Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 19:13:39 (6948)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir óvenjumálefnalega og áhugaverða umræðu um utanríkis- og alþjóðamál í þessum þingsal. Ég sé ekki ástæðu til að amast við því þótt ræðumenn hafi í ræðum sínum yfirleitt fjallað meira um flest annað en þá tillögu sem liggur beinlínis fyrir á dagskrá til umræðu og afgreiðslu heldur fari vítt og breitt yfir sviðið. Fjallað hefur verið um breytta heimsmynd, rætt um skýrslu nefndar sem utanrrh. skipaði á sínum tíma og hefur verið lögð fram til kynningar á Alþingi, og hv. 8. þm. Reykn. boðaði að þeir alþýðubandalagsmenn mundu beita sér fyrir að yrði tekin á dagskrá síðar sem ég fagna, eða nýlega framlagða skýrslu utanrrh. sem mun að sjálfsögðu koma til ítarlegrar umræðu.
    Sannleikurinn er sá að hér kvað að mörgu leyti við nýjan tón í umræðu af þessu tagi. Það vakti athygli mína sérstaklega að hv. 10. þm. Reykv. sem talaði af hálfu Kvennalistans fjallaði um alþjóðamál á grundvelli raunsæs mats á valdahlutföllum og styrkleikahlutföllum í stað þess að ræða þetta á hneykslunarhellunni einni saman eins og stundum hefur verið siður fulltrúa Kvennalistans þegar þær fjalla um alþjóðamál, þ.e. að lýsa því einfaldlega yfir að þær séu á móti hernaðarbandalögum og herjum og valdbeitingu. Og afneita þannig vandamálum í staðinn fyrir að ræða þau. Hér kveður við nýjan tón.
    Ég verð einnig að segja að ég var afar ánægður með ræðu hv. 8. þm. Reykn., formanns Alþb. Þar kvað líka mjög við nýjan tón hjá því sem við eigum almennt að venjast frá fulltrúum Alþb. Satt að segja hefði ræðumaður sjálfur sem og það sem hann sagði sómt sér vel á fundi áhugamanna um vestræna samvinnu. Afstaða hans var fordómalaus og jákvæð og ég verð að segja að ég var í stórum dráttum sammála

flestu því sem fram kom í ræðu hans.
    Auðvitað eru meiri háttar tíðindi að Bandaríkin og Rússland skuli ítrekað koma fram og árétta að þau eru ekki andstæðingar heldur samstarfs- og vinátturíki og að svo skuli komið að þau hafa sameiginlega lagt til hersveitir til friðargæslustarfa, eins og í löndum fyrrverandi Júgóslavíu.
    Ég tek einnig undir það sem hv. 8. þm. Reykn. sagði um þá umræðu sem fram fer um hina breyttu heimsmynd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Og ég tek einnig undir það að nauðsynlegt er af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að breyta því ástandi sem nú er og var til stofnað af fjárhagsástæðum, þ.e. að styrkja fastanefnd Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með því að þar komi aftur til starfa fastafulltrúi til þess að veita sendinefndinni forustu og taka þátt í þessari umræðu af okkar hálfu.
    Ég er einnig sammála því sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn. að ég tel fráleitt þegar hér er komið sögu að Evrópubandalagið geri kröfu til þess að hafa tvo, jafnvel þrjá fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á sama tíma og Evrópubandalagið lýsir því yfir að þar komi forustulandið fram fyrir hönd bandalagsríkjanna og beri fram sameiginleg sjónarmið.
    Það er einnig laukrétt sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykn. að varlegt er að ganga út frá því sem gefnu á svo breytilegum tímum að stjórnvöld í Bandaríkjunum gætu ekki einn góðan veðurdag komist að þeirri niðurstöðu að þessi heimsmynd væri svo gjörsamlega breytt að það réttlætti meiri háttar niðurskurð eða breytingar á starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Við höfum að vísu heyrt hver eru sjónarmiðin, eins og þau eru fram borin opinberlega af hálfu bandarískra stjórnvalda í því efni en það sem við höfum upplifað í breytingum á undanförnum þremur árum hlýtur að vera okkur til áminningar um að slík sjónarmið geta breyst fyrirvaralítið, jafnvel fyrirvaralaust.
    Það er athyglisvert þegar sagt er af hálfu formanns Alþb. með hliðsjón af þeim sögulega ágreiningi sem hefur verið um utanríkis- og alþjóðamál milli þess flokks og annarra flokka á hinu háa Alþingi, að hann tók mönnum vara við því að gefa sér fyrir fram að til ágreinings þyrfti að koma milli fulltrúa þingflokkanna um meginþætti alþjóðamála með eins miklum breytingum og þau hafa tekið á undanförnum missirum og árum. Allt bendir þetta til þess að umræða um þessi mál geti farið fram á annan hátt en verið hefur, að menn komist upp úr skotgröfunum og að vígorðasöfn fortíðarinnar heyri líka bráðum til fornminjasöfnum og er það út af fyrir sig vel.
