Lyfjaverslun ríkisins

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:18:49 (7015)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er ekki löng og efnismikil. Hún er þrjár línur og niðurstaðan er ein lína, þessi, með leyfi forseta: ,,Ekki verður séð að frv. hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.``
    Í fyrsta lagi er ekki ljóst þótt frv. verði að lögum hvort nokkur breyting verði á rekstri fyrirtækisins af því að það er önnur ákvörðun og síðari hvort fyrirtækið verður selt. Ég geri ekki ráð fyrir að formbreyting á fyrirtækinu kosti nokkra fjármuni, það hefur engan kostnað í för með sér nema auðvitað þann pappírskostnað og nefndakostnað sem þegar hefur verið stofnað til sem ekki er mikill en einhver. Verði hins vegar fyrirtækið selt þá geri ég ráð fyrir því eins og ég hef sagt áður hér í andsvari við ræðu 6. þm. Vestf., að ef eitthvað er ætti ríkissjóður að hagnast á þessu. Annars vegar sem kaupandi lyfja sem ættu að verða ódýrari eftir því sem samkeppnin er meiri og betri og hins vegar vegna þess að ég á von á að þetta fyrirtæki haldi áfram að vera gott og kannski betra því lengi getur gott batnað verði það að einkafyrirtæki og þá skili það í ríkissjóð sköttum og skyldum þannig að um einhvern ágóða sé að ræða. Ég held samt svo ég segi það að lokum að það sé ógerlegt fyrir fjárlagaskrifstofu fjmrn. að gefa aðra umsögn en þessa. Þetta er lögbundið starf fjárlagaskrifstofunnar og það sé ekki hægt að segja annað en hér segir ,,að ekki verði séð að frv. hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.``