Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:51:47 (7220)

     Flm. (Páll Pétursson) (andsvar) :
    Frú forseti. Samúð mín sem ég hafði með hæstv. menntmrh. breyttist hér á þessum mínútum í vorkunnsemi. Ég held að hæstv. menntmrh. ætti að greina svolítið nánar frá samskiptum Hrafns við menntmrn. Ég held að það hefði visst upplýsingagildi. Auðvitað er hæstv. menntmrh. orðinn margsaga í þessu máli. Ég hef ekki tíma hér í stuttu andsvari til þess að rekja blaðaviðtöl eða fjölmiðlaviðtöl við ráðherra eða hvað sem hann hefur sagt. Sem betur fór fyrir hann hvarf hann til Ameríku og flutti þar fyrirlestur í Harvard og þagði í nokkra daga. En það getur vel verið að ég rifji þetta upp einhvern tíma síðar og setji saman greinarstúf eða hafi orð á því hér í betra tómi.
    Það hefur komið í ljós að fyrrv. ráðuneytisstjóri í menntmrn. rífur upp póstinn ráðherrans, persónulega merktan ráðherranum, svarar bréfunum hans á ábyrgð hans, skrifar undir fyrir hönd hans, sendir þau til útlanda ráðherranum til skammar en á ábyrgð hans og því spyr ég: Til hvers er hæstv. menntmrh. að vera í svona ráðuneyti og láta ganga svona yfir sig? Því er hann að sitja á þessum stóli? Er ekki eins gott að láta þá bara Knút um það að stjórna þessu öllu og þá á eigin ábyrgð? Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég nenni ekki að elta ólar við hæstv. menntmrh. því hann er ekkert aðalkallinn í málinu. Það er aðalkallinn í málinu sem ég vil hafa fyrir sökum, þann sem ber auðvitað hina siðferðilegu ábyrgð á málinu, forsætisráðherrann á Íslandi.