Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:04:34 (7190)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég skal hafa þetta afar stutt. Þetta er aðferð hv. þm. að í staðinn fyrir að svara málefnalega að svara með dylgjum; að telja upp menn og segja: Formaður Alþfl. treystir ekki sínum eigin þingmönnum. (Gripið fram í.) Þetta eru dylgjur. Það sem ég var að segja er þetta: Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að setja sig upp í dómarasæti, ef um siðferðileg málefni er að ræða, yfir pólitískum andstæðingum sínum. (Gripið fram í.) Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að setja upp gervidómstóla. (Gripið fram í.) Að setjast í dómarasæti um málefni sem þeir geta ekki kveðið upp dóm um á öðrum en pólitískum forsendum. (Gripið fram í.) Þið eruð þegar búnir að kveða upp ykkar dóm. (Gripið fram í.) ( Forseti: Ekki trufla umræðuna.) Þetta er fráleitt, þessi frammíköll eru til marks um rökþrot hv. þm. Það sem um er að ræða er einfaldlega þetta og ég segi: Ef um er að ræða ávirðingar sem fram eru bornar og varða fjárhagsleg málefni, þá er enginn aðili betur til þess fallinn en Ríkisendurskoðun að vinna það verk. Henni yrði treyst. Hv. þm. yrði ekki treyst til þess. Til þess er hann þegar búinn að segja allt of margt með ásökunum sínum hér úr þessum ræðustól. Það verða aðrir að koma til, til þess að kveða upp hlutlægan dóm í því efni. ( SvG: Ég treysti Gunnlaugi.) Þér er ekki treystandi.