Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 16:02:46 (6620)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég skal binda mál mitt við örfá atriði sem fram hafa komið og stytta það þar sem nú er tíminn liðinn sem til stefnu var.
    Í fyrsta lagi vil ég ræða um það sem fram hefur komið af hálfu málshefjanda og reyndar hv. 8. þm. Reykv. um að við höfum ekki verið fyllilega sammála, ég og hæstv. viðskrh. Það kann að vera að við séum ekki alltaf sammála en í þessum málum erum við þó sammála. Staða málsins er eins og hæstv. ráðherra lýsti að ríkisstjórnin hefur tekið ávörðun um það í hvaða formi hún vill að þessi stuðningur verði en samningur liggur ekki fyrir fyrr en í næsta mánuði, enda er samningurinn gagnkvæmur og það þarf að gera kröfur eins og réttilega kom fram í máli hæstv. ráðherra um eiginfjárstöðu og afkomu og fylgjast með því að slík skilyrði verði upfyllt.
    Í öðru lagi hefur verið deilt hérna nokkuð um markaðsgildi hlutafélaganna sem áður voru í eigu Sambandsins. Ég held að óhætt sé að slá því föstu að Landsbankinn hafi farið afar varlega í þeim efnum og bendi á Samvinnubankann því til sönnunar, en það var bent á það hér í umræðunum að þar gerði Landsbankinn kröfu um að hækka lífeyrisskuldbindingar úr 100 upp í 200 millj. og eins tel ég að viðhorfin gagnvart Samskipum sýni það að mönnum er ekki sama þegar fyrirtækin eru skoðuð og þá er gripið jafnvel til dómstólaleiðar ef ekki er hægt að fá leiðrétt gildi fyrirtækjana með öðrum hætti.
    Á það hefur verið minnst að ég hafi ekki svarað rétt varðandi hliðstæð dæmi úr stjórnkerfinu. Ég skal viðurkenna það að ég þekki ekki samsvarandi samninga úr stjórnkerfinu og mér finnst nú nokkuð langt til seilst þegar minnst er á Aðalverktaka sem hluta af stjórnkerfinu jafnvel þótt ríkið eigi þar meiri hluta. Það er sjálfstætt fyrirtæki sem ekki er hluti af stjórnkerfinu. Um Landsvirkjun get ég ekki sagt. Ég þekki það dæmi ekki. Þar virðist hv. þm. gera betur en ég.
    Síðan varðandi hvort hér sé um að ræða forgangskröfu eða ekki, þá sagði hv. þm. að við værum ekki alveg sammála, ráðherrarnir. Ég held að við séum meira sammála en ósammála því að ég sagði orðrétt, með leyfi forseta, í minni ræðu: ,,Hins vegar má telja einsýnt að hér sé um að ræða almenna kröfu og ekki er að mínu mati um að ræða launakröfu sem fallið geti undir ábyrgðasjóð launa`` þannig að báðir aðilar eru sammála um það að þannig beri að líta á þótt auðvitað enginn geti skorið úr um það nema dómstóll og dómstóll hefur enn ekki gert það samkvæmt lögunum.
    Loks að síðustu, þótt ekki gefist hér tækifæri til umræðna almennt um lífeyrissjóðsmál, þá snertir þetta auðvitað þann stóra málaflokk. Ég vil einungis segja það að þeim málum verður ekki breytt nema í tengslum við kjarasamninga. Þeir hafa áhrif á launakjör fjölmargra því að hér er um að ræða samspil. Það eru þrjú atriði sem ég vil nefna að lokum sem auðvitað þarf að skoða og hafa verið skoðuð eða munu vera í skoðun á næstunni. Það er í fyrsta lagi samræming á lífeyrisfyrirkomulagi opinberra starfsmanna og annarra, í öðru lagi hvort leyfa eigi frelsi um það til hverra lífeyrisgreiðslurnar ganga og hver eigi að ávaxta þær og loks hvert sé samspil lífeyris úr lífeyrissjóðum og lífeyrisbóta sem greiddar eru af hálfu hins opinbera í gegnum almannatryggingakerfið og leiða m.a. til þess sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist á vegna tekjutengingar, m.a. að sáralítill munur kann að myndast á réttindum þeirra sem greiða í lífeyrissjóð og hinna sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. Þessi mál eru mun stærri en svo, virðulegi forseti, að hægt sé að ræða þau hér á þeim tíma sem ekki er eftir og kýs ég að ljúka þessum orðum mínum með von um það að þessar umræður hafi a.m.k. upplýst það mál sem var til umræðu utan dagskrár.