Framhald þingfundar

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:45:17 (6980)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :

    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hér hafa komið, en ég hef mjög miklar athugasemdir við það að hér verði haldið áfram að taka fyrir þessi mál og vil benda á að það mál sem hér á að fara að taka fyrir núna sem hæstv. viðskrh. ætlar að mæla fyrir tilheyrir efh.- og viðskn. og fulltrúi okkar í efh.- og viðskn. er því miður fjarverandi í kvöld af þeim ástæðum að hún þurfti að vera á fundi annars staðar. Hún hafði setið hér á fundi til kl. 7 og þurfti síðan að sækja annan fund í kvöld og er hér ekki viðstödd, en ég geri ráð fyrir að hún mundi vilja fylgjast með þessu máli þannig að ef hæstv. forseti hefur ákveðið að mælt verði fyrir þessu máli, þá mundi ég mælast til þess að umræðunni yrði síðan frestað en ekki lokið þar sem hér mun vanta mjög marga nefndarmenn úr efh.- og viðskn.