Ríkisreikningur 1991

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 16:07:56 (7081)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið hér. Það verður að segjast eins og er að hann hefur þann háttinn á að svara yfirleitt þingmönnum þegar þeir bera fram spurningar en það verður ekki sagt um alla hæstv. ráðherra að þeir geri það.
    Ég er honum hins vegar alveg ósammála um þessa útfærslu. Ég tók dæmið af Landsbankanum vegna þess að það er svo nýbúið að ræða það í þinginu. Þar var staðan sú að endurskoðandi vildi ekki skrifa upp á reikninginn með þeim halla sem hann er nema til kæmi yfirlýsing frá ríkissjóði þó að aðstoð ríkissjóðs sé ekki öll þess vegna heldur einnig vegna BIS-reglna. En það er þá spurning fyrst sú staða var komin upp á árinu 1992 hvort hún færist þá ekki í ríkisreikninginn 1992. Við getum kannski endalaust þráttað um þessa hluti en staða Framkvæmdasjóðs var einmitt þannig að útlánin voru töpuð á þessu umdeilda ári en ákvörðun var ekki tekin um að standa að því að greiða þau fyrr en á næsta ári á eftir. Við erum því enn ósammála um þessa hluti.
    Að öðru leyti get ég verið honum sammála um það sem hann ræddi um erlendu skuldirnar því að ég vakti einnig athygli á skuldastöðu ríkissjóðs. Það sem er hættulegast í þessu er að ekki skuli vera hægt að breyta genginu vegna þess að svo mikið af þessum skuldum eru erlendar. Ekki er lengur hægt að breyta genginu til þess að aðstoða undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn, vegna þess að það hefur svo gífurleg áhrif á skuldastöðuna um leið. Það er ekki lengur nein lausn að tala um gengisbreytingar eða gengislækkanir.