Ferða- og risnukostnaður

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:32:24 (6423)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur á margvíslegan hátt reynt að draga úr útgjöldum hins opinbera, enda ekki vanþörf á. Árangur hefur skilað sér með ýmsum hætti eins og kunnugt er, en það sem mesta athygli vekur er auðvitað sú staðreynd að í fyrsta sinn tókst að búa svo um hnútana í fyrra að útgjöld ríkisins minnkuðu á milli ára, raunar um 5,4 milljarða kr.
    Einn þeirra útgjaldaþátta hins opinbera sem menn í almennri umræðu hafa beint sjónum að er ferða- og risnukostnaður ríkisins og er það að vonum. Árið 1991 var risnukostnaður ríkisins alls 175,9 millj. kr. og hafði hækkað um 30 millj. frá árinu á undan. Innlendur ferðakostnaður árið 1991 var 417,6 millj. kr. og hafði hækkað um 17 millj. kr. frá árinu 1990. Loks var ferðakostnaður ríkisins vegna ferða til útlanda 628,9 millj. kr. og hafði hækkað um 70 millj. á milli ára. Alls voru útgjöld ríkisins vegna þessa, þ.e. vegna

ferðalaga innan lands og utan auk risnukostnaðar um 1.220 millj. kr., 1,2 milljarðar kr. á árinu 1991 samkvæmt upplýsingum ríkisreiknings. Það skyldi því engan undra þótt menn beini sjónum sínum að þessum útgjaldaþáttum í ljósi þess að tekjur ríkisins eru að dragast saman vegna tekjusamdráttarins í þjóðfélaginu. Við þurfum því að sýna fyllstu aðgát á öllum sviðum hins opinbera búskapar.
    Ég hlýt þó að segja að það er mikil ástæða til þess að vara við þeim söng sem stundum er kyrjaður um að það sé hægt að lækna nánast allt efnahagsböl þjóðarinnar með því einu að draga úr útgjöldum á þessum póstum. Þannig tal sem því miður heyrist allt of oft, jafnvel jaðrar stundum við að maður heyri enduróm þess í sölum Alþingis, er hið versta og ómerkilegasta lýðaskrum sem á lítið skylt við staðreyndir. Sannleikurinn er auðvitað sá að aukning ferðakostnaðar hjá hinu opinbera á sér sínar eðlilegu skýringar að mörgu leyti. Við erum að taka þátt í auknu alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum og sú þróun hefur verið vaxandi og stígandi mörg undangengin ár. Má nefna æðimörg dæmi um slíkt. Þau eru t.d. ekki mörg árin sem liðið hafa án þess að Alþingi hafi fullgilt alþjóðlega sáttmála og samninga sem í langflestum tilvikum fela í sér skuldbindingar sem aftur leiða það af sér að þeim þarf að sinna með funda- og ráðstefnusókn á erlendar grundir. Þetta breytir þó því ekki að í þessum efnum eins og öðrum er rík ástæða til þess að hvetja til ráðdeildar og sparsemi. Ég er fullkomlega sammála því að útgjöld upp á 1,2 milljarða í risnu og ferðalög er að sjálfsögðu allt of vel í lagt og þar er örugglega hægt að spara. Bæði hljóta stjórnvöld að velta því fyrir sér að draga úr risnu og ferðalögum af margvíslegu tagi en einnig hitt með hvaða hætti við getum sinnt okkar alþjóðlegu skuldbindingum og ferðalögum innan lands með ódýrari hætti en nú er gert. Sjálfur er ég sannfærður um að það er auðveldlega hægt ef vel er staðið að þeim málum í hvívetna.
    Ég get tekið undir orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem sagði 23. febr. sl., með leyfi hæstv. forseta: ,,Um þessa eyðslu verður ekki friður á meðan þjóðin býr við versnandi lífskjör. Að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt að ríkið hafi einhvern kostnað af þessum liðum en það er jafnframt augljóst að hann má lækka verulega.`` Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. á þskj. 689 eftirtalinna tveggja spurninga:
  ,,1. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að draga úr risnu- og ferðakostnaði hins opinbera?
    2. Hvaða fjárhagslegur sparnaður hefur orðið af þessum ráðstöfunum?``