Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:14:05 (6479)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Umræður um viðskiptasamninga okkar við Evrópu hafa tekið æðilangan tíma á þessum vetri og um það er ekkert nema gott eitt að segja. Þetta er eitt stærsta mál sem við höfum staðið frammi fyrir um árabil og því eðlilegt að Alþingi Íslendinga taki sér góðan tíma til umfjöllunar um það.
    Ég er þeirrar skoðunar að sú umræða sem hefur farið fram í dag sé í það minnsta í betri hlutanum af þeirri umræðu í vetur og ég geri mér ákveðnar vonir um að umræðan marki ákveðin tímamót, þau tímamót að menn leiti eftir að því sem sameinar Alþingi í þessu máli en fram að þessu hefur umræðan fyrst og fremst snúist um það sem sundrar okkur.
    Ég hef fært fyrir því rök úr þessum ræðustól að ef við skoðum málflutning einstakra þingmanna og tillögur einstakra stjórnmálaafla, þá sé í raun miklu fleira sem sameinar okkur í þessu máli en það sem sundrar okkur. Á sínum tíma sat ég á þingi og studdi þá ákvörðun þegar ríkisstjórnin, sem þá sat, ákvað að fara í viðræðurnar um EES. Á þeim tíma virtust stjórnarflokkarnir alveg sammála um að það væri sú leið sem við hefðum að undanskildum væntanlega hv. 4. þm. Austurl. Það þýðir ekki að aðstæður í dag geti ekki leitt til þess að okkar hagsmunum sé best borgið með því að sá vilji okkar Íslendinga, sem ég þykist vita að sé vilji mikils meiri hluta Alþingis, að innganga í EB komi ekki til greina og við viljum fara í viðræður um að breyta þessum samningi í tvíhliða samning, komi mjög skýrt fram á þessu stigi. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að eins og málin hafa þróast sé stöðu okkar betur borgið varðandi áframhaldandi viðræður og þróun þessara samninga yfir í tvíhliða samninga að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði samþykktum en ef við hefðum hafnað honum.
    Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé langt frá því að viðræðum okkar um viðskiptasamning við Evrópu sé lokið og þar séu öll mál í höfn. Ég hef gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að landbúnaðarþætti samningsins og kannski ekki síst það að íslenska ríkisstjórnin dró á síðasta ári til baka viðræðunefnd sína um landbúnaðarmálin. Það kemur til vegna þess að innan Evrópubandalagsins eru landbúnaðarmálin og sjávarútvegurinn undir einum hatti. Þar kemur til annar flötur á landbúnaðarstefnu Evrópuríkjanna sem hefur mjög mikil áhrif ákomu okkar Íslendinga. Þar á ég við hið nána samband milli landbúnaðarstefnunnar og fiskveiðistefnu í Evrópuríkjunum. Við Íslendingar erum búnir að veita iðnvarningi frá Evrópu nánast ótakmarkaðan aðgang að okkar markaði og á sama tíma verðum við enn að hlíta því að samkeppnisstaða okkar iðnvarnings, þ.e. fiskafurðanna, sé stórlega bjöguð með styrkjum og innflutningstollum. Við höfum verið óþyrmilega minnt á þetta að undanförnu í tengslum við aukið framboð á fiski frá Barentshafi. Þess ber einnig að geta að verðmyndun á fiski frá Evrópu tekur að sjálfsögðu mið af mikið niðurgreiddum landbúnaðarvörum á því svæði. Við hljótum því að halda áfram baráttu okkar fyrir því að fá sem mesta fríverslun með fisk.
    Þetta hefur aftur leitt huga minn að því í vetur að fáar þjóðir eru eins háðar milliríkjaverslun og við Íslendingar. Eins er hlutfall matvæla óvíða eins hátt í útflutningi og hér. Það hlýtur eiginlega að vera eðlilegt að draga af þessu þá ályktun að fáum þjóðum sé eins mikilvægt og okkur Íslendingum að einfaldar og skilvirkar reglur ríkji um milliríkjaviðskipti með matvörur, reglur sem byggi í grundvallaratriðum á fríverslun en verða að mínu mati að taka mjög ákveðið mið af umhverfisþáttum og það verði að nást á næstu árum að umhverfisþátturinn verði verðlagður í þeim viðskiptum. Með öðrum orðum að umhverfisvæn framleiðsla fái markaðslegt gildi á hinum opna markaði.
