Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:51:17 (6537)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þau orðaskipti sem áttu sér stað núna síðast að frumkvæði hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerðar Sverrisdóttur, sem benti á þann kjarna málsins að það er hætta á að upp úr samþykkt þessa frv. yrði til tvöfalt verkmenntakerfi. Hæstv. ráðherra bauð þá upp á það í framhaldi af þeim orðum hennar að það yrði sett inn í þennan texta ákvæði um að viðkomandi skólar þyrftu að samþykkja. ( Menntmrh.: Það yrði kannað í nefndinni.) Hæstv. ráðherra tók mjög strangt til orða í þeim efnum þannig að ég tek hans orð alveg fullgild og ég tel að það breyti miklu. Ég held að það sé hvorki orðhengilsháttur né útúrsnúningar eða eitthvað þaðan af verra sem stjórnarandstöðuþingmönnum gengur til í þessu máli. Ég held að þeir séu velviljaðir í þessu máli eins og öllum öðrum og varla hægt að finna nokkrar undantekningar í þeim efnum eins og kunnugt er. Hæstv. ráðherra á bara eftir að setja sig aðeins betur inn í þau mál og hann misskilur greinilega stundum vinsamlegar ábendingar. Ég held að þessar umræður hafi beinlínis leitt til þess að menn hafi komist að jákvæðum og skynsamlegum niðurstöðum um meginatriði. Í frv. stendur: ,,Menntamálaráðherra er heimilt að efna til`` o.s.frv. Svo stendur: ,,og skal hafa fullt samráð við fulltrúa atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgrein um skipulagningu tilraunarinnar.`` Það er hvergi gert ráð fyrir skólanum í þessum texta. Það er svo einfalt. Það er auðvitað tilefni þess að nokkrir þingmenn hafa gert athugasemdir við frv., þetta litla frv. sem lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu skoðun.
    Hitt er svo líka annað að ef hæstv. menntmrh. er tilbúinn til að láta skoða þessa hugsanlegu breytingu í nefnd, sem hann nefndi hér áðan, þá finnst mér líka að við gætum líka rætt það aðeins nánar hvort það er nokkur þörf á þessu frv. Hæstv. ráðherra segir aftur og aftur í sinni ræðu að frv. sé flutt til að atvinnulífið geti, með leyfi forseta, orðrétt: ,,komið óskum sínum á beinni og milliliðalausari hátt en áður á framfæri við skólana``. Ég játa að auðvitað er iðnfræðslukerfið, iðnfræðsluráð, þungt kerfi. Ég þekki það. Fræðslunefndakerfið er líka þungt. Ég þekki það. En ég mundi hafa brugðist við þessu. Ef það er orðin tiltölulega góð samstaða um það í atvinnulífinu að vilja breyta þessu kerfi þá eru það mikil tíðindi fyrir mér. Staðreyndin hefur verið sú að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið hafa í raun og veru staðið vörð um óbreytt kerfi, iðnfræðsluráðskerfið. Það eru því mikil tíðindi fyrir mér ef það er allt í einu orðið þannig að þessir aðilar telja að þetta kerfi sé með þeim hætti að því þurfi að breyta í grundvallaratriðum. Það er nokkuð fróðlegt og eiginlega kaflaskipti. Ég er ekki að segja að þau séu af hinu vonda, langt frá því.
    Ég held að það sé alveg rétt sem sumir fulltrúar atvinnulífsins hafa haldið fram að iðnfræðslukerfið sé allt of þungt í vöfum. Ég held að það sé rétt ég er sammála því og hef lengi verið það. Löngu fyrir þann tíma að ég fór að starfa í menntmrn. Ég held þess vegna að það væri miklu skynsamlegra að skoða í sátt við aðila iðnfræðsluráðs breytingar á fræðsluráðum iðnaðarins. Þar er hægt að tryggja beina aðild viðkomandi atvinnugreina. Það er enginn vandi. Það getur ráðherra gert. Þá spyr ég: Til hvers er frv.? Af hverju er sú leið ekki farin. Ég satt best að segja, og ég vona að hæstv. ráðherra skilji það ekki sem orðhengilshátt eða útúrsnúninga eða neitt þess háttar af minni hálfu, átta mig ekki á því til hvers frv. er flutt miðað við gildandi lög og þau meginrök sem hv. menntmrh. flutti fyrir flutningi frv. hér áðan.
