Viðhaldsþörf ríkiseigna

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:16:33 (7057)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mun gera tilraun til þess að svara fsp. hv. þm. Svar við fyrstu fsp. er á þessa leið: Ekki hefur verið gerð nein sérstök heildarúttekt á ástandi og viðhaldsþörf ríkiseigna. Þess ber þó að geta að samkvæmt upplýsingum eignaskrár ríkisins er fasteignamat ríkiseigna um það bil 44 milljarðar kr. Og ég tek það fram að þessi eignaskrá er tiltölulega ný því að fyrir skömmu átti ríkið ekki heillega skrá yfir sínar eigin eignir.
    Samkvæmt upplýsingum tæknimanna sem fjmrn. hefur haft samband við er ekki talið óeðlilegt að viðhalds- og endurbyggingarþörf mannvirkja geti verið 2--2,5% á ári af verðmæti fasteignamats þannig að ástand þeirra geti talist fyllilega viðunandi á hverjum tíma eða þær endurbyggðar til þess að mæta breytingum á rekstri t.d. vegna breyttrar tækni, en oft er erfitt að gera skil á milli þessa tveggja.

    Sem svar við annarri spurningu vil ég segja að eðli máls samkvæmt er líftími viðhalds einstakra byggingarhluta mjög mismunandi. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á þeirri ráðstefnu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, þ.e. ráðstefnu framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins um útveggi á Íslandi og haldin var í marsmánuði sl., þá er svo að dæmi séu nefnd endingartími steypuviðgerða í útveggjum styttri en menn hafa gert ráð fyrir fram að þessu eða aðeins um það bil 8 ár. Umrædd ráðstefna var viðleitni í þá átt að reyna að tryggja að viðhaldsaðgerðir skili betri árangri en áður hefur verið. Þessa dagana er unnið að stofnun sérstakrar viðhalds- og endurbyggingardeildar við framkvæmdadeildina þannig að gera má ráð fyrir betri árangri á sviði viðhalds fasteigna í eigu ríkisins í framtíðinni, enda eyðir ríkissjóður nú þegar verulegum fjármunum í viðhald og endurbyggingu. Má í því sambandi minna á eins og hv. fyrirspyrjandi gerði Þjóðleikhúsið og fyrirhugaða endurbyggingu Þjóðminjasafnsins auk þess að á yfirstandandi fjárlagaári verða notaðar um 900 millj. kr. í viðhaldsverkefni vegna A-hluta húsnæðis á vegum ríkissjóðs. Fjmrn. mun auk þess beita sér fyrir því að stofnanir á vegum ríkisins greiði húsaleigu fyrir afnot þeirra fasteigna sem eru í eigu ríkisins. Húsaleigutekjurnar verða síðan notaðar til þess að greiða fyrir viðhald þessara bygginga í framtíðinni.
    Sem svar við þriðju fsp. vil ég benda á eins og gert hefur verið af öðrum einnig að á næstu árum og áratugum verður ekki hjá því komist að verja tugum milljarða í viðhald fasteigna hér á landi. Þess vegna er eðlilegt að gera ráð fyrir því að rannsóknir á þessu sviði geti leitt til verulegs sparnaðar fyrir þjóðarbúið og sá kostnaður sem leiðir af rannsóknum hlýtur að berast uppi fyrst og fremst af heildarkostnaðinum og renna til þeirra aðila sem stunda slík rannsóknastörf.
    Það er umhugsunarvert hvers vegna líftími einstakra byggingarhluta eins og t.d. útveggja er jafnstuttur og raun ber vitni. Reyndar kom það fram á þessari ráðstefnu mjög rækilega, ég átti þess kost að sitja hana að nokkru leyti, að Íslendingar hafa haft nokkra oftrú á steypu og talið að þeir hafi himin höndum tekið þegar steypan kom til sögunnar, en steypan er forgengileg eins og menn vita og kannski forgengilegri en menn hafa haldið hingað til. Þess vegna þarf ekki aðeins að verja fjármunum til rannsókna og tilraunaverkefna á sviði viðhalds, heldur þarf einnig að verja fjármunum til endurskoðunar á þeim byggingaraðferðum sem notaðar hafa verið hér á landi á undanförnum áratugum.
    Ég vona að þessi svör hafi upplýst a.m.k. að nokkru það sem óskað var eftir í fsp. hv. fyrirspyrjanda.