    Nú hafa menn rætt heilmikið um aðild að EB sem ég ítreka að ég tel að standi engin efni til af okkar hálfu. Það var m.a. orðað mjög skýrt í forustugrein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum þar sem það var það rökstutt að þar væri ekkert um það að ræða, við værum, eins og hæstv. utanrrh. sagði, tíu árum á eftir öðrum Evrópuríkjum, heldur einfaldlega það að fyrir því væru engin málefnaleg rök. Okkar hagsmunir eru það mikið öðruvísi en þeirra þjóða sem mynda hið Evrópska efnahagssvæði vegna þess, sem ég rakti m.a. hér áðan, hversu fiskveiðar og fiskútflutningur er stórt hlutfall af okkar útflutningi. Það er okkur hins vegar mjög mikilvægt að hafa góðan viðskiptasamning við Evrópu og eiga greiðan aðgang að þeim markaði því að hvað sem menn vilja segja um þróunina í Evrópu, þá er það svo að sá markaður sem stendur næst í rúmi er alltaf sá sem verðmætastur er á hverjum tíma. Það er best að þjóna honum og sem líkast menningarlegt og félagslegt umhverfi hefur vissulega áhrif í þessu sambandi. Það breytir hins vegar ekki því að hagsmunir okkar Íslendinga eru þannig að okkur er mjög mikilvægt að halda öllum öðrum leiðum opnum. Eins og ég hef lesið samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, þá lokar hann engum leiðum í því. Við getum enn þá haldið áfram að þróa viðskipti okkar við Bandaríkin eða við Austurlönd eftir því sem við viljum. Gengjum við hins vegar í EB værum við komin inn fyrir tollmúra þeirra og það gæti haft skaðvænleg áhrif á þessa þætti. Þetta rökstyður enn frekar í mínum huga að við eigum ekkert erindi þar inn.
    Þegar menn tala um að nú getum við leyst okkar vandamál með því að beina viðskiptum okkar til Ameríku og að dollarinn fari hækkandi og það muni koma okkur til góða, þá vil ég í því sambandi nefna að því miður hefur það gerst að verð á okkar afurðum í Ameríku hefur lækkað í það minnsta sem nemur hækkun dollarans þannig að við stöndum ekki betur þar en fyrir. Það er hins vegar rétt að við höfum kannski vanrækt þann markað að nokkru og að nokkru verðlagt okkur út af honum því að það eru komnar aðrar og ódýrari fisktegundir þar í staðinn fyrir mikið af því sem við seldum þangað. Það verður ekki auðvelt að ryðja þeim út aftur nema þá með verulegri verðlækkun. Hutirnir eru því ekki svo einfaldir.
    Í öðru lagi vil ég nefna það að ef við ætlum að hasla okkur völl sem útflytjandi á fullunnum matvælum, þá er markaðsstarfsemi hvað það snertir þannig að sú vinna er ekki talin í mánuðum heldur árum og menn hoppa ekki með slíka vöru milli markaða einn, tveir og þrír.
    Ég veit ekki hvort ég á að taka það sem meðmæli með ræðu minni, hvort hún er það góð eða eitthvað annað, en hv. 17. þm. Reykv. er sofnaður undir henni. ( ÖS: Það er rangt.) En ég ætla að halda áfram. Ég ætla ekki að hafa langt mál en vil koma inn á það sem ég sagði í upphafi. Að mínu mati ber miklu minna á milli en menn vilja vera láta í umræðunni. Það rökstyð ég með því að mikill meiri hluti þingmanna hefur á beinan eða óbeinan hátt lýst því yfir að hann sé því samþykkur að það verði gerður tvíhliða viðskiptasamningur, sem einnig taki yfir rannsóknir, vísindi og menntun, við Evrópubandalagið og sá samningur byggi á viðskiptaþætti EES. Það er hugsunin á bak við þá þáltill. sem formaður og varaformaður Framsfl. leggja hér fram og er einhuga studd af þingflokki Framsfl.
