Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:20:15 (7097)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál mun nú koma til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég á sæti í, en ég vil þó við 1. umr. láta koma fram nokkrar athugasemdir.
    Mér finnst þessi frumvarpssmíð vera heldur óvönduð og greinargerð málsins vera ónákvæm og í reynd upplýsti hæstv. fjmrh. að hún væri ekki lögum samkvæmt vegna þess að það vantaði greinargerð og umsögn frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Spurningin hlýtur fyrst og fremst að vera sú, mun það leiða til einhverrar hagkvæmni í þjóðfélaginu að leggja niður stöður þessara sex manna hjá ÁTVR sem frv. þetta gengur í reynd út á? Það er aðalatriði málsins. Það er að losna við sex embættismenn hjá ÁTVR og annað markmið frv. er nú svo göfugt að fella niður verðjöfnun á tóbaki, enda verði ekki séð að það sé réttlátt að vera að verðjafna slíkan varning umfram aðrar vörur.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að það er misjafnt vöruverð í landinu. En sem betur fer eru til þeir aðilar sem leggja metnað sinn í það að vöruverð á vissum vörum sé sambærilegt um allt land. En nú gerir hæstv. fjmrh. bara beina tillögu um að það sé eðlilegt að það sé greitt mun hærra verð fyrir tóbak í Grímsey, svo einn staður sé nefndur, en í Reykjavík. Það sé sjálfsagt mál. Þetta finnst mér vera vond hugsun og ég lýsi vonbrigðum mínum með það að hæstv. fjmrh. skuli sérstaklega taka það fram í ræðu sinni að það sé nú ekki mikið réttlæti í þessu fólgið. Hvað sem má um neysluhópa áfengis segja, þá tel ég að það sé eðlilegt að það sé selt á sama verði í landinu öllu þannig að það ríki jafnræði í þeirri notkun eða misnotkun eftir því sem menn telja á hverjum tíma.
    Hér liggur ekkert fyrir um það hvaða áhrif þetta mál muni hafa á rekstur ÁTVR. Það stendur að vísu að það munu verða lagðar niður sex stöður og síðan muni heildsalar taka að sér alla dreifingu og birgðahald ef ég skil málið rétt. Ég veit ekki betur en ÁTVR séu búið að byggja upp sölumet í þessu sambandi og hafi byggt húsnæði til þess að geyma þessar vörur. Síðan kemur hæstv. fjmrh. og segir að að sjálfsögðu munu heildsalarnir þurfa að hækka sína álagningu til að mæta kostnaði. Ég efast ekki um að þetta er rétt. Er líklegt, hæstv. fjmrh., að þessi álagning verði meiri en það sem það kostar ÁTVR í dag að höndla með þessa vöru, þar með talið sá kostnaður sem mun óhjákvæmilega verða áfram á fyrirtækinu vegna þess að húsnæði þess og aðstaða mun ekki nýtast að fullu?
    Hæstv. fjmrh. sagði að þetta mundi færa ríkissjóði 100 millj. til viðbótar og það væri að sjálfsögðu aðallega vegna þess að þetta hækkar skattinn og þetta mundi sennilega leiða til þess að vöruverð á þessari vöru mundi hækka eitthvað. Er ekki alveg ljóst, hæstv. fjmrh., að það væri hægt að ná alveg sama árangri í tekjuöflun til ríkissjóðs með því að hækka skattinn á tóbaki?
    Ég vil taka það fram að ég er ekki á móti því sem kallað er einkavæðing. Ég tel að almennt eigi einstaklingar að hafa með höndum þau mál sem þeir geta og ekki er nauðsynlegt að ríkið fjalli um. En ég er ekki meðfylgjandi einkavæðingu einkavæðingarinnar vegna eins og hæstv. ríkisstjórn virðist vera. Það virðist vera aðalatriðið að einkavæða án þess að það sé nokkur hagur að því og í þessu tilviki þykir mér trúlegt að það muni leiða til óhagkvæmni í þjóðfélaginu. En það virðist ekki skipta núverandi ríkisstjórn nokkru einasta máli. Það er aðalatriði að koma þessum sex starfsmönnum í burtu og fela heildsölunum að fjalla um þetta allt saman án þess að það sé gerð minnsta tilraun til þess að gera grein fyrir því hver hagur verði af málinu og því hlýtur maður að spyrja: Hvaða úttekt liggur fyrir frá ÁTVR í þessu máli? Þeir hljóta að hafa skilað greinargerð um málið áður en þetta frv. var flutt.
    Mér þykir líka líklegt að það hafi verið haft samband við Verslunarráð Íslands, Kaupmannasamtökin eða einhverja slíka aðila og þeir spurðir um það hver hagkvæmnin verði að þessu. En það er ekki gerð minnsta tilraun til þess í frv. til að útskýra það og aðeins sagt að Fjárlaga- og hagsýslustofnun muni skila áliti um þetta einhvern tíma síðar sem þeir áttu að hafa gert. Ég vil lýsa yfir mikilli óánægju með þessa frumvarpssmíði og það hlýtur að verða til þess að efh.- og viðskn. verður að fara rækilega ofan í þessa þætti málsins til þess að leiða fram sannleikann í málinu. En þó er nú e.t.v. besta setningin í þessari greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi þessa má því álykta að það sé í raun siðferðilega ámælisvert af ríkinu að stunda verslun með tóbak.``
    Það má vel vera að það sé siðferðilega ámælisvert af ríkinu að stunda verslun. En er líklegt, hæstv. fjmrh., eða er hugmyndin með þessu frv. að minnka verslun með þessa vöru? Er það þá ekki siðferðilega ámælisvert að flytja ekki frv. sem dregur úr verslun með tóbaki? Er einhver sérstök siðferðisbót í því að ríkið hætti að selja ákveðna hluti ef aðrir munu selja jafnmikið og e.t.v. meira? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig standi á því að ríkisstjórnin telur þetta frv. vera sérstaka siðferðisbót til handa ríkisstjórninni. Ég get verið sammála hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin þarf mjög á því að halda um þessar mundir að sýna slík frumvörp. En að hér sé komið lausnarorðið á nýju siðferði ríkisstjórnarinnar leyfi ég mér að efast um þótt ég hafi þar ekki nein sérstök mál í huga og vildi biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa það hér í hverju þetta nýja siðferði er fólgið.