Framhald þingfundar

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:40:58 (6975)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hvað það er sem rekur svo mjög á eftir þeim málum sem hér á að fara að taka fyrir núna þegar klukkan er að verða 11 að kvöldi og ekki mjög margir þingmenn í húsinu, alla vega eru þeir ekki mjög margir hér í þingsal. Hæstv. forseti mun geta gefið upplýsingar um það hversu margir þingmenn eru hér í húsinu. Ég sé ekki að þau mál sem hér liggja fyrir og virðist eiga að halda áfram með samkvæmt dagskrá séu svo áríðandi að það þurfi að ljúka þeim í kvöld. Þetta eru allt mál sem eru til 1. umr. og ef einhver markmið eru með því að taka þau fyrir, þá hlýtur að eiga að efna hér til atkvæðagreiðslu í framhaldi af því, annars mun það vera nokkuð tilgangslaust að koma þeim hér á dagskrá. En ég hef athugasemdir fram að færa við það að hér skuli vera haldið áfram að taka fyrir mál þó að svo áliðið sé kvölds.