Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:40:57 (6683)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram að það vandamál sem við blasir núna á rætur að rekja allt til síðasta áratugar og það er sannarlega mjög alvarlegt mál á góðærisárunum 1980--1990 skyldu skuldir heimilanna vaxa jafnmikið og raun ber vitni og svo nú þegar þrengingar koma yfir þjóðina og þá heimilin líka, þá er viðnámsþol hinna lægst launuðu og heimilanna í landinu jafnlítið og raun ber vitni af því að heimilin komu jafnilla undan góðærinu og hér hefur komið fram. Það er mikilvægt að á skuldamálum heimilanna verði tekið og ég treysti hæstv. félmrh. best af öllum til þess að hafa um það forustu og trúi því að þær ráðstafanir sem hún er að undirbúa og komu fram í máli hennar eigi eftir að treysta þann grundvöll sem nauðsynlegt er að gera.