Útflutningur hrossa

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 13:39:08 (7075)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það nál. sem hér er til umræðu fjallar að vísu um takmarkaðan þátt í sambandi við útflutning á hrossum og þá fyrst og fremst þetta: Hver á að greiða fyrir skoðun og eftirlit með hrossunum? Eins og kom fram í máli hv. formanns landbn. hafa það verið útflytjendurnir sem hafa greitt þetta gjald þó reglur og lög mæli fyrir um annað og hér er eingöngu verið að festa þá hefð sem komist hefur á.
    En það sem mig langaði til að spyrja hv. formann um er hvort landbn. hafi nýtt sér það tækifæri sem gafst með því að fjalla um þetta mál, útflutning á hrossum, til að skoða betur með hvaða hætti stjórnvöld geta stutt þennan útflutning. Hv. landbn. er kunnugt um að hér er um vaxtarbrodd að ræða í íslenskum landbúnaði. Fjöldamargir bændur hafa verið að hasla sér völl í þessari atvinnugrein, bundið við hana mjög miklar vonir og þeim heimilum til sveita fjölgar sem treysta á afkomu sína hvað varðar ræktun, tamningar og útflutning á hrossum. Nú hefur markaður erlendis fyrir hross farið vaxandi sem betur fer og er það vel. En möguleikarnir eru mjög miklir og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þó ég sé ekki að draga úr því mikla markaðsstarfi sem unnið hefur verið á síðustu áratugum í Þýskalandi og annars staðar í Evrópu. En útflytjendur hrossa hafa haft orð á því að framtíðin kunni að vera í Bandaríkjunum. Það hefur verið haft á orði að ef sá markaður opnast fyrir alvöru þá dugi 70 þús. íslensk hross skammt til þess að standa undir þeim útflutningi. Því langar mig til þess að spyrja hv. formann landbn. hvort fram hafi farið einhver úttekt á þessu máli í landbn. þegar þessi afmarkaði hlutur í sambandi við gjaldtökuna á útflutningnum var til umræðu, hvort málið í heild hafi verið skoðað með einhverjum hætti og ef hæstv. landbrh. er hér til staðar, hvort hann gæti gefið einhver svör eða lýst yfir vilja sínum um það að leggja þessu mikilæga starfi lið.
    Það hefur verið sagt að íslenski hesturinn gæti verið hinn nýi íslenski sendiherra á breyttum tímum í markaðsstarfi Íslendinga, ekki einvörðungu að þjóna landbúnaði með auknum tekjum fyrir þá sem þar starfa, heldur rutt brautina fyrir fjölmargar aðrar útflutningsgreinar og haldið landi og þjóð hátt á loft.
    Þetta er nokkuð sem ég held að þyrfti að ræða betur í þinginu af því að hér liggja miklir möguleikar fyrir þjóðina og þá ekki síst fyrir landbúnaðinn í landinu. En ég mundi vilja óska eftir því ef hv. formaður landbn. mundi vilja gefa okkur einhver svör um þetta efni.