Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:51:45 (7024)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Íslenskar ræstingarkonur geta áreiðanlega gefið hæstv. ráðherra góð ráð um að hvaða leyti hægt sé að spara í ræstingum án þess að hætta að þrífa skólahúsnæði sómasamlega. Mikil áníðsla er á skólum en misjöfn eftir svæðum. Uppmæld meðaltöl verkfræðistofu úti í bæ duga skammt, enda oft miðuð við litla þekkingu á verkefninu, stóra fleti og fá horn. Áreiðanlega er alltaf hægt að hagræða og spara og það hefur verið gert. Enginn er betur í stakk búinn til að benda á raunhæfar leiðir til þess en þær konur sem vinna störfin nú. Þær hafa hins vegar ekki verið spurðar nú frekar en endranær. Ég tel að ekki hafi einasta verið brotið freklega á ræstingarkonum með tilhögun þessa útboðs sem hér er um rætt heldur sé einnig verið að sneiða hjá þeirri leið sem vænlegust er til raunverulegs árangurs vilji menn spara án þess að slaka á kröfum. En það er kannski ekki ætlunin. Milliliðirnir hljóta að taka sitt og kannski var það einmitt meiningin.
    Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa ályktun kvennalistakvenna í Reykjavík frá 10. febr. sl. um þetta mál, en þar segir:
    ,,Félagsfundur Kvennalistans í Reykjavík mótmælir harðlega hvernig staðið er að útboði á ræstingu og hreingerningu skólahúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Með útboðinu er ekki aðeins vegið að atvinnuöryggi þeirra 300 kvenna sem nú sinna ræstingum í viðkomandi skólum heldur er útboðslýsingin með þeim hætti að þessar konur eiga lítinn sem engan möguleika á því að bjóða í verkið. Um er að ræða rúmlega 84 þús. gólffermetra sem skipt er í þrjá útboðshluta og þar af er sá stærsti rúmlega 61 þús. fermetrar. Umfang útboðsins er slíkt að einungis er líklegt að 2--3 fyrirtæki hafi bolmagn til að bjóða í verkið. Kvennalistinn í Reykjavík er síður en svo andsnúinn hagræðingu, en ef hún hefur í för með sér verri þjónustu, einkaeinokun stórfyrirtækja, öryggisleysi fjölda erfiðisvinnufólks um afkomu sína og aukin völd karla á sviðum þar sem konur hafa sérþekkingu, þá er verr af stað farið en heima setið. Kvennalistinn í Reykjavík krefst þess að opinberir aðilar láti af þeirri hagræðingarpólitík sem byrjar og endar á ræstingarkonunni.``