Reynslusveitarfélög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:33:28 (6973)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að kvarta yfir því að hér er haldið áfram langt fram á kvöld að vinna að málum sem eru út af fyrir sig mjög merkileg og þyrfti að hafa betri tíma til að fjalla um. Hér mun vera innan við helmingur þingmanna í húsinu og fáir í salnum, nokkrir í hliðarherbergjum og ekki veit ég hvar hinir eru, en afskaplega finnst mér vera lítil reisn yfir þessari umræðu að ekki skuli fleiri vera við hana. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara að halda hér langar ræður um undirbúning að stofnun reynslusveitarfélaga en segi það álit mitt að það er að mínu viti alveg eins góð hugmynd að gefa viðkomandi framkvæmdarvaldsaðilum, ráðherrum eða ráðuneytum, með einhverjum hætti leyfi til þess að gera tilraunir með tilflutning verkefna til einstakra sveitarfélaga heldur en að búa til fá tilraunasveitarfélög. Ég hefði talið að það væri ekkert óeðlilegt við það að gefa þann möguleika með einhverjum hætti til t.d. menntmrn. að semja við einhver tiltekin sveitarfélög um að reka grunnskóla að fullu. Ég er sem sagt á þeirri skoðun að það sé ekki endilega nauðsynlegt að sami háttur sé hafður á alls staðar og ég tel að það muni óhjákvæmilega valda verulegum vandamálum ef menn ætla að halda sig við þá ákvörðun eða þá hugmynd um ákvörðun að flytja skólamálin í einu lagi til allra sveitarfélaga í landinu burt séð frá því hvernig fer með þær sameiningar sem menn eru að tala um í dag. Þess vegna tel ég að það þurfi að vera þessir möguleikar báðir að á einhverjum stöðum muni ríkið enn þá annast þessa starfsemi svo framarlega sem ekki tekst að finna farveg til þess að sveitarfélög sameiginlega yfir stærra svæði leysi þá málin í staðinn sem er auðvitað líka hægt að gera. En ég endurtek að ég tel að það sé ekkert síður skynsamleg tilraun að setja einstök verkefni yfir á sveitarfélög heldur en að búa til svona fimm apparöt sem eru kannski gerðar of margar tilraunir í. Og vegna þess að þar verði blandað saman of mörgum hugmyndum fáist ekki kannski nægilega góð heildarniðurstaða og menn dæmi þessar tilraunir þá kannski að hafa mistekist á röngum forsendum.
    Það hefði í raun og veru þurft að samþykkja þessa hugmynd um reynslusveitarfélög fyrir löngu síðan ef hún hefði átt að komast í gagnið sem menn hefðu þá hugsað sér að hún gerði því að vitanlega hljóta menn líka að vera að velta fyrir sér t.d. íbúafjölda og verkefnum í samhengi. Nú er þessari umræðu meira og minna blandað saman, annars vegar verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og hins vegar sameiningarhugmyndum. Þarna þarf í raun og veru að vera hægt að skilja betur á milli heldur en gert er og gott hefði verið að menn hefðu í dag haft árangur af einhvers konar tilraunastarfsemi þar sem verkefnum hefði verið komið til sveitarfélaga í tilraunaskyni fyrir nokkrum árum síðan hefðu menn getað velt þeim hlutum fyrir sér í samhengi við þá umræðu sem fer núna fram um sameiningu sveitarfélaga. Ég er út af fyrir sig ekki að dæma þessa hugmynd sem hér kemur fram óhæfa og tel að hún sé ágæt til skoðunar, en ætla að hafa algeran fyrirvara um stuðning minn við þá niðurstöðu þangað til hæstv. ráðherra leggur fram sínar tillögur á næsta ári og vona þá að menn hafi rætt þessi mál betur. Ég legg þetta inn til umhugsunar og umræðu sem ég var hér að segja áðan, hvort það eigi ekki um leið að gefa færi eða möguleika á því að flytja tiltekin verkefni til sveitarfélaga án þess að þau séu í sjálfu sér tilraunasveitarfélög að öðru leyti og væru þess vegna að taka við eingöngu einu verkefni.