Bótaréttur atvinnulausra í veikindum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:18:55 (6439)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 713 spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. um bótarétt atvinnulausra í veikindum, bæði í eigin veikindum og eins í veikindum barna. Nú mun þessi bótaréttur vera framkvæmdur eitthvað með mismunandi hætti eftir því hvaða stéttarfélagi viðkomandi tilheyrir. Þannig er mál með vexti að það eru til lög um atvinnuleysistryggingar en á grundvelli þeirra laga hefur aldrei verið sett nein reglugerð. Hins vegar eru starfandi 200 úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta víðs vegar á landinu og munu þær hafa eitthvað mismunandi vinnubrögð í þessum málum. Það mun þannig vera mismunandi hvort veikindavottorð eru yfirleitt tekin til greina. Þetta kemur m.a. fram í fskj. með frumvarpi sem Svavar Gestsson og fleiri flytja og hefur nýverið lagt fram, en í fskj. 3 er rætt við Gunnar Helgason í ráðningarskrifstofu Reykjavíkur og með leyfi forseta segir Gunnar:
    ,,Aðspurður um hvort veikindavottorð væru tekin til greina vegna forfalla við skráningu sagði hann að það væri oftast gert, en það væru úthlutunarnefndirnar sem þar réðu. Hann sagðist hins vegar hafa látið málin ganga áfram þegar óviðráðanlegar aðstæður sköpuðust þannig að fólk kæmist ekki til skráningar eins og gerst hefði á sl. vetri þegar fólk komst ekki út úr húsum vegna illviðris,`` þ.e. komst þá ekki á tilskildum degi til að skrá sig. En ef veikindavottorð er tekið til greina, þá er það þó þannig að aðeins eru greiddar atvinnuleysisbætur vegna þeirra daga sem hinn atvinnulausi er til reiðu, þ.e. það er ekki greitt fyrir þá daga sem veikindin vara. Þá má geta þess að eftir þær hækkanir sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur staðið fyrir, þá kostar vottorð 900 kr. fyrir þá sem þurfa að sækja sér vottorð vegna veikinda og það

er nú bara tæpur helmingur bóta fyrir einn dag hjá atvinnulausum einstaklingi.
    Þá hef ég fengið upp í hendurnar dæmi af móður sem komst ekki til skráningar á tilskildum degi vegna veikinda barns síns og fékk engan til að sitja hjá barninu. Það þýddi það að hún missti atvinnuleysisbætur í heila viku vegna þess að hún kom ekki á þessum tilskilda degi og hefði engu breytt þó að hún hefði komið með vottorð vegna þess að veikindi barna eru ekki tekin gild í þessum tilvikum var henni sagt. Þarna er um að ræða fólk sem hefur auðvitað verið á vinnumarkaði í lengri tíma yfirleitt og fólk á vinnumarkaði hefur almennt veikindarétt, bæði vegna sjálfra sín og vegna sinna barna. Þetta fólk virðist hins vegar ekki hafa þann rétt þegar að atvinnuleysisbótunum kemur og ég spyr því ráðherra hvernig þetta fái staðist:
  ,,1. Á hvaða lagaheimild byggist sú framkvæmd að greiða ekki atvinnuleysisbætur fyrir veikindadaga þótt bótaþegi njóti ekki sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins?
    2. Hvernig er háttað bótarétti þegar atvinnulaust foreldri kemst ekki til vikulegrar skráningar vegna veikinda barna?``