Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 17:37:46 (6736)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson telur það pólitísk stórtíðindi og notar þar orðafar sem formanni hans, Ólafi Ragnari Grímssyni, er svo tamt að ég skuli styðja það að ríkisfyrirtæki séu gerð að hlutafélögum. Sú afstaða mín hefur legið lengi fyrir, jafnvel áður en ég varð þingmaður, og kom m.a. fram í blaðagreinum.
    Það sem er sögulegt við þá umræðu sem hefur farið fram um einkavæðingu í þingsölum er hins vegar það að hv. þm. Svavar Gestsson hefur þrisvar sinnum á þessum vetri lýst því yfir að það þurfi að vera leiðir færar til þess að einkavæða ríkisfyrirtæki.
    Hvað varðar síðan deiluna um biðlaunin, þá er þetta að segja: Það er ágreiningur um það. Það þarf að skera úr þeim ágreiningi fyrir dómstólunum. Ég tel að hér sé ekki lögbrot. Lögfræðingar ríkisins telja að hér sé ekki um lögbrot að ræða. Einn lögfræðingur sem kallaður var fyrir hv. iðnn. var sama sinnis. Hv. þm. Svavar Gestsson var sama sinnis árið 1989 þegar hann átti þátt í því að leggja fram og samþykkja frv. sem hélt nákvæmlega sömu grein inni og þessa. Ég er sama sinnis núna og hann var þá. En spurningin er þessi: Mun þetta ákvæði eyðileggja möguleika starfsmannanna fyrir dómstólum?
    Hér hefur oft verið vitnað í Hróbjart Jónatansson hæstaréttarlögmann. Hann segir einmitt um þetta efni í sinni ágætu greinargerð og varðar reyndar Síldarverksmiðjuna en þetta er um sama ákvæði og er í lögunum:
    ,,Ákvæði frv. verður að skoða sem fyrirmæli öðru fremur. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum um sjálfstæði dómenda eru fyrirmæli Alþingis eða jafnvel skýringar Alþingis á fyrirmælum sínum eigi bindandi fyrir dómstóla. Dómstólum ber samkvæmt 61. gr. stjórnarskrár að fara einungis eftir lögum í víðasta skilningi orðsins.``
    Með öðrum orðum, það liggur fyrir að það er ágreiningur í málinu og það ákvæði sem hér liggur fyrir skerðir ekki samkvæmt úrskurði þessa hæstaréttarlögmanns möguleika starfsmanna til þess að fara með þetta mál fyrir dómstóla. Það skiptir verulega miklu máli, virðulegi forseti.