    Af einstökum atriðum sem varða þessa tillögu þá staldra ég við örfá atriði. Hv. þm. Páll Pétursson taldi að samþykkt þessarar tillögu gæti leitt til þess að Ísland drægist nauðugt og viljugt inn í atburðarás sem væri okkur ekki að skapi og ekki í þágu íslenskra hagsmuna, jafnvel inn í átök og nefndi til hugsanlega Júgóslavíu. Þetta er misskilningur. Aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu hafa ekki samningsbundin réttindi eða skyldur samkvæmt endurskoðuðum Brussel-samningi og bera ekki ábyrgð á ákvörðunum samtakanna. Þess vegna getur ekki orðið um neinar pólitískar skuldbindandi byrðar að ræða nema því aðeins að aukaaðilar taki sjálfir um það ákvörðun að þeir óski eftir þátttöku.
    Nokkrir þingmenn hafa óskað eftir upplýsingum um kostnað eða fjárframlög vegna þessarar þátttöku. Því er til að svara að Vestur-Evrópusambandið hefur enn ekki komist að endanlegri niðurstöðu um viðmiðanir en til bráðabirgða sett fram áætlanir um það. Samkvæmt því yrði framlag Íslands um 0,11% af föstum heildarútgjöldum Vestur-Evrópusambandsins og miðast þá eingöngu við kostnað vegna þess hluta starfseminnar sem aukaaðilar taka þátt í. Þess vegna er einnig misskilningur að aukaaðildin geti leitt til þess að reikningum verði framvísað vegna dýrra hernaðaraðgerða eða friðargæsluumsvifa. Ég nefni sem dæmi flotaaðgerðir á Adríahafi vegna þess að svo lengi sem Ísland tekur ekki þátt í því og hefur algjöran fyrirvara á því þá mun það ekki taka heldur þátt í kostnaði.
    Ef litið er á fjárhagsáætlun Vestur-Evrópusambandsins fyrir árið 1992 og dreginn frá kostnaður vegna varnaráætlunardeildar og geimrannsóknastöðvar sem aukaaðildarlönd taka ekki þátt í mundi þetta 0,11% framlag nema rúmlega 20 þús. sterlingspundum eða u.þ.b. 2 millj. íslenskra króna. Þess ber þó að geta að fjárhagsáætlunin mun fyrirsjáanlega hækka á næstu árum vegna flutninga frá Lundúnum til Brussel og vegna aukinnar starfsemi.
    Að því var fundið að við skyldum vera að ræða þetta mál á Alþingi nú í stað þess að það hefði verið tekið til umræðu áður en skjalið var undirritað í Róm 20. nóvember. Því er til að svara að Alþingi var greint mjög ítarlega frá aðdraganda og undirbúningi aukaaðildar í skýrslu utanrrh. í fyrra og utanrmn. fjallaði síðan reglulega um málið á fundum sínum alls sex sinnum eins og ég vék að í framsöguræðu minni. Viðræðum um aukaaðildina lauk ekki fyrr en 10. nóv. sl. Þá náðist bráðabirgðasamkomulag og aukaðildarskjalið var undirritað í Róm, tíu dögum síðar, en þar með var ljóst að ekki yrði um lagalega bindandi samninga að ræða heldur pólitíska yfirlýsingu og aðildarríkjum Vestur-Evrópusambandsins og væntanlegum aukaaðilum væri því í sjálfsvald sett hvort skjalið hlyti þinglega meðferð. Það er athyglisvert að t.d. er það svo í Noregi að þar hefur hvorki verið lögð fram skýrsla fyrir Stórþingið né þáltill. um stuðning við aukaaðildina, öfugt við það sem hér er. Og minnir mig á að svipað tilvik þar sem forustumenn ,,nei-samtakanna`` gegn aðild Norðmanna að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu hafa nýlega vakið athygli á því í Noregi að öfugt við það sem hér gerist í samskiptum stjórnar og þings hafa íslensk stjórnvöld birt gerðir af hálfu Evrópubandalagsins sem orðið hafa til eftir að EES-samningnum var lokið. ,,Nei-hreyfingin`` í Noregi taldi að þessum gerðum væri haldið leyndum fyrir norskum þingmönnum og andstæðingum málsins og vísuðu til þess að það væri ólíku saman að jafna hvað íslensk stjórnvöld væru, eins

og það var orðað, ,,flinkari, opnari og sveigjanlegri`` í samskiptum við þingið en samsvarandi norsk stjórnvöld. Og er ástæða til þess að halda þessu til haga að gefnu tilefni. En það var sem kunnugt er ævinlega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að bera aukaaðild undir Alþingi eins og staðfest var við utandagskrárumræðu um málið fyrir Rómarfundinn. Þar sem Ísland hefur ekki gerst aðili að endurskoðuðum Brussel-samningi heldur einungis aukaaðili að samtökunum án samningsbundinna skuldbindinga og réttinda var ríkisstjórninni ekki skylt að leggja aðildina fyrir þingið til staðfestingar þótt okkur þyki sjálfsagt að gera það og þar með að reyna að afla sem víðtækast stuðnings við þá ákvörðun.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta mál frekar. Ýmis önnur atriði voru vissulega nefnd til sögunnar en eru þess eðlis að ég tel rétt að um þau verði fjallað þegar málið fær eðlilega umfjöllun í nefnd.