Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:43:36 (7100)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í máli þriggja síðustu ræðumanna hafa komið fram athugasemdir við þessi frumvörp sem hér eru til umræðu og hæstv. fjmrh. mælti fyrir. Get ég tekið undir flest af þeim atriðum sem þar komu fram og skal reyna að endurtaka þau ekki mikið. Í mínum huga er þetta tvíþætt mál. Annars vegar er hér um að ræða einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar, að losa ríkið við sem mest umsvif og þá efnahagsmál. Hins vegar er það heilbrigðismál. Við vitum að í núgildandi fjárlögum er gert ráð fyrir því að ríkið fái töluverðar tekjur af sölu á ríkisfyrirtækjum. Hér er þó held ég nokkur undantekning á þar sem hér er ekki gert ráð fyrir neinum hagnaði af því að ríkið hætti þessari starfsemi og afhendi hana öðrum, enga greiðslu fyrir það. Heildsalarnir eiga að fá þarna nýja vörutegund sem er eftirsótt af mörgum og því viss verslun með án þess að þurfa að greiða neitt fyrir í upphafi fyrir það að fá þetta frá ríkinu. Þarna er verið að færa ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu upp í hendurnar möguleika á því að auka tekjur sínar og það verulega eins og hæstv. fjmrh. gaf í skyn því að þeir mundu hækka töluvert dreifingarkostnaðinn við það að fá þetta í hendur. Ég vil bæta þessu við önnur þau atriði sem hér hefur verið bent á af þeim sem gert hafa athugasemdir við þetta frv. að þessu leyti.
    Hv. 10. þm. Reykv. benti á að hér væri um frjálsa verðlagningu að ræða og því gætu seljendur komið á tilboðsverðum til þess að auka sölu tímabundið og stækkað þannig sinn markað í framtíðinni. En mér sýnist að þetta geti verið notað á fleiri vegu. Við vitum að þetta er vara sem er eftirsótt af ýmsum og því gæti það laðað viðskiptavini að verslun ef þar væri á boðstólum þessi vara á lágu verði eitthvað tímabundið. Við vitum það að kaupmenn telja að sé hagur af því að bjóða á einhverjum vildarkjörum ákveðna vörutegund til þess að fá viðskiptavini til sín og þannig hagnast á því í reynd þó að veittur sé afsláttur á vörutegund í von um að það auki heildarviðskipti. Þá er það hin hliðin sem ég minntist á, þ.e. heilbrigðismálin. Ég tel að það sé margsannað hversu skaðleg tóbaksneyslan er, sérstaklega reykingarnar, og því megi ríkið ekki hugsa um þetta mál út frá fjárhagslegu sjónarmiði heldur fyrst og fremst út frá heilbrigðissjónarmiði. Hvað getur ríkið gert til þess að draga úr slæmum afleiðingum af neyslu þess? Það eru svo glöggar skýrslur frá læknum um afleiðingarnar af tóbaksneyslu og ég býst við að við mörg hver þekkjum það af eigin raun vegna ýmissa atvika eða dæma um það. Það er ekki aðeins dýrkeypt fjárhagslega heldur eru það miklar þjáningar sem þeir verða fyrir sem ekki þola þessa neyslu og verða að leita til lækna og sjúkrahúsa til meðferðar. Þar er kominn þungur baggi sem bætist á ríkið vegna þeirrar meðferðar sem þetta fólk þarf þá á að halda. Ég vil taka undir það sem sagt var um furðuleg viðhorf um siðferðisaflausn með þessu frv. Það er sannað erlendis hvað snertir t.d. áfengisneyslu að þar sem ríkiseinkasala er, þar er minni neysla en þar sem sala er frjáls. Meira að segja hefur sums staðar, t.d. í sumum fylkjum Bandaríkjanna, verið gefin frjáls sala og hefur þá í kjölfarið af því fylgt ótrúlega mikil aukning á neyslu, sem er svo mikil breyting að ekki er hægt annað en halda því fram að það sé bein afleiðing af því að einkasölu er hætt.
    Við vitum það líka að þegar einstaklingar fara að sjá möguleika á því að græða á aukinni sölu, þá eru notaðar margar leiðir til þess að vinna að því, jafnvel þó að beinar auglýsingar séu bannaðar. Ég vonast til þess að það bann muni gilda áfram, en tækifærin eins og ég hef bent á og fleiri hafa rakið til þess að vekja athygli á vörunni eru vitanlega mörg þó að ekki sé um beinar auglýsingar að ræða. Því miður hefur nú verið sniðgengið og gengið nokkuð langt í því að fara fram hjá ákvæðunum um bann við auglýsingum um tóbak og áfengi. Við þurfum ekki annað en sjá hinar mörgu greinar í blöðum og tímaritum um áfenga drykki og það er má segja daglega í blöðum og tímaritum um það fjallað á einhvern hátt. Auðvitað er það ekkert annað en óbein auglýsing. En við vitum líka að þeir sem hafa ávinning af aukinni sölu vilja gjarnan greiða eitthvað fyrir slíkar óbeinar auglýsingar þannig að leiðirnar til slíkra hluta eru ákaflega margar.
    Mér fannst dálítil mótsögn í því hjá hæstv. fjmrh. að hann sagði eða vildi undirstrika að þetta frv. fjallaði eingöngu um tóbak en ekki áfengi, en sagði samt síðan í framhaldi af því að sín skoðun væri sú að það ætti að hafa sama hátt á með áfengið að ríkið hætti að selja það. Það er, verð ég að viðurkenna,

að sjálfsögðu í mínum huga miklu stærra mál og ég vonast satt að segja til þess að fjmrh. muni ekki knýja fram að leggja slíkt frv. fram hér á Alþingi, heldur hugsa fyrst og fremst um hina hliðina, þ.e. heilbrigðismálin og afleiðingarnar af neyslu þessara efna. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það, en hlýt þó vegna þessara ummæla hæstv. fjmrh. að láta í ljós vonbrigði mín með það hvað Alþingi er tómlátt að taka á þeim málum miðað við hinar sífelldu fréttir af afleiðingum af áfengisneyslunni og þá skemmst er að minnast frétta nú um páskana að á hverjum morgni var sagt að annasamt hefði verið hjá lögreglunni og þá fyrst og fremst að stilla til friðar í heimahúsum. Ég held að allir geti gert sér í hugarlund hvar þar hefur þá legið að baki.
    En ég vil taka undir með öðrum og láta í ljós vonbrigði mín með þetta frv. og vonast til þess að það verði ekki afgreitt á þessu þingi heldur snúi Alþingi sér að því að reyna að fá ávinning með þveröfugum aðferðum að draga úr kostnaði við afleiðingar af neyslu tóbaks.