Tollalög

153. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 19:09:57 (6903)

     Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Þarna er á ferðinni tollafrv. þar sem raunverulega er verið að taka upp þann sið að vera innan við tollmúra EB. Þetta er hluti af EES-málunum og með þessu er verið að staðfesta þann vilja ríkisstjórnarinnar að innheimtir verði hærri tollar af vörum, þ.e. vörugjöld og tollar verði hærri af vörum sem fluttar eru inn frá öðrum svæðum en EES-svæðunum. Þarna munar 7,5% og það mun hafa gífurleg áhrif í framtíðinni í þá átt að beina viðskiptum inn á Evrópumarkað en frá öðrum svæðum. Við samþykktum áðan frv. um innflutning á ökutækjum þar sem innflutningnum var gert jafnhátt undir höfði en hér erum við raunverulega að stíga fyrsta skrefið inn fyrir tollmúra EB. Ég tel að full ástæða sé til þess að vekja athygli á því og ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv.