Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 19:01:38 (6422)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að hv. 10. þm. Reykv. sé alveg fullsæmd af þeim liðsafnaði sem er á þessari landvinningaráðstefnu Evrópubandalagsins. Ég sé ekki annað en þátttaka hennar í þessari dagskrá falli alveg prýðilega að þeirri stefnu sem hún hefur verið að kynna sem sín sjónarmið og sína stefnu og þarf engum að koma á óvart að svo sé. Ekki er ég undrandi á nokkurn hátt að hv. þm. hefur verið boðin þátttaka í ráðstefnunni og hefur þegið boðið. Þingmaðurinn sem hefur sagt að Evrópubandalagið sé síbreytileg skepna og því erfitt að taka afstöðu til þess í eitt skipti fyrir öll nema maður sé í grundvallaratriðum á móti viðskiptabandalögum eða hvers konar framsali á fullveldi. Þingaðurinn sem hefur klofið sig frá sínum flokki og lýst algjörri andstöðu við yfirlýsta stefnu síns flokks og leggur það á sig að ganga í liðsveit með þeim sem ætla sér að keyra Ísland inn í Evrópubandalagið. ( ISG: Hvað með Þorstein Pálsson?) Hv. þm. getur auðvitað reynt og notað tækifærið til þess að sannfæra Þorstein Pálsson um ágæti sinnar stefnu.