Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:42:48 (6876)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eina málsvörnin sem forustumenn Sjálfstfl. reyna að hafa uppi í þessu máli er brottrekstur Hrafns Gunnlaugssonar úr stöðu dagskrárstjóra. Við heyrðum það á málsvörn fyrir nokkrum sekúndum hér áðan. Eru þessir menn búnir að gleyma því að fyrsta verk Hrafns Gunnlaugssonar áður en hann kom til starfa á ný var að krefjast þess að fjórir starfsmenn sjónarpsins væru látnir fara, þeim yrði sagt upp? Pétur Guðfinnsson kallaði þetta fólk til sín og tilkynnti þeim að Hrafn Gunnlaugsson hefði óskað eftir því að þeim yrði sagt upp. Það voru engar ástæður gefnar. Það voru engar skýringar gefnar. En fyrsta orðsending Hrafns Gunnlaugssonar, meira að segja áður en hann kom inn aftur, var að heimta að þessir fjórir einstaklingar yrðu reknir. Hvar var þá virðing forustu Sjálfstfl. fyrir mannréttindum og skoðanafrelsi? Hún heyrðist ekki. Það var allt í lagi að Hrafn Gunnlaugsson gerði kröfu um það að fólk, sem hefði gegnt störfum sín vel og dyggilega, yrði látið fara bara af því að það var honum ekki persónulega þóknanlegt. Þess vegna eru nú þessir steinar úr ærið miklu glerhúsi, hv. þm. Björn Bjarnason.
    Staðeyndin er auðvitað sú að hér hefur forustusveit Sjálfstfl. ákveðið að ráðstafa öflugasta fjölmiðli landsins og einni helstu menningarstofnun landsins í þágu flokksgæðings. Þannig er málið vaxið. Ríkissjónvarpið er öflugasti fjölmiðill Íslendinga. Það er jafnframt öflug menningarstofnun og það er nauðsynlegt að skapa þjóðarsátt um þessa stofnun. Hvers vegna taldi Markús Örn Antonsson nauðsynlegt að veita Hrafni Gunnlaugssyni formlega áminningu þegar hann var útvarpsstjóri? Hefur forustusveit Sjálfstfl. velt því fyrir sér? Hefur hún spurt Markús Örn Antonsson hvaða ástæður lágu þar að baki? Það skyldi þó ekki vera að það hafi verið réttlátur gerningur að veita honum þá formlegu áminningu og ég spyr: Eru þeir fleiri, starfsmenn sjónvarpsins, sem hann veitti formlega áminningu?
    Hér hefur svo komið fram í umræðunni að mjög sérkennileg fjármál eru greinilega í gangi í samningum Péturs Guðfinnssonar við Hrafn Gunnlaugsson á undanförnum vikum og mánuðum. Það sem Friðriki Þór Friðrikssyni, einum fremsta kvikmyndagerðarmanni Íslands, var neitað um vegna Barna náttúrunnar, er gert þrátt fyrir mótmæli Sveins Einarssonar og gerður sérstakur gæðasamningur við Hrafn Gunnlaugsson þar sem í dag átti að greiða honum 2,4 millj. Ólafur G. Einarsson virðist líka hafa beitt sér fyrir því að úr sjóðum menntmrn. væri Hrafni greitt þar til viðbótar 5 millj. fyrir kvikmyndir hans í skólum. Og svo er spurt að því hér: Er það líka virkilega þannig að Pétur Guðfinnsson eigi að þiggja full laun frá menntmrn. þann tíma sem hann er í leyfi?
    Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að það verði kannað hvort það er verið að mismuna þannig kvikmyndagerðarmönnum Íslands að það sem einu fremsta þeirra er neitað um fái Hrafn Gunnlaugsson í gegnum sérstök aðstöðutengsl sín við Pétur Guðfinnsson. Þess vegna er það rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér áðan að dómsmrh., starfandi menntmrh., verður að beita sér fyrir því að þessi mál öllsömul verði dregin fram í dagsljósið og ef það gerist ekki, þá muni Ríkisendurskoðun eða annar bær aðili taka þau til meðferðar.
    Forustusveit Sjálfstfl. á auðvitað að skilja það að við erum í lýðræðislandi. Við Íslendingar viljum ákveðna sátt um vissa hluti. Við viljum sátt um lýðræðislegar leikreglur. Við viljum sátt um menningarstofnanir þjóðarinnar. Við viljum sátt um okkar öflugustu fjölmiðla og það er vont verk að ganga til atlögu gegn lýðræðinu og samstöðu þjóðarinnar með þeim hætti sem þröng forustuklíka í Sjálfstfl. hefur gert undanfarna daga.