Bókaútgáfa á vegum ríkisins

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:35:19 (6657)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Menntmn. Alþingis hefur nú til meðferðar frv. til laga um menntamálaráð og Bókaútgáfu Menningarsjóðs, en sú bókaútgáfa hefur nú verið lögð niður án lagaheimildar. Það er ljóst að Bókaútgáfa Menningarsjóðs stóð fyrir merkri starfsemi í útgáfu fagurbókmennta og fræðirita sem aðrir útgefendur ýmist treystu sér ekki til að standa að eða höfð ekki áhuga á. Nú er það spurning hvort og hvernig ríkisvaldið á að koma nálægt bókaútgáfu en að mínum dómi verður ekki hjá því komist að ríkið komi þar að ef við ætlum áfram að gefa út ýmis menningarrit sem seljast oft hægt en eru ómetanleg jafnframt því að vera mjög dýr í vinnslu.
    Í hugleiðingum mínum um bókaútgáfu á vegum ríkisins og hvernig beri að hátta henni, þá vöknuðu ýmsar spurningar og þá ekki síst sú hversu mikil bókaútgáfa á sér stað á vegum stofnana ríkisins. Því spyr ég hæstv. menntmrh. á þskj. 704 eftirfarandi spurninga:
  ,,1. Hversu margar bækur voru gefnar út á vegum ríkisstofnana (ríkisstjórnin þar með talin) á síðasta ári?
    2. Hversu margar þessara bóka voru boðnar út til útgáfu?``
    Nú má ljóst vera að það er auðvitað skilgreiningaratriði hvað er bók, hvað er bæklingur og hvað má kalla kver og ég eftirlæt í rauninni stofnunum ríkisins að skilgreina hvað þeir telja til bóka en ég bíð spennt eftir svarinu.