugleiki sé skapaður í bankakerfinu. Sá stöðguleiki snýr ekki bara að viðskiptabönkunum, hæstv. ráðherra. Hann snýr ekki síður að Seðlabanka Íslands. Og það mun reyna á það á næstu vikum hvort hæstv. ríkisstjórn er reiðubúin til samvinnu um að skapa þennan stöðugleika hvað Seðlabanka Íslands snertir.
    Það er rétt sem hæstv. viðskrh. sagði á sínum tíma að varðandi margt í þessu frv. skapaðist ákveðin samstaða í þeirri nefnd sem það vann. Hins vegar er það þannig að síðan sú nefnd lauk störfum hafa margir hlutir verið að skýrast með nýjum hætti í hinni alþjóðlegu umræðu um efnahagsmál og peningamál. Það er t.d. alveg ljóst að sú mikla fyrirmynd sem margir höfðu í huga, þýski seðlabankinn, lítur töluvert öðruvísi út í dag en hann gerði fyrir tveimur árum. Það er alveg ljóst af atburðum síðustu vikna að stjórnvöld í Þýskalandi hafa með ýmsum hætti knúið seðlabankann til þess að þjóna hagsmunum sem bankastjórnin var ekki reiðubúin að þjóna áður og hið mikla módel um hinn sjálfstæða þýska seðlabanka lítur ekki eins gullslegið út nú í hugum þeirra sem dáðust að því eins og það gerði áður.
    Í öðru lagi er líka ljóst að hin mikla Evrópusamvinna á sviði gjaldmiðils, hvort sem það er evrópska myntbandalagið eða tengingin við ECU, lítur í dag allt öðruvísi út en fyrir tveimur árum, hvað þá heldur einu ári. Ég held að það sé ekki liðið ár síðan hæstv. viðskrh. lýsti því yfir að það væri markmið hæstv. ríkisstjórnar í næstu framtíð að stuðla að því að íslenska krónan væri tengd ECU. Það dettur engum manni í hug með heilbrigða skynsemi að halda slíku fram í dag, a.m.k. ekki um nákomna framtíð. Það er bara eitt dæmi af mörgum um það hvernig jafnvel hæstv. viðskrh. hefur orðið að lúta því að atburðarásin hefur leikið ýmsar kenningar sem góðar þóttu og gildar fyrir einu til tveimur árum harla grátt.
    Í þriðja lagi er líka ljóst að samspil stjórnvalda og seðlabanka í því að keyra hagkerfi upp úr kreppunni er í dag undir töluvert öðrum formerkjum en það var á blómatíma frjálshyggjunnar. Það þóttu nokkur tíðindi að Alan Greenspan, seðlabankastjórinn bandaríski, skyldi skipa sér á svo áberandi hátt í áhorfendasveit þeirra sem hlýddu á stefnuræðu Clintons Bandaríkjaforseta fyrir skömmu. Þegar Alan Greenspan mætti síðan tveimur eða þremur dögum eftir flutning stefnuræðunnar á fund bandaríska þingsins, þá flutti hann að mörgu leyti ýmsar aðrar áherslur varðandi samspil stjórnvalda og seðlabanka hvað það markmið snertir að ná hagkerfi upp úr öldudalnum, vinna sig út úr kreppunni og koma hjólum atvinnulífsins í gang en áður voru í tísku.
    Þetta þrennt sem ég hef hér nefnt: saga þýska seðlabankans á síðustu missirum, örlög evrópska gjaldeyrissamstarfsins, fyrirmyndin í ECU og hin nýja efnahagsstefna í Bandaríkjunum, sýnir að þær kenningar sem að ýmsu leyti lágu á bak við smíði þessa frv. á árum áður hafa hlotið nýja skírn í skóla reynslunnar á undanförnum missirum.
    Það má líka spyrja: Hver eru í reynd hin nýju tæki sem Seðlabanki Íslands þarf á að halda? Því hefur í reynd ekki verið svarað með skýrum hætti, hvorki í þessu frv. né í framsöguræðu hæstv. viðskrh. Frv. er sett upp á þann veg að markmið Seðlabankans sé að ná stöðugu verðlagi. Það er sett í svo sterkan forgrunn að ýmsum öðrum markmiðum er vikið til hliðar. En hvað segir reynslan okkur? Reynslan sýnir okkur að í tíð síðustu ríkisstjórnar tókst að ná verðlaginu niður í 3--4% og það hefur haldist stöðugt síðan, bæði á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar og á fyrstu tveimur árum þessarar þannig að íslenska hagkerfið er nú búið að fá reynslu af verðbólgu sem er einhver hin minnsta í Vestur-Evrópu. Þess vegna spyr ég: Skorti eitthvað á tæki Seðlabankans til þess að við næðum þessu markmiði í verðlagsmálum? Og svarið hlýtur að vera nei, vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur það að við náðum þessu markmiði og bjuggum þó við tækjabúnað Seðlabankans eins og hann hefur verið.
