Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:35:21 (6746)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að ég átti ekki sæti á Alþingi þegar þetta frv. fór hér í gegnum 1. umr. og ekki sæti í iðnn. þegar málið var til umfjöllunar þar. Eigi að síður skrifa ég undir nál. minni hlutans þar sem það kom fram eftir að ég hafði tekið sæti á Alþingi og ég tel mig geta skrifað undir það með góðri samvisku því að ég þekki þó nokkuð til þessa máls. Þetta er ekki fyrsta umferð sem þetta mál fer í gegnum þingið. Það fór a.m.k. einu sinni í gegn þegar ég átti sæti á Alþingi og þó að ýmislegt hafi breyst síðan þá, er nú sami grautur í sömu skál á ferðinni.
    Auk þess hef ég mínar skoðanir á þessu einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst hæstv. iðnrh. og sýnist að hann sjáist lítið fyrir í þeim efnum og gildir þá einu hvað hann geti hugsanlega einkavætt og ekki gáð að því hvort það sé æskilegt eða hagkvæmt í því tilfelli. Nú mæli ég alls ekki gegn einkavæðingum yfirleitt en er andvíg að það sé trúaratriði að maður tali nú ekki um nokkurs konar ofsatrúaratriði. Það er að mínu mati fásinna að ljá máls á einkavæðingu fyrirtækis eins og þessa sem býr við einokun og mun eflaust gera það áfram þangað til a.m.k. samniningurinn um EES öðlast gildi eða ef hann öðlast gildi. En við verðum auðvitað að taka afstöðu til málsins eins og það horfir við okkur núna.
    Ég held að við höfum alveg dæmin fyrir okkur um það hversu lítil hagræðing er í því að einkavæða fyrirtæki sem búa ekki við neina aðra samkeppni á markaðnum og nægir bara að líta til Bifreiðaeftirlitsins og hvernig almenningur hefur farið út úr viðskiptum við þá stofnun þar sem ekki er nokkur annar kostur fyrir hendi en fara þangað með bílinn og fá hann skoðaðan fyrir margfalt hærra verð heldur en áður var. Ef það er ekki gert þá er einskis annars von en númerin verði klippt af bílnum og hann dreginn upp í Vöku og enn meira gjald tekið. Mér segir svo hugur um að það verði álíka með sementið að við megum búast við því að það hækki.
    Hv. 17. þm. Reykv. lýsti því áðan að hann hefði ekki miklar áhyggjur af því. En ef svo kynni að fara að sement hækkaði, þá benti hann á nýstofnað samkeppnisráð. Þá leiðir það hugann að öðru máli sem var til umræðu í morgun þar sem spurt var um hæfni eins fulltrúa sem sæti á í samkeppnisráði, hvort hann væri hæfur vegna þess að hann væri jafnframt framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. Og er nú fróðlegt að velta fyrir sér í þessu sambandi hvernig umræddur aðili, Þórarinn V. Þórarinsson, mundi bregðast við ef hann stæði andspænis því að hagsmunir Sementsverksmiðju ríkisins og neytenda færu að stangast á, hvernig mundi hann bregðast við. Getur hann lokað sig svo frá starfi sínu í Vinnuveitendasambandinu að honum tækist að líta á málið einungis frá sjónarmiði neytenda í samkeppnisráði? Ég vil benda á það að Sementsverksmiðjan er aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands og borgaði þar árið 1992 iðgjöld að upphæð 662.446 kr. Þetta er ekki lítil upphæð og það hlýtur að vera á starfssviði framkvæmdastjórans að gæta hagsmuna þess fyrirtækis sem greiðir svona há iðgjöld. ( ÁRÁ: Hvert var verið að borga þetta?) Þetta eru greiðslur Sementsverksmiðju ríkisins til Vinnuveitendasambandsins ( ÁRÁ: Svo er Verslunarráðið eftir.) og með fullri virðingu fyrir umræddum aðila á ég ekki von á því að hann geti fremur en aðrir menn tvískipt sér svo að hann geti gersamlega litið fram hjá hagsmunum fyrirtækisins í þessu sambandi og tekið einungis afstöðu með hagsmunum neytenda þannig að ég mundi í sporum hv. 17. þm. Reykv. hafa örlítið meiri áhyggjur, ekki síst með tilliti til nýstofnaðs ráðs og hvernig það muni virka.
