Söluskattur af mannvirkjum loðdýrabúa

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:36:18 (6633)

     Einar K. Guðfinnsson :

    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa fsp. og enn fremur láta í ljós sérstaka ánægju með þau tíðindi sem hæstv. landbrh. flutti um það að sinnaskipti hafi orðið í fjmrn. Ég vil benda á að á síðasta ári lagði nefnd, sem sett var á laggirnar til að fjalla um vanda loðdýrabænda, fram sem eina af sínum tillögum að þeim kvöðum sem voru þinglýstar á eignir loðdýrabænda yrði aflétt til þess að auðvelda það að menn gætu farið að taka til annars brúks þær eignir sem menn stæðu uppi með að öðru leyti ónothæfar og höfðu verið byggðar fyrir loðdýraræktina. Sannleikurinn er sá að bændur eru einmitt á þessum missirum að hverfa til ýmissa annarra nýrra starfa og þær eignir sem eru á jörðum sem loðdýrabúskapur hefur verð stundaður á eru þessum bændum til einskis gagns nema þetta gerist sem hæstv. landbrh. hefur núna greint okkur frá. Það er mikið fagnaðarefni og mun örugglega eiga mikinn þátt í því að auðvelda mönnum aðlögun að nýjum tímum. Ég bendi á í þessu sambandi að fjölmargir bændur hafa hugsað sér að reyna að nýta loðdýrahúsin bæði fyrir vélageymslur og hesthús. Þessi sinnaskipti fjmrn. eru þess vegna mjög gott innlegg í það mál.