Vátryggingarstarfsemi

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 12:10:24 (6779)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. sem hafa tekið til máls fyrir gagnlegar ábendingar og jákvæða afstöðu til frv. Ég vildi aðeins biðja um að hv. 9. þm. Reykv. yrði látinn vita af því að ég vildi gjarnan svara þeim spurningum sem hann lagði fram og að hv. 9. þm. Reykv. yrði viðstaddur þegar það væri gert.
    Á meðan beðið er eftir hv. 9. þm. Reykv. er best að svara nokkrum spurningum hv. 11. þm. Reykv. Hann spyr: Hvað er það í frv. sem bætir réttarstöðu vátryggingartakans? Út af fyrir sig má segja að nærfellt allar greinar frv. bæti réttarstöðu vátryggingartakans á einhvern hátt vegna þess að hér er fyrst og fremst um að ræða neytendafrv., þ.e. frv. sem er ætlað að verja réttindi vátryggingartakans. Það er gert með stórauknu eftirliti af hálfu Tryggingaeftirlitsins sem frv. þetta fjallar um. En sem dæmi um þá réttarbót, sem verið er að gera gagnvart vátryggingartakanum sjálfum persónulega, bendi ég á ákvæði 21. gr. þar sem kveðið er á um skyldu vátryggingarfélaga til að heimila almenningi aðgang að upplýsingum um stöðu viðkomandi vátryggingarfélags svo að menn geti gert sér grein fyrir hvort menn séu að taka á sig einhverja áhættu með að kaupa tryggingu hjá viðkomandi félagi. Þetta er nýmæli. Ég bendi einnig á allan VII. kafla frv. sem fjallar um miðlun, umboð og sölu vátryggingar. Þar er gert ráð fyrir því að leggja ýmsar kvaðir á þá sem vátryggingar selja hvort sem um er að ræða vátryggingarfélag, umboðsmann, sölumann eða miðlara til að veita þeim, sem ætlar að taka vátryggingu, allar þær upplýsingar sem hann þarf á að halda og að þessir aðilar fullnægi kröfum sem gerðar eru til þeirra í frv. um menntun í starfi og um upplýsingaskyldu gagnvart tryggingartakanum. Hér er því bæði um að ræða mjög aukinn rétt tryggingartakanna sem heildar í gegnum aukið eftirlit og auk þess hvers og eins.
    Ég sný mér þá að að svara þeim spurningum sem hv. þm. Svavar Gestsson lagði fram. Í fyrsta lagi ætla ég að taka fram að það er ekki tilgangur minn að frv. verði afgreitt fyrir vorið. Ég legg það fram til að hv. heilbr.- og trn. og meðlimir hennar geti hafið skoðun frv. Ef hægt væri að ná um það samkomulagi við þá vildi ég gjarnan að þeir gæfu sér einhvern tíma í sumar til að skoða frv. nánar með það að markmiði að við sammæltumst um að reyna að afgreiða það á þessu ári sem lög. Það er alveg rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði að þó svo Evrópskt efnahagssvæði spili talsvert inn í þetta frv. þá eru ýmsir aðrir þættir sem er nauðsynlegt að afgreiða sem horfa til breytinga til mikilla bóta á lögum um vátryggingarstarfsemi á Íslandi gjörsamlega án tillits til þess hvort um er að ræða Evrópskt efnahagssvæði eða ekki. Ég held því að það væri alfarið til bóta, alveg sama frá hvaða sjónarmiði menn horfa á það, ef unnt væri að ná samkomulagi um að menn reyndu að afgreiða frv. fyrir lok ársins. Ég ítreka að ég ætla mér ekki að leggja áherslu á það við heilbr.- og trn. að málinu verði lokið fyrir vorið.
    Þá vil ég snúa mér að þeim spurningum sem hv. þm. lagði fram. Hann spurði: Eru horfur á að einhverjar breytingar verði á starfsemi tryggingafélaga á Íslandi við samþykkt þessa frv.? Svo er ekki. Tryggingafélögin hafa að sjálfsögðu vitað um þær breytingar sem til standa því að þau hafa fylgst með samningu frv. og þau hafa fylgst með þeim kvöðum sem verið er að leggja á vátryggingarfélög á Íslandi með aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Þau hafa því á undanförnum missirum og árum verið að búa sig undir þessar breytingar. Öll stærri félögin eru þegar í stakk búin til að uppfylla allar þær kvaðir sem þarna er um að ræða. Hins vegar uppfylla fjögur lítil skaðatryggingafélög og fjögur lítil líftryggingafélög ekki skilmálana eins og sakir standa. Ef minnst er sérstaklega á skaðatryggingafélögin þá held ég að ég muni rétt að aðeins tvö af vélbátaábyrgðarfélögunum, þ.e. Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga og Vélbátaábyrgðarfélag Eyfirðinga, gætu staðist þær kröfur sem verið er að gera með þessu frv. en hin vélbátaábyrgðarfélögin uppfylla ekki þá skilmála að óbreyttu. Niðurstaða mín er sú að ekki verði um verulegar breytingar á starfsemi tryggingafélaga á Íslandi að ræða með samþykkt þessa frv., þau hafa þegar búið sig undir þær breytingar sem þá yrðu.
    Í öðru lagi var spurt um upphæð iðgjalda. Það eina sem liggur fyrir er að líkur eru á því að hækkun á eftirlitsgjaldi, þ.e. kostnaði Tryggingaeftirlitsins sem tryggingafélög og þar með tryggingatakar greiða, yrði líklega um einn þriðja. Ég tel þó harla ólíklegt að það leiði til hækkunar á tryggingariðgjöldum, einfaldlega vegna þess að eins og frá fjárlögum er gengið þá er gert ráð fyrir að Tryggingaeftirlitið skili allverulegum fjárhæðum í ríkissjóð, þ.e. það sem kallað hefur verið greiðsla á lífeyrissjóðsskuldbindingum. Fjárlögin gera ráð fyrir því að Tryggingaeftirlitið innheimti hjá vátryggingarfélögunum mun hærra gjald en Tryggingaeftirlitið þarf fyrir eigin rekstrarkostnaði.