    Einhvern veginn fannst mér nú þegar hv. þm. mælti fyrir þessu frv. og fyrir áliti meiri hlutans að sannfærings hans í málinu væri ekki mjög sterk og marka ég það mest af því hvernig hann reyndi að gylla þau atriði frv. fyrir þingmönnum sem eru til þess sett að milda með einhverjum hætti þessa ákvörðun að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Hann gerði að umtalsefni m.a. 7. gr. frv. og hældi sér nokkuð af því að það stæði til að hafa tvo samsráðsfundi á ári með fulltrúum Akraneskaupstaðar til að ræða sameiginleg hagsmunamál. ( Gripið fram í: 5. þm. Vesturl.) Nú, var það 5. þm. Vesturl., ég bið afsökunar. Alla vega er þetta nú hér inni í frv. og sett þar til þess að gefa þessu fallegt yfirbragð.
    Hvers mega fulltrúar Akranesbæjar vænta í samskiptum við fulltrúa ríkisvaldsins ef framhald verður á því eins og upphaf þessa máls er? Því að það verða væntanlega fulltrúar ríkisvaldsins sem munu mæta til þessara samráðsfunda þar sem hv. þm. þreyttist ekki á að lýsa því að ekki væri ætlunin að selja hlutabréf í þessu fyrirtæki. Það verða fulltrúar iðnrh. sem munu mæta til þessara funda því hér segir í 10. gr. að iðnrh. fari með eignarhluta ríkisins.
    Fyrstu samskipti í sambandi við þetta frv. eru þau að frv. er sent til umsagnar bæjarstjórnar Akraness. Ég ætla ekki að fara að lesa það svar sem frá þeim barst, það hafa aðrir gert en það var afdráttarlaust á þann veg að þeir lögðust gegn þessu frv. Hvort sem tveir fulltrúar Sjálfstfl. kusu að sitja hjá, vera með sérbókun eða ekki þá var þessi ályktun bæjarstjórnarinnar samþykt með alla vega öllum öðrum greiddum atkvæðum og nægði til mikils meiri hluta. Hvað gerir svo þingnefndin, hv. iðnn. með þessa samþykkt? Jú, hún grípur til bragðs sem að vísu er því miður gamalkunngt bragð hér í þinginu en ekki til fyrirmyndar og mundi í flestu öðru samhengi vera flokkað ef ekki undir lygi, þá svo mikla hagræðingu að sannleikurinn snerist í andhverfu sína. Hér stendur í nál. meiri hlutans:
    ,,Nefndin fékk umsagnir um málið frá bæjarstjórn Akraness og Starfsmannafélagi Sementsverksmiðju ríkisins auk þess sem stuðst var við umsagnir frá síðasta þingi.``
    Það getur vel verið að flestir þingmenn séu orðnir svo æfðir í því að greina blekkingarvefi stjórnvalda hverju sinni en fyrir öllu venjulegu fólki sem les þennan texta, þá þýðir hann ekkert annað en það að þau álit sem leitað var eftir og vitnað er til í svona sambandi hafi verið stuðningur við málið og því endurtek ég það að það væri kannski fullmikið að segja að þetta sé lygi því að hér stendur ekki að þeir hafi lýst stuðningi en það er látið hjá líða að segja að þeir hafi ekki lýst stuðningi og þetta er svo sannarlega að hagræða sannleika sér í vil.
    Hv. þm. hefur margítrekað að það hafi verið settir fyrirvarar í frv. sem sé að finna i 8. gr. frv. að

ekki sé hægt að selja hlutabréf í Sementsverksmiðju ríkisins nema hafa til þess samþykki Alþingis. Honum er náttúrlega jafn vel kunnugt um það og öllum öðrum þingmönnum enda hafa margir haft orð á því á undan mér að þetta atriði heldur ekkert ef ríkisstjórninni dettur í hug að selja hlutabréf. Þá er þetta eins og hvert annað sýndarákvæði sem hægt er að breyta þegar ríkisstjórninni þóknast og ég sé ekki ástæðu til að halda annað en svo verði gert þar sem hæstv. iðnrh. hefur svo margítrekað lýst því yfir að þetta sé hans stefna. En það er einkennilegt að yfirleitt alltaf þegar það ber á góma að einkavæða ríkisfyrirtæki, þá er þessi varnagli alltaf sleginn að það standi nú ekki til að fara að selja þessi hlutabréf á opinberum markaði heldur ætli ríkið að eiga þessi hlutabréf. Þetta er eins og að fara í ullarsokka utan yfir skóna svo að fótatakið heyrist ekki en ætla sér samt að taka skrefin. Þetta er auðvitað ekkert annað en fyrirsláttur og smá biðtími sem settur er á. A.m.k. ætla menn að skapa sér þá stöðu að geta selt þegar á þarf að halda og hve oft höfum við ekki heyrt sem rök að það sé hægt að afla ríkissjóði tekna með sölu hlutabréfa fyrirtækja sem einkavædd hafi verið? Þetta er bara sett þarna inn til málamynda og heldur ekki andartak ef aðstæður breytast. Mér segir svo hugur að þetta sé sett þarna til þess að vera þarna út þetta ár og muni breytast strax næsta haust.
