Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:56:37 (6588)

     Flm. (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni þar sem ríkisstjórninni er falið að kanna möguleika okkar Íslendinga á veiðiheimildum í fiskveiðilögsögu annarra ríkja, einkum þeirra sem eiga lögsögu í Barentshafi auk annarra þjóða í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku.
    Markmið tillögunnar ætti í sjálfu sér að vera öllum ljóst. Við vitum öll að íslenski flotinn er of stór miðað við afrakstursgetu miðanna og þróun helstu nytjastofna okkar síðustu árin og raunar hafa spár um nánustu framtíð því miður leitt til þess að umframgeta flotans hefur aukist. Þróun í útgerð hefur því orðið þannig að menn hafa freistað þess að sameina veiðiheimildir á æ færri skip til að auka arðsemi veiðanna. Af þeim sökum falla sífellt til fleiri skip sem hafa ekki nein verkefni hér við land. Útgerðin jafnt sem stjórnvöld hafa talið þjóðhagslega hagkvæmt að reyna að draga úr veiðigetu flotans með því að fækka skipum. Hið opinbera hefur þannig reynt að örva og aðstoða útgerðina við að úrelda skip. Skemmst er að minnast þess að með lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem samþykkt voru á síðasta þingi, var framlag til úreldingar aukið. Einnig hefur komið fram hjá stjórnvöldum að í tengslum við mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu fyrirhuga stjórnvöld að hvetja enn frekar til úreldingar með því að hækka úreldingarstyrkina. Því er engum efa blandið að á næstu árum mun verkefnalausum skipum fjölga hér við land. Markaðurinn er hins vegar afskaplega lítill fyrir skip af þessu tagi. Nágrannaþjóðirnar eins og til að mynda Færeyingar og Norðmenn búa yfir talsverðum flota ónýttra skipa og fregnir um 40% samdrátt veiðiheimilda í löndum Evrópubandalagsins þrengja vitaskuld enn svigrúmið til að selja ónýtt skip.
    Hins vegar er ljóst að í þeim skipum sem við höfum ekki verkefni fyrir hér heima liggja eigi að síður mikil verðmæti. Það má spyrja: Eigum við að líta á þessi skip, þessi verðmæti, sem offjárfestingu sem ómögulegt er að nýta eða eigum við þrátt fyrir allt að reyna að skoða þau sem auðlind sem gæti vissulega skilað okkur einhverju til baka? Ég tel sjálfur að ekki eigi að líta á þessi skip sem ónýtt járnadrasl sem engum nýtist nema útlendum stálbræðslum. Ég held að við höfum hér líka vísi að eins konar auðlind sem hægt er að virkja. Hins vegar er algerlega undir okkur sjálfum komið hvort það tekst. Ég tel hins vegar að ekki sé mikill vafi á því að með því að nota tengsl okkar við ríki sem búa við vanþróaðan sjávarútveg takist okkur smám saman að finna einhverjum hluta þessara skipa verkefni á erlendum miðum. Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að í tillögunni felst raunar meira en það eitt að finna ónýttum skipum verkefni erlendis. Fyrir íslenskt atvinnulíf er miklu meira í húfi en það eitt þó vissulega sé það byrjunin.
    Við skulum aðeins skoða hvar möguleikar á veiðiheimildum kynnu að liggja erlendis. Slíkir möguleikar liggja fyrst og fremst í löndum þar sem atvinnulíf er verulega vanþróað og í mikilli fjármagnsþörf og þar sem veiðar og vinnsla eru lítt þróuð. Takist okkur Íslendingum að finna skipum verkefni á slíkum svæðum er alveg ljóst að það kemur fleira á eftir. Það þarf að manna skipin með þjálfuðum sjómönnum og fyrst um sinn yrðu þeir vitaskuld íslenskir. Líka þarf að vinna fiskinn. Í fæstum þessara landa er hins vegar að finna fiskvinnslustöðvar sem standast nútímakröfur. Í sumum tilvikum þarf að reisa þær frá grunni, þekkingin og tæknin kæmi þá væntanlega frá Íslandi líka. Þá er eftir að selja fiskinn og Íslendingar með alla sína þekkingu á markaðnum og pottþétt dreifikerfi um allan heim fengju væntanlega líka það verkefni. Það má minna á það, virðulegur forseti, að einmitt þessa þekkingu hafa Kamtsjatka-menn keypt og eru í vaxandi mæli farnir að nota þjónustu og þekkingu Íslendinga á fiskmörkuðum heimsins til að selja fyrir sig afurðir. Það er því er afar líklegt að þátttaka íslenskra skipa í veiðum í lögsögu þeirra þjóða, sem eru sérstaklega tilgreindar í tillögunni, mundu um síðir leiða til sölu á þekkingu, þjónustu og tækjum og gæti þess vegna að ýmsu leyti orðið verulegur stuðningur við innlendan sjávarútveg og ekki síður við þann þátt sjávarútvegs sem felst í framleiðslu á vélbúnaði sem tengist greininni. En sú iðngrein hefur vaxið verulega á síðustu tíu árum þrátt fyrir að stuðningur hins opinbera við hana hafi stundum verið minni en enginn.
