Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:29:38 (6591)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að reyna að leiðrétta þann misskilning sem virtist komast á þegar ég nefndi þá möguleika sem gætu falist í kaupum Útgerðarfélags Akureyringa á meiri hluta í þýska fyrirtækinu Mecklenburger Hochseefischerei og að þá hefði ég á einhvern hátt verið að vísa til þess að það þýska fyrirtæki fengi sérstakar veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu. Það var ekki það sem ég átti við heldur hitt að ég tel að með þessum kaupum styrki Útgerðarfélag Akureyringa í senn sína stöðu sérstaklega og jafnframt hitt, sem kannski er enn þá mikilvægara, að með þessum hætti er væntanlega hægt að flytja hluta þeirrar vinnu sem unnin er erlendis til landsins. Eftir því sem ég skil best eru áform Útgerðarfélags Akureyringa þau að þetta þýska útgerðarfyrirtæki landi sem mestu af sínum afla hér á landi og skapi þannig, eftir því sem íslensk lög leyfa, störf hér á landi sem hingað til hafa verið unnin erlendis, bæði störf í kringum þessi skip, störf við sölu afurðanna og þannig mætti áfram telja. Þetta átti ég við og taldi eitt af því mikilvægasta sem væri að gerast. Ég held að þetta sýni og sanni og undirstriki þá miklu aðlögunarhæfileika sem íslenskum sjávarútvegi er gefið jafnvel við þessar erfiðu kringumstæður að takast á við svona risavaxið en um leið ögrandi og athyglisvert verkefni.