Bætur vegna þorskaflabrests

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 10:46:05 (7045)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Auðvitað finnst hæstv. forsrh. það dálítið undarlegt að menn skuli fylgjast með almanakinu. En ríkisstjórn sem ekki gerir greinarmun á því hvað eru mínútur, klukkustundir, dagar, vikur, mánuðir eða jafnvel ár, þeim mönnum sem þannig hugsa og greina þar alls ekkert á milli finnst auðvitað skrýtið að menn skulu vita að dagarnir líða áfram. En það eru útgerðarmennirnir, hæstv. forsrh., sem hafa fylgst með dagatalinu miklu nákvæmar heldur en ég, mennirnir, sem trúðu því þegar hæstv. forsrh. lýsti því yfir á tröppum Stjórnarráðsins að þetta yrði allt saman klárt föstudaginn 14. ágúst, það eru þeir sem hafa fylgst með dagatalinu. En mér þótti vænt um það í ræðu hæstv. forsrh. að hann lýsti því yfir að hann væri þeirrar skoðunar að það þyrfti að bæta þennan aflabrest sem orðið hefði þrátt fyrir aðgerðirnar sem gripið var til í nóvember á sl. vegna þess að staða útgerðarinnar í dag er sú að hún er verri heldur en hún var fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í nóvember.
    Það kom fram í þessari umræðu líka að þróunarsjóðurinn var auðvitað grín og það er gott. Það er ekki talað um hann í þessari umræðu. Nú á að leysa þetta allt saman í kringum kjarasamninga. Þá erum við komnir að nákvæmlega sömu niðurstöðunni. Það á að nota aflaheimildir Hagræðingarsjóðs sem menn vildu strax í upphafi fyrir 245 dögum síðan. Kjarasamningar leiða það nú í ljós. Það á að fara þá sömu leið og stjórnarandstaðan lagði til á Alþingi og hæstv. sjútvrh. lagði til að farin yrði. Nú verður það niðurstaðan. Hún verður klár eftir tvo daga. Niðurstaðan fyrir útgerðarmennina er sú að það er búið að halda þessari atvinnugrein, undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, í spennu, í algerri óvissu í 245 daga. Er það skynsamleg efnahagsstjórn, hæstv. forsrh., af því að þú ferð nú með, virðulegi ráðherra, yfirstjórn efnahagsmála í landinu?