Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:26:42 (7181)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þá niðurstöðu hæstv. menntmrh. að hann vonist til að þessari tillögu verði vísað frá eða hún verði felld. Ég hlýt að draga þá ályktun af þessari niðurstöðu hæstv. ráðherra að það sé samkomulag um það á milli stjórnarflokkanna að tillögunni verði vísað frá eða hún verði felld. Og ég hlýt í tilefni af því að spyrja hæstv. utanrrh. og hv. formann þingflokks Alþfl.: Er það svo að Alþfl. hafi samþykkt að skrifa upp á þetta mál, mál Hrafns Gunnlaugssonar, sem svo hefur verið nefnt? Er það svo að Alþfl. hafi samþykkt að gera Hrafn Gunnlaugsson að einingartákni ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Íslands? Er það fuglinn í merki Alþfl. og Sjálfstfl., hrafninn, eða hvað, virðulegi forseti? Ég skora á hæstv. utanrrh. að fá nú málið sem hann hafði ekki þegar umræða fór fram um þetta mál hér um daginn.
    Stundum er það svo, virðulegi forseti, í umræðum um þjóðmál að einstök mál opna sviðið, það er eins og dregið sé frá sviðinu eins og gerist á leiksýningum að tjöldin eru dregin frá og þá kemur eitt og annað í ljós. Það er rétt sem hv. þm. Páll Pétursson sagði hér um daginn að þetta mál, eins og það birtist okkur, vegur að þjóðfélagsgerðinni. Það er ekki hótfyndni. Það er rétt. Þarna sér þjóðin inn í fyrirgreiðslupólitíkina sem Sjálfstfl. hefur rekið sérstaklega á undanförnum árum, bæði í gegnum ríkið og Reykjavíkurborg. Þarna sést hvernig Sjálfstfl. hefur hyglað sínum mönnum á kostnað annarra, hlaðið undir forréttindi einstakra hópa. Og er það að furða, virðulegi forseti, að menn tali um spillingu í þessu sambandi?
    Auðvitað má segja að það sé leitt að málið sé þannig vaxið að það þurfi fyrst og fremst að tala um einn einstakling í þessu máli vegna þess að að mínu mati er hann hluti fyrir heild. En engu að síður er ferill hans og tengsl alls staðar í kerfinu, í öllum sjóðum og ríkisstofnunum sem snerta menningarmál

með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að opna þau. Honum er vikið úr starfi sem dagskrárstjóri sjónvarpsins. Hann er ráðinn nokkrum dögum seinna sem framkvæmdastjóri sömu stofnunar. Það eru augljós hagsmunatengsl sem þarna er um að ræða.
    Í fyrsta lagi hafði þessi maður selt sjónvarpinu tæki.
    Í öðru lagi hafði hann selt mynd á betra verði með hraðari greiðslum en nokkrir aðrir í sjónvarpið.
    Í þriðja lagi fær hann styrk úr Kvikmyndasjóði og blekkir sjóðinn í leiðinni, lýsir því yfir um leið og hann skrifar undir styrkmóttökuna að hann muni ekki leita eftir sérstökum stuðningi sjónvarpsins.
    Í fjórða lagi fær hann styrk út á myndina úr Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum með venjulegum hætti.
    Í fimmta lagi skammar hann sjóðinn fyrir það að láta sig ekki hafa nógu mikla peninga og fær til þess ráðuneytisstjórann í menntmrn. sem var hér af hæstv. ráðherra áðan sakaður um óvenjuleg embættisafglöp. Ég hef satt að segja aldrei heyrt ráðherra bera á ráðuneytisstjóra sinn önnur eins embættisafglöp og þau sem fram komu hér í máli hæstv. ráðherra áðan.
    Í sjötta lagi kemur það fram að þessi einstaklingur lætur ekki hér við sitja. Hann smokrar sér inn í Vestnorræna sjóðinn og fær þar sérstakan styrk upp á 5 millj. kr. En stjórn þessa sjóðs hefur verið mjög treg til að láta menn hafa stuðning til nokkurs hlutar. Og, virðulegi forseti, nú skil ég loksins af hverju hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni lá svona mikið á að hreinsa út stjórn Vestnorræna sjóðsins í fyrra, henda út þeim mönnum sem þar voru og höfðu verið og setja inn nýja menn.
    Í sjöunda lagi er þessi maður, virðulegi forseti, skipaður formaður Menningarsjóðs útvarpsstöðva.
    Í áttunda lagi selur hann þrjár myndir til Námsgagnastofnunar sem eru bannaðar börnum.
    Þarf meira? Þetta gengur ekki, hæstv. utanrrh. þó hæstv. ráðherra þyki vænt um stólinn sinn.
    En það er hægt að nefna önnur dæmi um vinnubrögðin að undanförnu þar sem menn eru að setja menningarlífið á Íslandi undir póltíska ráðstjórn Sjálfstfl. Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Það sem hrópar í himininn er dæmið með Hrafn Gunnlaugsson. Næsta dæmi sem ég nefni er Þjóðminjasafnið þar sem Guðmundi Magnússyni er troðið inn í blóra við allt starfsfólkið. Þriðja dæmið sem ég nefni er t.d. yfirstjórn Listasjóðs. Þar tilnefnir ráðherrann einn mann. Hvern? Láru Margréti Ragnarsdóttur. Í hvaða flokki er hún? Sjálfstfl. að ég best fæ vitað. Í fjórða lagi nefni ég Bókmenntakynningarsjóð. Hver er þar skipaður af ráðherra án tilnefningar? Ólafur Oddsson. Í hvaða flokki er hann? Sjálfstfl., eða hvað? Ég nefni í fimmta lagi stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Ég nefni í sjötta lagi stjórn Rithöfundasjóðs Íslands. Hver er þar? Sverrir Hermannsson. Í hvaða flokki er hann? Hann er í Sjálfstfl. Ég nefni í sjöunda lagi stjórn Þýðingarsjóðs. Hver er þar? Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Í hvaða flokki er hann? Í Sjálfstfl. Og þá má kannski geta þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson fékk á dögunum sérstaka fyrirgreiðslu úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Til hvers? Til að gera þátt. Um hvað? Um hugmyndahvörf Íslendinga á 20. öld. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Víðsýni og málefni, eru þau í för þess manns? Nei, það held ég ekki, virðulegi forseti.
    Og þessi sami flokkur, sem beitir sér með þessum hætti, lætur sig hafa það auk þess í menningarmálum að leggja skatta á alla menningarstarfsemi þannig að það er þrengt að henni langt umfram það sem nokkurn tíma hefur verið áður.
    Það er von, virðulegi forseti, að það sé talað um ,,einkavinavæðingu``. Það er snjallt orð, virðulegi forseti. Það lýsir betur en allt annað hinum helgu véum Sjálfstfl. sem Alþfl. virðist nú hafa samþykkt að innsigla með því að gera hrafninn líka að sínu merki. Ja, svei!