Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:01:13 (7188)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé ekki besta lausnin í siðferðilegum deilumálum að gefa þeim sjálfdæmi, hv. þm. Svavari Gestssyni, hv. þm. Páli Péturssyni eða hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um það hvað er siðgæði og hvað er rétt siðferðileg hegðun. Ég er eindregið þeirrar skoðunar vegna þess að ég er ekki með pólitískum rannsóknarréttum og ég er ekki með alþýðudómstólum.
    En, virðulegi forseti, hv. þm. sagði hér: Sú var tíð að Alþfl. flutti hér tillögur um t.d. kröfur til þingnefnda um eftirlit með framkvæmd laga. Það vill svo til að ég er hér með í höndunum frv. til laga þar sem 1. flm. var Vilmundur Gylfason sem menn hafa oft vitnað til. Hann flutti hér tillögu sem var um það að efla eftirlitsstarf þingnefnda með framkvæmd laga. Hann flutti jafnframt tillögu um það að skipa sérstakar nefndir til þess að athuga framkvæmd laga. Hann vildi opna fyrir það að bandarískum sið að heimilt væri þingnefndum að kalla fyrir sig einstaklinga þótt ekki væru í opinberu starfi. En hann gerði skýran greinarmun á því hvort við værum að ræða um hlutverk þingnefnda við að fylgja eftir framkvæmd laga og hafa eftirlit með samskiptum ríkisstofnana við almenning eða að ætla að misbeita þessu valdi með því að setja á stofn pólitískar nefndir pólitískra andstæðinga sem þegar eru búnir að komast að niðurstöðu í málinu, þegar eru búnir að dæma viðkomandi einstakling og setja stimpil rannsóknarréttarins á slíkar niðurstöður. Vegna þess að það er munur á því að reyna af hálfu löggjafans að fylgja fram réttum lögum og svo hinu að setja upp pólitíska dómstóla yfir einstaklingum. Það er hlutverk dómstóla en ekki Alþingis. Menn eru hér að rugla því saman. Eitt er hlutverk löggjafarvalds, annað framkvæmdarvalds og svo dómsvalds. Og þingmenn geta ekki, hv. þm., og eiga ekki að taka sér hlutverk dómarans.