    Ég hygg að þátttaka Íslendinga í veiðum með þessum hætti yrði væntanlega þannig að úrelt skip

yrðu lögð sem framlag inn í ný félög sem yrðu stofnuð til að nýta vannýtt mið á viðkomandi svæðum. Ef að líkum lætur yrði vinnslan einnig á höndum sömu fyrirtækja og því yrðu hæg heimatökin að tryggja hagsmuni Íslendinga þegar kemur að því að fjárfesta við uppbyggingu vinnslustöðvanna. Vert er að árétta að innan greinarinnar á Íslandi er verulegur áhugi á málinu. Þannig liggur fyrir að hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna er þegar búið að skrá 40 skip sem menn eru reiðubúnir að leggja til verkefna af þessu tagi á erlendum hafsvæðum.
    Í tillögunni leggjum við flm. sérstaka áherslu á að kannaðir verði möguleikar á veiðiheimildum í Barentshafi. Þetta er afar mikilvægt í ljósi þess að þar eru nú nytjastofnar í afskaplega örum vexti og ég tel að það skipti miklu máli fyrir Íslendinga að okkur takist með einhverjum móti að tryggja okkur hlutdeild í þeim miðum. Gleymum því ekki að Barentshafið var frá fornu fari ótrúleg matarkista. Áður en saman fóru breytingar í umhverfi sjávar þar og rányrkja var þorskstofninn þar að meðaltali um 20 ára skeið geysilega stór eða tvær til þrjár milljónir tonna. Rányrkjan og breytingar í sjónum leiddu hins vegar til þess að hann hrundi. Hann fór um skeið niður í 170 þús. tonn. En á tímabili nam þorskafli meira en milljón tonnum á ári milli áranna 1968 og 1974 veiddu menn úr Barentshafi þrisvar yfir milljón tonn. Nú er aftur kominn mikill vöxtur í þorskstofninn í Barentshafi. Afli hefur aukist úr 170 þús. tonnum 1989 upp í 380 þús. tonn í fyrra og því er spáð að fyrir lok þessarar aldar verði aflinn e.t.v. 600--800 þús. tonn. Því skiptir miklu máli ef okkur tækist með einhvers konar samningum að komast með litlu tána inn á þessi svæði þegar kvótinn fer aftur að aukast. Við skulum heldur ekki gleyma þeim möguleikum, virðulegur forseti, sem felast í næsta nágrenni okkar við Grænland. Gleymum því ekki að fyrir tiltölulega fáum áratugum voru geysilega sterkir þorskstofnar við Grænland, bæði við Austur- og Vestur-Grænland. Vestur-Grænlandsstofninn var reyndar svo sterkur að fyrir 1960 veiddu menn þar um 400.000 tonn af þorski á ári. Nú eru Grænlendingar að selja Evrópubandalaginu kvóta úr þeim litla stofni sem þar má veiða og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum skyldu Íslendingar ekki freista þess að gera það líka. Ég minni á að fyrir eitt íslenskt línuveiðiskip, Lísu Maríu frá Ólafsfirði, hefur tekist að fá þar veiðileyfi.