    Í 4. gr. frv. er kveðið á um að fastir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skuli hafa rétt til þess að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og verði boðin sameiginleg störf, en jafnframt segir í þessari grein að ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki við um þá starfsmenn. Nú er ekkert í samningum við opinbera starfsmenn sem segir að þetta ákvæði eigi ekki við þessa starfsmenn og hér stendur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga á sl. ári:
    ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðir sem settar eru með stoð í þeim lögum. Ekki verða gerðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímanum.``
    Heyrum nú hvað hv. 17. þm. Reykv. hefur að segja um þetta mál. Hann hefur tvennt til varnar þessari grein. Annað er náttúrlega hið gamalkunna að aðrir hafi verið vondir og þess vegna megi þeir vera vondir líka. Þetta er nú einn sá söngur sem maður hefur heyrt hvað oftast sunginn bæði hér inni á Alþingi og utan Alþingis þegar hv. alþm. takast á utan og innan stjórnar hvar sem þeir kunna að vera staddir hverju sinni, þá er þetta gamalkunnur söngur. Það er ekkert verra þó við gerum þetta heldur en þeir. Þeir gerðu þetta í fyrra. Við megum gera þetta núna. Það er aldrei afsökun fyrir einhverju vondu verki að einhver annar hafi unnið það líka, enda veit ég vel að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ekki einn um að grípa til þessara raka vegna þess að þetta étur hver eftir öðrum hér við öll hugsanleg tækifæri. Menn sem hafa verið í stjórn í fyrra, stökkva yfir girðinguna og eru alsaklausir og þeir sem stukku hina leiðina yfir girðinguna mega allt í einu gera eins og hinir gerðu áður. Þannig verður þetta eins konar vítahringur vondra verka sem enginn þarf að stoppa af því að aðrir hafa unnið þau áður.
    Hitt sem hv. þm. bar við var það að hæstv. fjmrh. hefði lýst því yfir að þessi ákvæði ættu ekki við um þessi frumvörp. Síðan hvenær hafa orð eða yfirlýsingar ráðherra haft samningsígildi og hafa opinberir starfsmenn samþykkt þessar yfirlýsingar ráðherra eða hafa þeir gleymt þeim þá ef þeir samþykktu og því var það ekki sett inn í samningana ef opinberir starfsmenn voru samþykkir þessari yfirlýsingu ráðherra? Mér finnst það alveg með ólíkindum að heyra fyrrv. opinberan starfsmann lýsa yfir að yfirlýsingar ráðherra og orð hafi samningsígildi.
    Það er leiður vani og ljótur sem sífellt er endurtekinn hér í verkum ríkisstjórna ár eftir ár að ganga þvert á samninga og hafa í engu samninga sem opinberir starfsmenn gera við ríkið. Og það gerir þennan verknað nú engu betri þótt aðrir hafi gert það sama áður. Það er líka að mér finnst hálfaumt yfirklór þegar fyrrv. stjórnarliðar standa hér og nota sömu rök og segja, líkt og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það hafi verið öðruvísi þegar þeir gerðu það og bera þá gjarnan ýmsu við. Það er ýmist neyðarástand eða álíka stór orð í þeim dúr. En nú sem sagt duga bara yfirlýsingar ráðherra. Við kvennalistakonur höfum ævinlega lagt á það áherslu að það sé ekkert sem réttlæti inngrip ríkisvaldsins í samninga með þeim hætti sem gert hefur verið æ ofan í æ undanfarin ár. Við lýstum þeirri afstöðu okkar einu sinni enn nú nýverið í atkvæðagreiðslu um Herjólfsmálið svokallaða. Án þess að hafa þó nokkra samúð með þeim tveim mönnum sem áttu aðild að því máli þá vorum við ekki tilbúnar til að ganga inn í gerða kjarasamninga og samningsgerð með þeim hætti.
    Ég ætla ekki að fjölyrða að öðru leyti um innihald þessa nál, það hafa aðrir gert. Þar er lagt til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég hefði nú alveg verið sátt við að ganga lengra og leggja til að þetta frv. væri fellt og mun eflaust greiða atkvæði gegn því þegar það kemur aftur ef ég verð þá enn á Alþingi.