    Ég vil aðeins ræða tillögu Alþb. um tvíhliða samning við EB sem hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hefur margsinnis lýst hér sem stefnu Alþb. í þessu máli og Alþb. komið fram einum rómi í málinu og auðvitað hlýtur það að vera jákvætt. Alþb. gaf á síðasta sumri út bækling eftir miðstjórnarfund 28. júní 1992 eins og hér stendur: Þetta er afgreitt og staðfest á fundi miðstjórnar Alþb. 28. júni 1992. Þar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur borið svo mjög fyrir brjósti stefnu og kannski eilítið skiptar skoðanir innan þingflokka Kvennalistans og Framsfl. um þetta mál, þá langar mig aðeins að fá þingmanninn til þess að staðfesta þann skilning sem ég legg í þetta plagg sem Alþb. gaf út á miðju síðasta sumri. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og EB verði m.a. byggður á viðskiptaþáttum EES-samningsins, sérstökum sjávarútvegssamningi og bókun 6 í samningnum við EB sem verið hefur í gildi síðan 1976.``
    Þá segir einnig: ,,Framkvæmd tvíhliða samningsins milli Íslands og Evrópubandalagsins verði einfaldari í sniðum en samkvæmt EES-samningnum. Eingöngu verði sett á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samningsaðila ekki útkljáð. Pólitísk vandamál verði leyst

í ráðherraviðræðum.``
    Síðan segir áfram, með leyfi forseta: ,,Í tvíhliða samningi Íslands og EB verði m.a. byggt á hugmyndum um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni auk þess sem hafðar verði til hliðsjónar reglur Norðurlanda um vinnumarkað og búseturétt og afdráttarlaus réttur Íslendinga til að skipa forræði og eignaraðild á auðlindum til lands og sjávar verði tryggður með sérstökum lögum.``
    Þarna komum við að því sem ég er algerlega sammála Alþb. um, að í tvíhliða samningi eigum við að geta tryggt þessi réttindi okkar betur. En eftir stendur að í þeirri samþykkt Alþb., sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur margsinnis lýst hér yfir að Alþb. standi einhuga að, er það tekið skýrt fram, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi, en sá tvíhliða samningur eigi að byggjast á þátttöku okkar í innri markaðnum. Meira að segja eru taldir upp allir þættir fjórfrelsisins, hugmyndir um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni.
    Eins og ég hef kynnt mér málið, þá getum við ekki tekið þátt í innri markaðnum, við getum ekki gert tvíhliða samning sem byggir á viðskiptaþætti EES á annan hátt en að taka yfir þær reglur sem eiga að gilda á Evrópusvæðinu um viðskipti og fjármálastarfsemi, þ.e. þær lagabreytingar sem við höfum m.a. verið að vinna að efh.- og viðskn. í vetur og oftar en ekki náðst full samstaða um og allir nefndarmenn skrifað undir. Að vísu einstaka sinnum með fyrirvara úr stjórnarandstöðunni. Þetta segir mér enn frekar að ágreiningurinn á borði er ekki alltaf eins mikill og hann er í orði.
    Þetta breytir hins vegar ekki því að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haldið afar klaufalega á þessu máli og algerlega mistekist að vinna að því að ná fram þeirri línu sem samstaða á að geta náðst um. Það hefur verið unnið eftir því að keyra hlutina í gegn með illu, því miður. Ég segi því miður, (Gripið fram í.) góðu eða illu. En mér hefur stundum fundist að það illa hafi frekar verið valið hafi það staðið til boða. Þetta segi ég m.a. vegna þess að ef við lítum á hvernig staðið er að þessum málum í okkar nágrannalöndum, þá er í flestum tilfellum um það veruleg pólitísk samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Í svo brýnu máli eins og hér er finnst mér að það hljóti að vera afar nauðsynlegt.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum ítreka að ég vona að þessi umræða í dag geti orðið til þess að aðilar nálgist um þá þætti sem menn eru sammála um og menn reyni að vinna á þeim nótum en ekki hinum að sundra þjóðinni eina ferðina enn í viðkvæmu utanríkismáli. Það er engum til hagsbóta. Ég vil nú skora á hæstv. utanrrh. að taka betur undir þessa tillögu en hann hefur gert fram að þessu. Því mér sýnist að það liggi alveg í augum uppi að okkur sé mikil nauðsyn að það komi fram nú þegar skýr vilji, ekki bara ríkisstjórnar heldur Alþingis, um það hvaða leið við viljum fara í Evrópusamvinnunni á næstu árum. Það liggi alveg ljóst fyrir að það sé ekki aðildin að EB. Það er einn hlutur í því sem hér hefur ekki komið fram en eftir því sem maður hefur reynt að kynna sér þau mál þá virðist það liggja fyrir að EB hefur nánast engan áhuga á okkur til inngöngu. Og það held ég að þeir ættu að kynna sér sem eru að velta því fyrir sér hvað það þýddi að sækja um aðild.