    Ég hygg þó að mestu möguleikarnir kunni að liggja á hafsvæðum í fjárlægum heimsálfum. Miklir vannýttir fiskstofnar eru fyrir ströndum margra ríkja í Suður-Ameríku, í Afríku og Asíu auk þeirra ríkja sem áður tilheyrðu hinum hrundu Sovétríkjum. Flest þessara ríkja eiga það sameiginlegt að þau eru fyrst og fremst að nýta stofna sem eru á grunnslóð. Þau hafa gripið til þess ráðs að reka erlenda flota sem hafa verið að veiða á djúpslóðinni út úr landhelginni sem þau færðu út í 200 mílur að fordæmi Íslendinga. Innan þessara ríkja hefur til skamms tíma verið ríkjandi það viðhorf að hleypa ekki útlendingum inn fyrir lögsöguna en nú hefur það verið að breytast. Ráðamenn í þessum ríkjum gera sér grein fyrir því að með því að fá útlendinga til samstarfs þá fylgja í kjölfarið rannsóknir á djúpslóðinni, uppbygging í landi, fjármagn, tækni og þekking. Þannig hefur það gerst að núna eru ýmis þessara ríkja, til að mynda í Suður-Ameríku, að leita eftir samstarfi við fiskveiðiþjóðir heimsins til að kanna hvað er að gerast á djúpslóðinni. Ég get tekið dæmi eins og Kólumbíu þar sem eru einungis nýtt grunnmið. Kólumbíumenn fengu Portúgala til að kanna djúpslóðina og komust að því að þar er gnótt bolfisks. Þeir hafa hins vegar engin skip til að nýta djúpslóðina. Fyrir örfáum árum leituðu þeir eftir aðstoð einkaaðila frá Íslandi til að byggja upp þessa grein. Það vill einmitt svo til að þar hefur Íslendingur um áratugaskeið verið í lykilstöðu í stjórnkerfi sjávarútvegsins. Það tækifæri tókst hins vegar ekki að nýta. En það má benda á fleiri svæði eins og Mexíkó. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fór til Mexíkó í fjármálaráðherratíð sinni og opnaði þar ákveðin sambönd. Því var fylgt eftir af hæstv. sjútvrh., Þorsteini Pálssyni, og það liggur fyrir að verulegur áhugi er á því í Mexíkó að fá íslenska þekkingu til þess að nýta mið og til þess að byggja upp fiskiðnað þar í landi.
    Ég tel mikilvægt í þessu sambandi, virðulegi forseti, að minna á það að Íslendingar hafa staðið sig bærilega í að veita ýmsum vanþróuðum þjóðum aðstoð á sviði uppbyggingar sjávarútvegs. Með því erum við ekki bara að veita þessum þjóðum aðstoð, við erum líka að skapa viss sambönd. Þessi sambönd munu nýtast okkur vel þegar kemur að því að leita eftir veiðiheimildum og frekari sölu á tækni og tækjum til þessara ríkja.
    Ég vil líka í þessu sambandi minna á umræða hefur farið fram um að reisa alþjóðlegan sjávarútvegsskóla á Íslandi. Ég minni á hversu vel hefur tekist til með alþjóðlegan jarðhitaháskóla sem er rekinn hér og hefur leitt til þess að náðst hafa ýmis verkefni í fjarlægum heimsálfum einmitt á sviði jarðhita. Hvers vegna ekki líka á sviði sjávarútvegsins? Ég tel að þetta yrði fjárfesting sem mundi skipta nokkru máli og borgaði sig þegar fram í sækir.
    Auðvitað má spyrja sem svo, virðulegi forseti: Hvers vegna ætti það að vera á könnu ríkisins að leita hófanna með veiðiheimildir fyrir íslensk skip í erlendri lögsögu? Er ekki réttara að láta fyrirtækjunum eftir að spreyta sig á því sjálf? Þau sem teldu sig hafa ábata af því mundu þá væntanlega kanna þessa möguleika sjálf og leggjast síðan í nýtt landnám.
    Ég bendi á að tillagan gerir einungis ráð fyrir að ríkisstjórnin kanni möguleika á veiðiheimildum erlendis með beinum viðræðum við aðrar ríkisstjórnir eða í sumum tilvikum með því að láta sendimenn sína kanna undirtektir hjá stórum fyrirtækum sem hafa orðið til til að mynda í ýmsum ríkum gömlu Sovétríkjanna. Fyrirtækin mundu síðan sigla í kjölfar ríkisstjórna og sendimanna þess og freista samninga á grundvelli þeirra sambanda sem eru opnuð þannig.
