Skýrsla um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum.

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 13:43:10 (6525)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram að umrædda skýrslu um málefni aldraðra lagði ég fram í sömu vikunni og ég fékk hana unna af embættismönnum ráðuneytisins. En staðreyndin var einfaldlega sú að það var gert ráð fyrir svo umfangsmikilli vinnu við þá skýrslugerð að allmargir starfsmenn ráðuneytisins voru í margra vikna og mánaða vinnu við að ljúka við hana og auk þess þurfti að leita til

aðila utan ráðuneytisins til þess að vinna ýmis atriði í þeirri skýrslu fyrir ærið fé. Ég ætla ekki að taka mér sjálfdæmi um það hvenær á að virða þingsköp eða hvenær ekki. Ég ítreka hins vegar beiðni mína til forsætisnefndar að hún skoði slíkar skýrslubeiðnir og meti e.t.v. í samráði við skýrslubeiðendur og ráðherra möguleika á því að sinna svo umfangsmiklum skýrslugerðarverkefnum eins og stundum ber við að þingmenn biðja um. Alþingi verður að sjálfsögðu að sjá fyrir því að það sé unnt að standa við þau þingsköp sem Alþingi hefur sett sér. Framkvæmdarvaldið ræður ekki alfarið ferðinni í þeim efnum. Hv. þm. gera það líka með umfangi þeirra beiðna sem þeir beina til ráðherra um skýrslugjafir.