Bótaréttur atvinnulausra í veikindum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:29:28 (6442)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um að neinn dómur hafi fallið um þessi mál en það gefur auga leið að því aðeins getur verið um greiðslu atvinnuleysisbóta að ræða að viðkomandi einstaklingur sé í atvinnuleit og sé af heilsufarsástæðum ekki útilokað að hann geti stundað atvinnu. Hins vegar hefur það fyrst komið fram nú eftir að atvinnuleysi fór að aukast á Íslandi að það fer að reyna á framkvæmd þessara laga og það hefur komið fram mjög mismunandi framkvæmd. Það eru m.a. dæmi um að það hafi verið fallist á að skrá fólk atvinnulaust af þeim sem ábyrgð báru á slíkri skráningu þó að viðkomandi aðilar væru í orlofi í útlöndum og kæmu ekki heim fyrr en kannski 3--4 vikum eftir að út var farið. Þá hefur líka komið fram þar sem sérstakt atvinnuátak hefur verið gert með tilstyrk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að á atvinnuleysisskrá hafa verið ýmsir aðilar sem síðan kom í ljós að ekki voru í atvinnuleit, bæði vegna þess að áhugi fyrir því að afla sér atvinnu var ekki fyrir hendi og einnig að af heilsufarsástæðum gat viðkomandi aðili ekki tekið neinu atvinnutilboði sem unnt var að bjóða upp á.
    Því miður hefur framkvæmdin í sambandi við skráningu og greiðslu atvinnuleysisbóta verið mjög á reiki og ég ítreka það að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er nú að reyna að ná fram samræmdum reglum í þessu efni. Auðvitað geri ég og við öll okkur fyllilega ljóst að fólk sem ekki getur stundað atvinnu af ýmsum ástæðum getur þurft á verulegri aðstoð að halda en það er gert ráð fyrir því að sú aðstoð sé þá veitt annaðhvort af almannatryggingum eða af sveitarfélögum. Það er ekki gert ráð fyrir því í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð að aðrir fái bætur úr þeim sjóði en þeir sem sannanlega eru í atvinnuleit og sannanlega geta tekið atvinnutilboði ef það berst.