Réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:51:37 (6767)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér er vissulega á ferðinni frv. sem fyrir margra hluta sakir er athyglisvert og mörg nýmæli hér sem ástæða er til að skoða af fullri alvöru. Ég vil þó fyrst og fremst gera að umtalsefni og fagna sérstaklega þeim sinnaskiptum sem orðið hafa í þingflokki Alþb. í þessum málum. Það er ekki lengra en tvö ár síðan að hér var til meðferðar frv. sem sá sem hér stendur flutti um þetta sama efni að verulegu leyti, þ.e. það meginefni að aðild að stéttarfélagi væri ekki lengur skilyrði og röksemd þess að fá notið atvinnuleysisbóta. Þá brá svo við að þingflokkur Alþb. eins og hann lagði sig í neðri deild, ásamt reyndar ýmsum fleiri sem aðild áttu að þeirri ríkisstjórn, brá fæti fyrir það frv. Það fór reyndar í gegnum neðri deild en kom ekki til atkvæða í efri deild. Það er kannski ekki aðalatriðið úr því sem komið er. Aðalatriðið er auðvitað það að þeir sem brugðu fæti fyrir þetta mál á sínum tíma hafa tekið efni þess upp á sína arma, hafa skipt um skoðun og hafa séð eins og hv. síðasti ræðumaður og frsm. þessa frv. sagði að hér er auðvitað á ferðinni mannréttindamál. Það er ekki hægt að svipta fólk almennum réttindum til greiðslna úr opinberum sjóðum sem það leggur sjálft fjármagn til á þeirri forsendu einni að það sé ekki aðilar að stéttarfélögum. Ég fagna því að augu alþýðubandalagsmanna hafa opnast fyrir þessari augljósu staðreynd og það gildir reyndar um ýmsa fleiri eins og ég sagði sem áttu aðild að fyrrv. ríkisstjórn.