    Ég tel, virðulegur forseti, að atbeini ríkisins sé nauðsynlegur á þessu sviði. Ég vil benda á að Danir, sú nágrannaþjóð sem á síðustu árum hefur náð einna bestum árangri í öflun nýrra markaða fyrir framleiðslu sína, hefur sérstaka deild á snærum danska utanríkisráðuneytisins sem starfar einvörðungu að því að leita uppi tækifæri, möguleika sem síðan er komið á framfæri við atvinnulífið. Ég minnist þess þegar fulltrúi dansks iðnaðar kom hingað til lands fyrir nokkrum árum taldi hann þetta ómetanlegt fyrir fyrirtækin sem hefðu ekki alltaf bolmagn til þess að finna sjálf hentug svæði til þess að fjárfesta í. Hann taldi þetta eina arðbærustu fjárfestinguna sem Danir hefðu lagt í fyrir útflutningsiðnað sinn. Það sama gildir auðvitað líka um íslenskan sjávarútveg. Hann hefur tiltölulega lítið bolmagn til að kanna möguleika sem kunna að vera fólgnir í fjarlægum svæðum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í gegnum það kerfi sem hún hefur byggt upp í gegnum utanríkisþjónustuna miklu betri tækifæri til þess. Ekki einungis þó með því að beita sendiráðum sínum heldur líka með því að senda sérfræðinga í vettvangskannanir og afla upplýsinga í gegnum þá menn sem hún hefur stundum kostað til vinnu í sambandi við þróunaraðstoð. Ég bendi á nýlegt dæmi þar sem slík aðstoð hefur skilað talsverðu og það eru þau tengsl sem sköpuðust við Namibíu en starfið þar hefur einmitt leitt til þess að þar eru að opnast möguleikar sem virðast a.m.k. við fyrstu sýn vera giska miklir fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Ég bendi líka á að ríkisstjórnin hefur veitt talsverða fjármuni til að aðstoða sjávarútveg vanþróaðra ríkja, til að mynda Eystrasaltslönd og Kamtsjatka, og kostað nokkurn hóp manna til að koma hingað og fullnema sig í fiskvinnslu. Ríkisstjórnin og Íslendingar njóta því vildar hjá þessum þjóðum og ríkisstjórnin er þess vegna í aðstöðu til að þrýsta á um að Íslendingar umfram aðrar þjóðir eigi kost á að nýta þá vannýttu stofna sem þessar þjóðir hafa innan lögsögu sinnar.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson, besti dómarinn um það hvort ríkisstjórnin eigi að beita sér í þessum efnum er vitaskuld greinin sjálf. Mig langar því að vitna til viðtals við Magnús Gunnarsson, þáv. framkvæmdastjóra Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, sem birtist í Morgunblaðinu 16. mars á síðasta ári. Þar ræðir Magnús för íslenskra stjórnmálamanna til Kamtsjatka og ferð aðstoðarmanns utanrrh. til Suður-Afríku. Um þetta segir Magnús Gunnarsson, með leyfi forseta: ,,Það er mjög ánægjulegt þegar opinberir aðilar, hvort sem það eru alþingismenn, embættismenn eða ráðherrar, taka þátt í þessu starfi sem þessir tveir menn hafa gert. Ég vildi persónulega sjá mun meira af slíkri þátttöku stjórnmála- og embættismanna.`` Enginn þarf því að ganga gruflandi að afstöðu sjávarútvegsins til þessara mála.
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessari ræðu dregið upp þá möguleika sem ég tel felast í því að afla veiðiheimilda í lögsögu erlendra ríkja. Ég vil hins vegar árétta að hér er ekki um neina allsherjarlausn að ræða fyrir vanda íslensks sjávarútvegs, þ.e. þann hluta vandans sem hann glímir við í gervi ónýttra veiðiskipa. Það er auðvitað líka ljóst að það mun taka tíma til að vinna þetta upp. Hér er ekki um að ræða neina allsherjarlausn sem næst á örskotsstundu en samþykkt þessarar tillögu gæti hraðað því allverulega að íslenskir útvegsmenn fetuðu í fótspor forvera sinna sem gjarnan höfðu þann hátt á þegar afli brást hér við land að leita á ný mið, við Nýfundnaland, við Grænland og enn í dag er að finna þar gjöful mið sem bera nafn íslensku frumkvöðlanna, manna sem fóru í nýja landvinninga. Það er einmitt það sem ég vil leggja til með þessari tillögu.