    Ég ætla ekki að fara að ræða mikið frekar um starfsmenntun, skólana og atvinnulífið. Hæstv. menntmrh. nefndi áðan þá staðreynd að það fara ekki nema 9,4% nemenda samkvæmt námsferilskönnun Jóns Torfa í starfsnám. Og það er eitthvað um 5,1--5,2% sem ljúka iðnnámi af þeim árgangi sem hann hefur kannað, þ.e. árgangurinn sem er fæddur árið 1969. Það er auðvitað alveg herfilegt. Ég hef séð námsferilskönnun fyrir stóra hópa t.d. á Akranesi þar sem um er að ræða 50 nemendur tiltekins árgangs sem útskrifuðust úr grunnskóla og þar fór þriðjungur í bóknám og lauk stúdentsprófi en enginn í starfsnám.
    Út af fyrir sig er það alveg öruggt mál að þetta segir eitthvað um skólakerfið. En þetta segir náttúrlega líka eitthvað um atvinnulífið. Staðreyndin er auðvitað sú að á undanförnum áratugum hefur verið svo mikil vinna hér á landi að þó foreldrar sem hafa átt börn sem hafa hætt í skóla 17, 18 eða 19 ára gömul þá hefur það ekki verið verulegur héraðsbrestur vegna þess að krakkarnir hafa fengið vinnu. Þau hafa getað farið í vinnu og farið að vinna fyrir sér og síðan sínum á þeim þensluvinnumarkaði sem hér hefur verið. Hér höfum við búið við allt aðrar aðstæður en t.d. atvinnulífið annars staðar. Og það er kannski af þessum ástæðum sem atvinnulífið hefur sinnt skólunum minna hér á landi en annars staðar. Það er kannski af þeim ástæðum sem við höfum núna atvinnuleysi sem hlutirnir eru þannig að atvinnulífið, bæði VSÍ og ASÍ, er núna farið að sinna þessum málum af miklu meira kappi en lengi hefur verið. Og ég verð að segja að ég tel að samþykkt Alþýðusambandsþingsins um menntamál frá síðasta ASÍ-þingi á Akureyri hafi verið tímamót í sögu Alþýðusambandsins og þar með í sögu atvinnulífs og skóla. Þess vegna tel ég að allir sem hafa með menntamál að gera ættu að fagna því.
    Hæstv. menntmrh. nefndi þrenns konar rök sem væru talin fram fyrir því að breyta iðnmenntuninni í landinu. Það væri í fyrsta lagi að stjórnin væri of þunglamaleg, fræðslunefndirnar sérstaklega, og þar ætti atvinnulífið ekki beina aðild. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel hægt að breyta skipan fræðslunefndanna þannig að þar eignist atvinnulífið beina aðild. Ég tel það hægt og það þurfi ekki lagabreytingu til þess. Um það þarf samkomulag við þá aðila sem nú tilnefna fulltrúa í iðnfræðsluráð. Heildarsamtök atvinnulífsins eins og Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenskra iðnrekenda geta auðvitað tilnefnt fulltrúa í fræðslunefndirnar frá ákveðnum greinum, málmiðnaði, skipasmíðaiðnaði o.s.frv.