    Hitt er svo annað mál að mjög hefur skort á um það að vextirnir á Íslandi lækkuðu í hlutfalli við þessa verðlagsþróun og vaxtastigið á Íslandi hefur í reynd verið fryst langt ofan við það sem hægt er að telja eðlilegt þegar við höfum í fyrsta lagi þriggja ára reynslu af svo lágri verðbólgu, við höfum í öðru lagi

samdrátt í hagkerfinu, við höfum í þriðja lagi minnkandi afla og við höfðum í fjórða lagi opnun hagkerfisins gagnvart umheiminum. Allt þetta fernt hefði átt að leiða til þess að vextir væru nú þegar komnir langt niður en það hefur ekki gerst. Þess vegna segi ég: Vandamálið í tækjabúnaði Seðlabanka Íslands er ekki það fyrst og fremst að hann hafi ekki tæki til að ná verðlaginu niður. Hann hefur ekki tæki til þess að ná vöxtunum niður í samræmi við það hvað verðlagið er komið langt niður. Og satt að segja sýnist mér lítið vera í þessu frv. sem veitir Seðlabanka Íslands nauðsynlegan tækjabúnað til þess að knýja vaxtastigið í landinu niður til jafns við þann árangur sem náðst hefur í verðlagsmálunum.
    Það er plata sem endurtekin er hvað eftir annað af hinum ólíklegustu aðilum í þjóðfélaginu að skýringin á því að vextirnir séu ekki komnir niður sé hallinn á ríkissjóði. Það er bara ekki þannig vegna þess að samanburður milli Íslands og annarra landa sýnir að þótt okkur finnist hallinn á ríkissjóði mikill og þótt hann sé of mikill, þá er hann engu að síður hlutfallslega með því minnsta af landsframleiðslu og þjóðartekjum sem þekkist á Vesturlöndum og mun minni hlutfallslega í hagkerfinu hjá okkur en hjá löndum sem eru með miklu lægra vaxtastig hjá sér en við höfum hjá okkur. Ef mörg nágrannalönd okkar í Vestur-Evrópu geta verið með mun hærra hlutfall af halla ríkissjóðs en við erum með en engu að síður mun lægra vaxtastig þá hlýtur það að vekja spurninguna: Það er kannski ekki jafneinfalt orsakasamhengi á milli hallans á ríkissjóði og vaxtastigsins í landinu eins og allir snillingarnir hafa verið að halda fram?
    Ég held einmitt að þessi plata, sem margir hafa endurtekið hver í kapp við annan, um hallann á ríkissjóði og vaxtastigið hafi gert það að verkum að menn hafi horft fram hjá ýmsum öðrum veigamiklum þáttum. Einn þeirra er t.d. fákeppnisstaðan á íslenskum bankamarkaði. Ýmsir aðilar, m.a. hæstv. fjmrh. sem ég gaf frí frá þessari umræðu, en ekki síður hæstv. forsrh. hafa hvað eftir annað á undanförnum missirum talað eins og hér ríkti frjáls samkeppnismarkaður á sviði peningamála. Þegar þeir hafa verið að skýra vaxtastigið hafa þeir vísað til þess að markaðurinn ákvæði vaxtastigið.
    Nú er það eitt af einföldustu atriðum á fyrsta ári í hagfræði, sem hæstv. viðskrh. þekkir auðvitað mjög vel, að þessi lögmál, sem hæstv. forsrh. og fjmrh. --- og veri hann velkominn í salinn --- hafa verið að vísa til, eiga eingöngu við þegar óheft samkeppni er á markaðnum. En íslenski peningamarkaðurinn er ekki þannig. Hér eru þrír viðskiptabankar og fáeinir stórir sparisjóðir þannig að hér ríkir í reynd fákeppnismarkaður eða það sem á erlendum málum er kallað ,,oligopoliskur`` markaður. Rannsóknir hagfræðinga um áratuga skeið hafa sýnt það að fákeppnismarkaður hefur það einkenni að fyrirtæki sem eru á þeim markaði eru mjög fljót að hækka verðlagið, í þessu tilfelli bankarnir mjög fljótir að hækka vextina. En fyrirtæki á fákeppnismarkaði eru hins vegar mjög vanmegnug að lækka verðið á vörunni og gera það helst ekki nema með utanaðkomandi þrýstingi eins og reynslan hefur sýnt okkur með íslensku viðskiptabankana. Þeir hafa verið mjög tregir og seinir til að lækka verðið á sinni vöru, þ.e. vextina, nema fyrir utanaðkomandi þrýsting.