    Verði frv. samþykkt eins og vonandi stendur til verða tekin af öll tvímæli um að slík gjaldtaka af Tryggingaeftirlitinu væri ekki heimil. Tryggingaeftirlitið ætti eingöngu að innheimta hjá vátryggingarfélögum eftirlitsgjald sem nægði til að standa undir rekstri Tryggingaeftirlitsins. Ég gæti trúað án þess að ég hafi haft aðstöðu til að fletta því upp að það væri álíka og heildarinnheimtan er hjá Tryggingaeftirlitinu nú miðað við fjárlögin að samanlögðum þörfum Tryggingaeftirlitsins og skilum á gjaldi til ríkissjóðs. Ég sé ekki að frv. mundi leiða til neinnar iðgjaldahækkunar per se eins og það liggur fyrir. Ég vil hins vegar engu spá um það, það er spásögn sem menn geta haft skiptar skoðanir um, hvort breytingar, sem gerðar eru með frv. og samningnum um Evrópskt efnahagssvæði verði til að auka samkeppni og lækka iðgjöld. Um það verður reynslan að dæma.

    Ég fjallaði í framsöguræðu minni mjög ítarlega um sérálit Erlends Lárussonar. Það hefur sjálfsagt farið fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, en ég sagði m.a. að ég hefði tekið þá ákvörðun að leggja frv. fram eins og meiri hluti nefndarinnar hafi gengið frá því. Það gerði ég í samráði við Erlend Lárusson en ég lýsti því sérstaklega yfir og tek undir margt af því sem hv. þm. sagði að ég óskaði sérstaklega eftir því að heilbr.- og trn. skoðaði ágreininginn á milli formanns nefndarinnar og meiri hlutans. Ég lýsti því yfir að ég væri ekki síður reiðubúinn til þess að standa að frv. með þeim breytingum sem Erlendur Lárusson lagði til enda þótt ég hefði talið réttara að leggja frv. fyrir Alþingi eins og nefndin og þar með meiri hluti nefndarinnar gekk frá því. Ég vísa þessu til skoðunar heilbr.- og trn. og get tekið undir margt af því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um það efni og ætla ekki að ítreka það.
    Síðan kemur mál sem bæði hv. þm. Svavar Gestsson og hv. 11. þm. Reykv. ræddu um og það var um eftirlitsþátt Tryggingaeftirlitsins gagnvart lífeyrissjóðunum og ef ég mætti bæta við sjúkrasjóðunum líka. Svo vill nefnilega til að það er eftirlit með lífeyrissjóðum. Ég held ég muni rétt að fjmrn. á að hafa eftirlit með lífeyrissjóðunum. En enginn hefur eftirlit með sjúkrasjóðunum. Meira að segja eru dæmi um að félagsmenn í stéttarfélögum fái ekki upplýsingar þó að þeir biðji um ársreikninga sjúkrasjóða og hvað við þá hefur verið gert. Ég tel þetta ekki eðlilegt. Ég tel eðlilegt að fella bæði eftirlaunasjóði, þar á meðal lífeyrissjóðina, og sjúkrasjóði undir opinbert eftirlit. Mér finnst rétt að það eftirlit sé á vegum Tryggingaeftirlitsins. Hins vegar hafa formælendur lífeyrissjóðanna, svo maður tali nú ekki um formælendur sjúkrasjóðanna, lýst sig algerlega andvíga slíku. Eins og í svo mörgum öðrum málum hafa menn hreinlega ekki lagt í það að ganga gegn vilja svo áhrifamikilla aðila sem forráðamenn lífeyrissjóðanna og sjúkrasjóðanna eru en það eru eins og allir vita einir helstu valdamenn í landi hér. Þeir hafa lagst mjög eindregið gegn því að sjóðirnir yrðu teknir undir opinbert eftirlit. Ég er alveg sammála og vona að það hafi verið skoðun hv. 9. þm. Reykv. og hv. 11. þm. Reykv. beggja að það bæri að gera. Ég er mjög sammála því. Ég tók líka fram í ræðu minni að ég teldi meira en koma til álita að sameina bankaeftirlitið og Tryggingaeftirlitið í eina stofnun. Það hefur verið kannað á vegum heilbrrn. en gegn því er líka andstaða, m.a. í hópi tryggingafélaganna.
    Þá kemur líka upp álitamál sem hv. 11. þm. Reykv. gat um. Ef ekki er eftirlit af hálfu hins opinbera með eftirlaunasjóðum, hvað gerist þá ef vátryggingarfélag, sem er undir opinberu eftirliti, er aðili að hlutafélagi um eftirlaunasjóð? Þá sýnist mér að það mundi gerast samkvæmt lögunum að Tryggingaeftirlitið öðlaðist í gegnum vátryggingarfélagið eftirlitsrétt með viðkomandi eftirlaunasjóði vegna þess að frv. gerir ráð fyrir því að allur hliðarrekstur á vegum vátryggingarfélags sé eftirlitsskyldur eða geti verið það. Þá eru menn raunverulega komnir í mótsögn við sjálfa sig ef svo fer fram. Sýnir það að sjálfsögðu enn ríkari þörf á því að hafa sjóðina undir sama eftirlitskerfi og aðra vátryggingarstarfsemi.