Framleiðsla og sala á búvörum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:59:20 (6835)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að því er varðar blómin þá var ég að tala um þá morgungjöf sem hæstv. utanrrh. gaf Evrópubandalaginu með því að opna fyrir innflutning á þessum blómum áður en samningurinn hefur verið fullgiltur og áður en nokkur veit reyndar eftir hans eigin sögn hvort hann verður nokkurn tíma fullgiltur. En aðalatriðið er hvað felst í samningnum eins og hann stendur í dag. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji gott að loka bara augunum og segja: Við skulum trúa þessu, við skulum halda þessu fram. En svo ganga nú hlutirnir ekki í samskiptum þjóðanna. Þar er það sem búið er að setja á blað og gefa fyrirheit um að gangast undir sem gildir. Því þýðir ákaflega takmarkað þótt við setjum inn í íslensk lög ákvæði sem ég er sammála um að er nauðsynlegt að komi vegna þess að slík ákvæði voru felld út úr lögum nú í vetur fyrir, sú heimild sem viðskrn. hafði til leyfisveitinga. En að ætla sér að halda áfram án þess að vita með vissu hvað felst í þeim samningi sem búið er að gera tel ég gersamlega útilokuð vinnubrögð og því ítreka ég kröfu mína til hæstv. landbrh. að hann skýri betur hvað stendur í þeim bókunum og viðaukum sem Evrópubandalagið hefur lagt fram og segir að sé sá bókstafur sem eigi að gilda. Hver eru svör hæstv landbrh. við því að þetta sé ekki rétt og fái ekki staðist?