    Það er dálítið skemmtilegt að heyra hæstv. forsrh. vera að fikra sig áfram í þeim þrýstiæfingum og hefði hann átt að byrja fyrr á því vegna þess að það er einfaldlega bara fræðileg staðreynd að á fákeppnismarkaði eins og íslenska bankakerfið er, þá lækka bankarnir ekki vextina af sjálfsdáðum.
    Menn hafa sagt hér um nokkur missiri: En það er verið að opna bankakerfið fyrir erlendum samkeppnisaðilum. Það er vissulega rétt að í tíð síðustu ríkisstjórnar voru teknar veigamiklar ákvarðanir um að opna íslenska bankakerfið fyrir samkeppni frá erlendum bönkum. En hvað gerðist? Hafa erlendir bankar opnað hér útibú? Svarið er nei. Hefur verið einhver aragrúi af fyrirspurnum frá erlendum bönkum um að opna hér útibú? Svarið er nei. Það er nefnilega einfaldlega þannig að því er virðist að þótt við í síðustu ríkisstjórn opnuðum möguleikana á því að erlendir bankar gætu farið að keppa á hinum íslenska markaði, og það var síðasta ríkisstjórn sem opnaði þann möguleika, þá hefur það ekki gerst og það eru engar fréttir af því að slíkar aðgerðir séu í vændum. Þvert á móti heyrast fréttir frá Norðurlöndum um að þeir alþjóðlegu bankar sem hafa opnað útibú þar eru að flytja sig frá Danmörku og frá Noregi vegna þess að þeim finnst ekki taka því að taka þátt í samkeppninni á danska og norska markaðnum. Halda menn þá virkilega að þeir fari að leggja mikið á sig til að taka þátt í samkeppninni á hinum íslenska markaði? Svarið þar er líka nei.
    Þess vegna er það alveg ljóst að það verður ekki hin erlenda samkeppni bankastofnana, sem stofnsetja útibú hér á landi, sem mun knýja vextina niður. Það verður því að beita tækjum ríkisstjórnar og Seðlabanka til þess að knýja vextina niður. Og það er sú tækjasmíð fyrir Seðlabanka Íslands til þess að tryggja raunhæft lægra vaxtastig á Íslandi þegar stöðugleikinn í verðlagi er ár eftir ár orðinn 2, 3 og 4% sem er verkefnið í þessari löggjöf.
    Þess vegna er það þannig að ef við erum í reynd fylgjandi því að afgreiða á Alþingi frv. um Seðlabanka Íslands sem er í fyrsta lagi í takt við nútímaleg viðhorf, í öðru lagi segir skilið við hina gömlu pólitísku lénsskipan flokkanna í stjórn peningamála á Íslandi, í þriðja lagi smíðar raunhæf stjórntæki handa Seðlabankanum til að tryggja eðlilegt vaxtastig hér á Íslandi, þá þarf þetta frv. að fá öðruvísi meðferð en hæstv. ráðherra lagði upp með hér í sinni framsöguræðu. Ég er tilbúinn í þá vinnu, hæstv. ráðherra. Ég er tilbúinn í það að beita mér fyrir því í mínum flokki og annars staðar á Alþingi að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþingi í vor í þeim búningi. En ég er ekki tilbúinn til að fara að afgreiða á Alþingi gamaldags frv. sem er ekki í takt við tímann og framlengir það kerfi stjórnmálalegs samspils og stjórnar peningamála sem hér hefur ríkt allt of lengi.

    Það eru mér satt að segja nokkur vonbrigði að hæstv. viðskrh., sem ég hélt um tíma að vildi vera í fararbroddi nútímahugmynda í stjórn peningamála, skuli virkilega leggja fyrir Alþingi Íslendinga frv. af þessu tagi. Það var kannski eðlilegt að ráðherrann kæmi með afurð nefndarinnar á sínum tíma þótt nokkuð sé langt um liðið síðan hún skilaði áliti en það verður mikill prófsteinn á ráðherrann og ríkisstjórnina á næstu vikum hvort sú sveit er reiðubúin að ganga til samvinnu við okkur hina um að breyta þessu frv. í raunverulegt, áhrifaríkt og sterkt nútímastjórntæki í efnahagsmálum.