    Í öðru lagi eru það talin rök fyrir breytingum á kerfinu að það sé of mikið vægi í almennum bóklegum greinum núna í iðnmenntakerfinu. Ég er ekki sammála þessu en auðvitað hef ég enga endanlega rétta skoðun á þessu máli en ég bið menn aðeins um að staldra við. Ef það á að minnka vægi bóklegu greinanna, hvað þýðir það? Hvaða fólk erum við að mennta? Erum við bara að mennta fólk til að snúa tilteknum skrúfum í tilteknum verksmiðjum í tilteknum greinum? Nei, við erum að mennta fólk til að það geti tekið á móti framtíðinni með opnum hætti. Og ætlum við núna, alþingismenn árið 1993, að segja fyrir um það hvernig iðnmenntun við viljum hafa fyrir börnin sem eru að byrja í grunnskólum í haust og ljúka kannski námi í framhaldsskólum af einhverju tagi, segjum eftir 20 ár eða svo, árið 2013? Erum við svo vitur að við treystum okkur til að skrifa það upp í smáatriðum hvernig menntunin á að vera sem fólkið fær árið 2013? Mitt svar er nei, með fullri virðingu fyrir Alþingi Íslendinga. Alþingi hefur ekkert vit á því. Það er bara eitt sem Alþingi getur skipt sér af í þessu efni. Hvað er það? Það er að menntunin sé þannig að fólk hafi forsendur til að taka við nýrri þekkingu. Af því að það er ekki hægt að ljúka skólanámi lengur. Það er útilokað að nokkur maður geti sagt: Ég er búinn með skóla og þarf aldrei að læra neitt meira. Það er liðin tíð. Fólk verður að vera í skóla alla ævina eins og hlutirnir eru að þróast. Breytingarnar eru svo miklar. Þess vegna vara ég við þeim viðhorfum sem koma fram frá fulltrúum atvinnulífsins og hæstv. menntmrh. nefnir hér að bóklegar greinar hafi of mikið vægi í iðnskólum og það sé kannski meginvandinn. Ég vísa því á bug. Ég tel að þetta sé slæmt sjónarmið og við eigum að slá skjaldborg um hið almenna húmaníska innihald skólakerfisins í landinu hvort sem það eru bóknámsskólar eða verknámsskólar.
    Í þriðja lagi eru það nefnd sem rök að það sé skortur á hagkvæmni og skilvirkni í þessu kerfi eins og það er. Það er nokkuð til í því. Það er alveg rétt. Um það er enginn ágreiningur held ég. Kerfið hefur verið mjög seint að taka upp nýjar iðngreinar. Hins vegar hafa menn samviskusamlega sett námsskrár fyrir iðngreinar sem eru kannski með örfáa nemendur og eiga ótrúlega lítið erindi við nútímaatvinnulíf. Kerfið er þunglamalegt og því á að breyta að mínu mati fyrst og fremst með því að breyta fræðslunefndunum.
    Síðan verða menn auðvitað um leið og þeir breyta skólunum að hugleiða atvinnulífið sjálft. Halda menn að margir ungir menn og konur um þessar mundir fari í nám í skipasmíði eða málmiðnaði eða blikksmíði? Þessar greinar eru allar að geispa golunni hérna. Af hverju hefur fækkað í iðnnámi á undanförnum árum? Það er vegna þess að iðnaðurinn hefur dregist saman. Á síðasta þingi lagði hæstv. iðnrh. fyrir skýrslu um þróun iðnaðarins frá 1970--1990. Það voru óhugnanlegar hryllingsmyndir um hnignun iðnaðarins á Íslandi sem þar blöstu við. Auðvitað er það ein ástæða þess að verknámið er veikara núna en það hefur verið áður að iðnaðinum hefur hrakað stórkostlega.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að skattyrðast við hæstv. menntmrh. um einstök atriði í þessu máli. Ég tel enga ástæðu til þess. Ég ætla þó bara að lokum að segja það að eins og frv. er sett upp núna þá er af því valdboðskeimur. Ég tel hins vegar að sú breyting sem hæstv. ráðherra benti á áðan að gæti komið til greina og mætti skoða í menntmn. þurrki þann valdboðskeim út. Ég tel sjálfsagt að taka því vel. Ég vil hins vegar að lokum, virðulegur forseti, vara við þeirri uppsetningu mála að hæfniskröfur markaðarins eigi að fara að ráða skólakerfinu á Íslandi. En það voru orð hæstv. ráðherra hér áðan. Ég vil ekki að hlutirnir séu þannig settir upp að það séu hæfniskröfur markaðarins sem eigi að ráða skólakerfinu á Íslandi.
    Að lokum vil ég endurtaka að ég tel að hæstv. menntmrh. hafi í orðaskiptum sínum við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur breytt málinu talsvert og gert það talsvert aðgengilegra en ella væri um leið og það hlýtur auðvitað að vera þannig að hv. iðnn. skoði málið mjög rækilega þegar hún fær það til meðferðar.