Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:35:45 (6575)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að lesa fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson það sem minni hlutinn leggur til í þessu máli. Ég hélt satt að segja að þingmaðurinn hefði lesið tillögu minni hlutans. En því miður ég varð fyrir vonbrigðum ég sé að maðurinn hefur ekki gert það enda hefur verið mikið að gera á þeim bæ. En þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa í hinu nýja félagi. Heimilt er að selja allt að 40% hlutafjár, þó ekki fyrstu þrjú árin. Til frekari sölu þarf samþykki Alþingis og jafnframt þarf Alþingi að heimila sölu einstakra verksmiðja.``
    Þetta er það sem minni hlutinn leggur til, hv. þm. Og að vera að tala um að við höfum ekki trúnað Þorsteins Pálssonar til þess að skipa í einhverjar nefndir eða stjórnir. Veit þingmaðurinn það ekki? Auðvitað veit hann að það verður ekki Þorsteinn Pálsson eða einhver annar ráðherra sem nú situr á valdastólum sem mun taka á þessum málum að þremur árum liðnum. Auðvitað veit hann það.