Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:27:15 (6500)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í máli hæstv. utanrrh. kom fram að hann teldi að það væri nokkuð langsótt að vera að ræða um aðild Íslands að Evrópubandalaginu og það væru uppi einhverjar alvöruhugmyndir í þá átt. Ég veit ekki hvaða mark hv. þm. tekur á þingmönnum í eigin flokki sem hafa mjög eindregið mælt með þessu og ég veit ekki hvernig hann metur samstarfsaðilann og þingmenn innan Sjálfstfl. sem ganga hér --- ég vil nú ekki segja berserksgang, en alla vega mjög eindregið ötullega fram í því að boða það sem næsta mál á dagskrá að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og það ekki minni maður en formaður efh.- og viðskn. þingsins. Í marsmánuði í fyrra var kafli í skýrslu hæstv. utanrrh. sem var samfelldur rökstuðningur fyrir því að nú væri tímabært að kryfja það til mergjar hvort ekki væri rétti tíminn til þess að fara að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Og hæstv. ráðherra hefur ekki dregið þetta til baka og hann tjáði hér enga afstöðu eindregna í sínu máli hvernig hann liti á málin að þessu leyti, hvort hann mundi að einhverjum tíma liðnum standa að því sem hann hefur áður látið að liggja að það væri skynsamlegt ef ekki óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópubandalaginu ef önnur Norðurlönd færu þá leið. Á þetta hlýt ég að benda í þessari umræðu um leið, virðulegur forseti, og ég kemst ekki hjá því að minna á að það væri betur að ýmsir þingmenn sem fyrr á árum létu hæstv. utanrrh. ráða ferðinni í þessum málum hefðu ekki haft dregið yfir höfuð á þeim tíma og eru þess vegna í þeirri stöðu sem þeir eru í dag.